Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 928  —  372. mál.
Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Kjartani Magnússyni um skoðun á fjármálum Reykjavíkurborgar.


     1.      Hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og/eða ráðuneyti sveitarstjórnarmála tekið fjármál Reykjavíkurborgar til sérstakrar skoðunar í ljósi skuldastöðu borgarinnar og langvarandi ósjálfbærs rekstrar hennar og ef svo er, hvernig fór sú skoðun fram? Ef fjármál Reykjavíkurborgar hafa ekki verið tekin til sérstakrar skoðunar, hvers vegna ekki?
    Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) starfar samkvæmt VIII. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, og í 79. gr. er fjallað um hlutverk eftirlitsnefndar:
    Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skal fylgjast með fjármálum, þ.m.t. reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga, og bera þau saman við viðmiðanir samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Nefndin skal hafa almennt eftirlit með því að fjármál og fjármálastjórn sveitarfélaga séu í samræmi við lög og reglur.
    Eftirlit nefndarinnar og ákvarðanir hennar skulu byggjast á heildarmati á fjárhagslegri stöðu viðkomandi sveitarfélaga. Nefndinni ber í einstökum málum að velja þau úrræði sem líklegast er að nái því markmiði sem að er stefnt að teknu tilliti til sjálfstjórnar sveitarfélaga.
    Jafnframt starfar nefndin eftir reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, nr. 502/2012. Reglugerðin fjallar um störf eftirlitsnefndar og fjárhagsleg viðmið sem nefndin vinnur eftir.
    Hvorki eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga né ráðuneytið hafa tekið fjármál Reykjavíkurborgar til sérstakrar skoðunar. Lykiltölur sem notaðar eru til viðmiðunar á fjárhagsstöðu sveitarfélaga hafi ekki gefið tilefni til þess að skoða fjármál Reykjavíkurborgar sérstaklega. Í eftirfarandi töflu má sjá helstu lykiltölur úr samþykktum ársreikningum 2015–2020 fyrir annars vegar samstæðu Reykjavíkurborgar (A- og B-hluta) og hins vegar A-hluta borgarinnar.

Tafla 1. Lykiltölur úr rekstri Reykjavíkurborgar 2015–2020.

A- og B-hluti 2015 2016 2017 2018 2019 2020
Skuldaviðmið 97% 85% 77% 135% 143% 143%
Skuldaviðmið án OR 71% 67% 73% 79% 88%
Rekstrarniðurstaða 32.498 14.513 28.027 12.342 11.199 -2.778
Jafnvægisregla 32.498 14.513 75.038 54.882 51.568 20.763
Framlegð 20.850 37.080 39.598 43.770 39.403 33.143
Heildarskuldir 301.553 290.465 297.306 324.387 345.023 385.843
A-hluti 2015 2016 2017 2018 2019 2020
Skuldaviðmið 71% 63% 50% 49% 53% 56%
Rekstrarniðurstaða -13.636 2.637 4.971 4.726 1.358 -5.843
Jafnvægisregla -13.830 -13.459 -6.027 12.334 11.055 241
Framlegð -8.710 7.354 9.190 10.104 6.259 -63
Heildarskuldir 80.702 83.766 98.627 108.148 112.201 123.757

    Skuldaviðmið skv. 14. gr. reglugerðar nr. 502/2012 fyrir A- og B-hluta er undir 150% hámarksviðmiðinu á öllu tímabilinu og jafnframt hefur Reykjavíkurborg uppfyllt viðmiðið um jafnvægi í rekstri (jafnvægisreglu) sem sýnir rekstrarniðurstöðu á þriggja ára tímabili. Eina árið sem er neikvæð afkoma fyrir samstæðuna á tímabilinu er árið 2020.
    Varðandi A-hluta þá er skuldaviðmiðið jafnframt undir 150% hámarkinu öll árin. Á árinu 2015 var gjaldfærð hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar að fjárhæð 14,6 milljarða kr. Um var að ræða hækkun vegna leiðréttinga á forsendum fyrri ára við mat á lífeyrisskuldbindingum, sem meðal annars fólust í uppfærðum dánar- og lífslíkum til raungilda á því ári. Þetta er stærsta skýringin á neikvæðri rekstrarniðurstöðu um 13,6 milljarða kr. á árinu 2015, sem hefur þau áhrif að jafnvægisreglan er í mínus fyrir árin 2015, 2016 og 2017. Að öðru leyti er ekkert í lykiltölunum fyrir árin 2015–2020 sem hefur kallað á sérstaka skoðun á fjármálum Reykjavíkurborgar.
    Að lokum má nefna að sveitarstjórn og endurskoðanda sveitarfélags er skylt að tilkynna til eftirlitsnefndar ef sveitarfélagið er í fjárþröng eða ef frávik eru frá fjárhagslegum viðmiðum. Engin slík tilkynning hefur borist varðandi Reykjavíkurborg til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga vegna tilgreindra ára.

     2.      Eru til almennar viðmiðanir sem eftirlitsnefndin og/eða ráðuneytið hafa til hliðsjónar þegar metið er hvort taka þurfi fjármál sveitarfélags til sérstakrar skoðunar vegna ósjálfbærs reksturs til margra ára og mikillar skuldsetningar?
    Viðmið um fjárhagsstöðu sveitarfélaga sem EFS byggist á koma fram í 64. gr. sveitarstjórnarlaga og í reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, nr. 502/2012. Um er að ræða tvö fjárhagsleg viðmið sem gilda fyrir A- og B-hluta sem er annars vegar svokölluð jafnvægisregla og hins vegar skuldaregla. Jafnvægisreglan segir að samanlögð heildarútgjöld á þriggja ára tímabili skuli ekki vera hærri en samanlagðar tekjur. Um skuldaregluna gildir að skuldaviðmið sé ekki hærra en 150% af tekjum.
    Samkvæmt bráðabirgðaákvæði VII í sveitarstjórnarlögum er sveitarstjórn heimilt að víkja frá fyrrgreindum viðmiðum fyrir árin 2020–2025.
    Samt sem áður gildir að sveitarstjórnum ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum. Á hverju ári fer eftirlitsnefndin yfir ársreikninga, útkomuspár og fjárhagsáætlanir sveitarfélaga þegar tiltekin atriði liggja fyrir á hverjum tíma. Ef eitthvað athugavert kemur í ljós við þá yfirferð er brugðist við, í sumum tilvikum send ábending en í öðrum er óskað eftir skýringum og eftir atvikum frekari gögnum. Ekki eru sérstök viðmið sem segja til um hvenær slík skoðun fer fram enda geta ýmsir þættir ráðið þar för.