Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 916  —  494. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um úrskurð kærunefndar útboðsmála, útboð og stefnumótun um stafræna þjónustu.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við úrskurði kærunefndar útboðsmála í máli nr. 8/2021 þar sem niðurstaðan var sú að embætti landlæknis hefði verið skylt að bjóða út innkaup á þróun hugbúnaðar á Evrópska efnahagssvæðinu?
    Á þessu stigi er embætti landlæknis enn að fara yfir úrskurðinn og ákveða hvernig brugðist skuli við. Á meðan þessi vinna fer fram er ekki brugðist við af hálfu ráðherra. Ráðherra leggur þó áherslu á að farið sé eftir lögum og reglum sem gilda um innkaup ríkisins í öllum innkaupum undirstofnana. Ljóst er að þessi úrskurður ætti að vera embætti landlæknis hvatning og tækifæri til að fara yfir innkaup hjá Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna.

     2.      Fer fram eftirlit með því að verkefni sem eru útboðsskyld samkvæmt lögum séu í reynd boðin út?
    Þegar stjórnvöld kaupa þjónustu eða vöru af einkaaðilum leggur það stjórnvald sem í hlut á mat á það hvort innkaupin teljist útboðsskyld á grundvelli laga um opinber innkaup. Telji stjórnvaldið, í þessu tilviki embætti landlæknis, kaupin ekki falla undir lögin fara þau fram án útboðs, en öðrum aðilum er þó heimilt að kæra þá ákvörðun til kærunefndar útboðsmála og fá úr því skorið hvort innkaupin hafi verið útboðsskyld á grundvelli laga um opinber innkaup. Eftirlit eða úrskurðarvald um það hvort innkaup hafi verið í samræmi við lög um opinber innkaup liggur þannig hjá kærunefnd útboðsmála að undangenginni kæru aðila þangað vegna meintra brota á lögunum. Má þó einnig benda á að Samkeppniseftirlitið hefur það almenna hlutverk að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaði, sbr. c-lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005.
    Hvað varðar innkaup embættis landlæknis sérstaklega hefur heilbrigðisráðherra, sem æðsti framkvæmdarvaldshafi á sviði heilbrigðismála, yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir með embættinu, sbr. IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Hefur ráðherra þannig almennt eftirlit með því að undirstofnanir hans starfi í samræmi við lög, svo sem um opinber innkaup. Verði ráðherra þess var að svo sé ekki getur hann tekið málið til skoðunar hjá sér í samræmi við heimildir í lögum um Stjórnarráð Íslands.

     3.      Hefur verið unnið að stefnumótun af hálfu ráðuneytisins hvað varðar heilsutækni?
    Í ráðuneytinu hefur verið sett fram stefna vegna stafrænnar heilbrigðisþjónustu og er sú stefna í takt við stefnu Stafræns Íslands. Stefna þessi er unnin upp úr heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og leggur áherslu á þrjú meginatriði:
     1.      Að einstaklingar séu í auknum mæli þátttakendur í eigin meðferð og heilsueflingu.
     2.      Að auka samhæfingu milli kerfa heilbrigðiskerfisins.
     3.      Að styðja við nýsköpun og eflingu vísinda og rannsókna.
    Þessi stefna hefur verið kynnt öllum helstu undirstofnunum ráðuneytisins sem þróa og kaupa hugbúnað. Verið er að vinna að stöðutöku á málaflokknum sem fylgt verður eftir með aðgerðaáætlun.

     4.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að jafna aðgengi tæknilausna af hálfu hins opinbera og einkaaðila í heilbrigðiskerfinu, sbr. stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera frá 2021 þar sem lögð er áhersla á að stafræn þjónusta og nýjar lausnir séu þróaðar í samvinnu við fjölbreyttan hóp fyrirtækja og sérfræðinga, m.a. með hagnýtingu opins hugbúnaðar?
    Í fyrrnefndri stefnu er m.a. lögð áhersla á að styðja við nýsköpun og þar segir meðal ann ars að „nýsköpun í heilbrigðistækni njóti stuðnings og stuðlað [sé] að samvinnu heil brigðis stofnana og allra aðila“. Á hugbúnaður, sem uppfyllir fyrirmæli landlæknis um gæði og ör yggi, að geta tengst Heklu – heilbrigðisneti og þannig einnig tengst samræmdri rafrænni sjúkra skrá, óháð því hvort eigandi eða rekstraraðili er opinber aðili eða einkafyrirtæki.
    Þá hefur Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna (MRH) hjá embætti landlæknis unnið að því á ýmsan hátt síðustu ár að jafna aðgengi þróunaraðila að miðlægum heilbrigðislausnum og ýta undir nýsköpun í stafrænum heilbrigðislausnum:
     1.      Haldin hafa verið lausnamót (hackathon) síðustu fimm árin þar sem settar eru upp áskor an ir úr heilbrigðisþjónustunni sem þátttakendur spreyta sig á að koma með lausnir á. Síð ustu árin hefur lausnamótið verið haldið í samvinnu við Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
     2.      Unnið hefur verið að skjölun á forritunarviðmóti við Heklu – heilbrigðisnet til að auð velda þróunaraðilum að útbúa lausnir sem nýta sér gagnasendingar (t.d. tilvísanir, lækna bréf og lyfjaávísanir) og miðlægar heilbrigðislausnir, svo sem lyfjaávísanagátt og bólu setningargrunn.
     3.      Unnið hefur verið að því að tryggja þróunaraðilum aðgang að þróunar- og prófunar umhverfi fyrir Heklu – heilbrigðisnet hafi þeir áhuga á að þróa lausnir sem nýta sér Heklu. Þeim er einnig tryggður aðgangur að aðstoð komi upp einhverjar spurningar eða vandamál við þróun og prófanir.
     4.      Komið hefur verið upp forritunarviðmóti fyrir „Mínar síður“ á Heilsuvera.is sem þró unar aðilar geta nýtt sér til að búa til smáforrit eða veflausnir með aðgengi að þeim upp lýs ingum sem einstaklingar hafa aðgang að í sjúklingagáttinni.
     5.      Stutt hefur verið við fjölda aðila sem vilja þróa stafrænar heilbrigðislausnir eða koma með slíkar lausnir inn á íslenskan markað með ráðgjöf, m.a. er varðar virkni, öryggismál, lagaumgjörð og tengingu við veitendur heilbrigðisþjónustu sem gætu nýtt sér lausnirnar.
     6.      Embætti landlæknis er einn af stofnaðilum heilbrigðistækniklasa sem nú er unnið að því koma á laggirnar í samvinnu við fleiri aðila, m.a. Nýsköpunarvikuna, Landspítala og Heilsu gæslu höfuðborgarsvæðisins.
    MRH reynir stöðugt að auka samvinnu við aðra aðila, svo sem Starfrænt Ísland, Land spítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins o.fl. MRH vinnur að stefnumótun sem tryggja á aukið aðgengi að miðlægum heilbrigðislausnum og ýta á undir nýsköpun þannig að öryggi viðkvæmra heilbrigðisupplýsinga sé tryggt.