Ferill 645. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 923  —  645. mál.
Beiðni um skýrslu


frá innviðaráðherra um eftirlitsstörf byggingarstjóra.

Frá Birni Leví Gunnarssyni, Andrési Inga Jónssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Eyjólfi Ármannssyni, Gísla Rafni Ólafssyni, Guðbrandi Einarssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Halldóru Mogensen, Helga Þórðardóttir, Jakobi Frímanni Magnússyni, Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Tómasi A. Tómassyni og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að innviðaráðherra flytji Alþingi skýrslu um störf byggingarstjóra.
    Í skýrslunni verði fjallað um hvort núverandi fyrirkomulag stjórnsýslu og eftirlits með húsabyggingum tryggi með fullnægjandi hætti gæði bygginga. Sérstaklega verði fjallað um áhrif laga nr. 64/2018, um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010 (stjórnsýsla við mannvirkjagerð o.fl.), á gæði bygginga, sérstaklega hvað varðar störf byggingarstjóra og skyldur þeirra í eftirliti með verkþáttum við húsabyggingar.

Greinargerð.

    Nýverið hafa borist ótal fréttir um rakaskemmdir og myglu í nýbyggingum vegna ófullnægjandi frágangs við byggingarframkvæmdir. Hafa þær eðlilega vakið spurningar um hvort eftirlit með verkþáttum í slíkum framkvæmdum sé nægjanlegt. Með lögum nr. 64/2018 voru gerðar breytingar á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, þess efnis að byggingarstjóra var í meginatriðum falin framkvæmd áfangaúttekta auk þess sem þeim var í auknum mæli falið eftirlit með störfum iðnmeistara. Markmið laganna var að lækka byggingarkostnað og einfalda stjórnsýslu við mannvirkjagerð, sem er mikilvægt markmið, en ekki er síður mikilvægt að tryggja gæði bygginga þannig að frágangur þeirra sé ekki með þeim hætti að hann geti verið heilsuspillandi fyrir íbúa. Er því óskað skýrslu innviðaráðherra um eftirlitsstörf byggingarstjóra og hvort þær breytingar á eftirliti með nýbyggingum sem gerðar voru með lögum nr. 64/2018 hafi haft neikvæð áhrif á gæði byggingarframkvæmda, sérstaklega hvað varðar nýbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þá er þess sérstaklega óskað að fram fari mat á því hvort um mögulegan hagsmunaárekstur kunni að vera að ræða þegar byggingarstjóri byggingarframkvæmdar er á launaskrá hjá framkvæmdaraðila.