Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 927  —  404. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um framlag vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra ástæðu til að hækka þá upphæð sem heimilt er að greiða úr Jöfnunarsjóði vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlum, sbr. reglugerð nr. 180/2016, úr 25 millj. kr. árlega í ljósi kröfu um aukin vatnsgæði við framleiðslu landbúnaðarafurða og í ferðaþjónustu? Hyggst ráðherra beita sér í þessu og þá hvernig?

    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur um árabil, á grundvelli heimildar í reglugerð nr. 180/2016, greitt framlög vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á vegum eigenda lögbýla þar sem svo háttar til að hagkvæmara er að mati sveitarstjórnar að leggja vatnsveitu að einstökum bæjum, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004.
    Frá því á árinu 2016 hefur sjóðnum verið heimilt skv. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 180/2016 að greiða allt að 25 millj. kr. árlega vegna stofnkostnaðar við vatnsveituframkvæmdir á lögbýlum. Framlögin eru greidd til Matvælastofnunar sem sér um meðferð umsókna og tillögugerð að úthlutun framlaganna.
    Vinna hefur staðið yfir í ráðuneytinu varðandi mögulega hækkun framlaganna og var málið tekið til umfjöllunar og afgreiðslu í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs í síðasta mánuði. Samþykkti nefndin að leggja til við ráðherra hækkun á fjárhæðum framlaganna og er unnið að reglugerðarbreytingum vegna þessa.