Ferill 649. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 929  —  649. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um styrkveitingu til Íslandsdeildar Transparency International.


Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að gera ráð fyrir 15 millj. kr. á ári til málaflokks 03.30 Forsætisráðuneyti á málefnasviði 03 Æðsta stjórnsýsla í fjárlögum fyrir árin 2023–2027 til reksturs skrifstofu og til verkefna á vegum Íslandsdeildar Transparency International.

Greinargerð.

    Spilling hefur verið skilgreind sem misbeiting valds í þágu sérhagsmuna. Rannsóknir sýna með óyggjandi hætti að spilling er illvíg samfélagsleg meinsemd sem vegur að lýðræðinu, mannréttindum og réttarríkinu. Hún leiðir til mismununar, hamlar efnahagslegri þróun, skerðir lífskjör og eykur ójöfnuð. Spilling veldur umhverfisspjöllum og mengun og stuðlar að sóun auðlinda og síðast en ekki síst grefur hún undan heilbrigðum viðskiptaháttum. Hún skekkir samkeppni og skaðar fyrirtæki, starfsfólk og neytendur og bitnar mest á þeim sem minnst vald og áhrif hafa, verst standa og eru fátækastir. Spilling er alltaf ógn við hagsmuni almennings.
    Samtökin Transparency International (TI) voru stofnuð árið 1992 og eru ein stærstu alþjóðlegu samtökin sem vinna að heilindum gegn spillingu í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptalífi hvarvetna í heiminum og því mikla óréttlæti og samfélagslega skaða sem hún veldur. Samtökin eru sjálfstæð og óháð stjórnvöldum og eru óhagnaðardrifin. Þau starfa í meira en 100 löndum.
    Gagnsæi – samtök gegn spillingu voru stofnuð í desember 2014 í þeim tilgangi að sækja um aðild að alþjóðasamtökunum Transparency International og vinna gegn spillingu í íslensku samfélagi með því að auka þekkingu á einkennum og aðstæðum sem geta hvatt til spilltrar hegðunar og efla almennan skilning á afleiðingum spillingar. Íslandsdeild Transparency International var stofnuð árið 2021 að fyrirmynd og samkvæmt forskrift alþjóðasamtakanna.
    Íslandsdeild Transparency International vinnur að markmiðum sínum með því að:
     1.      Halda fræðslufundi og ráðstefnur.
     2.      Stuðla að vísindalegum rannsóknum, mati á heilindavísum, spillingarhvötum og spillingarvörnum.
     3.      Þýða og miðla upplýsingum og góðum fyrirmyndum (e. best practice).
     4.      Hafa frumkvæði að opinni og upplýstri umræðu um heilindi í stjórnmálum, stjórnsýslu, viðskiptalífi og samfélagi og skipulagðar spillingarvarnir.
     5.      Taka þátt í innlendu sem alþjóðlegu samstarfi um heilindi, spillingarvarnir og greiningu.
     6.      Hvetja til gagnsærrar ákvarðanatöku í opinberri stefnumótun, gagnsæi í stjórnun og samskiptum og árvekni gagnvart spillingu og spillingarhættu í íslensku samfélagi.
    Til að þetta geti gengið eftir þarf að tryggja rekstrargrundvöll deildarinnar þar til hún hefur náð að festa sig betur í sessi og hefur tryggt rekstur sinn með styrkjum frá einstaklingum, eins og að er stefnt og unnið að. Stjórn Íslandsdeildar áætlar að til þess þurfi að lágmarki 25 millj. kr. á ári.
    Í Noregi styður hið opinbera við Transparency í gegnum ríkissjóð, ríkisfyrirtæki og sveitarfélög. Í Svíþjóð hefur verið stofnaður sjóður fyrir samtök sem hafa það að aðalmarkmiði að berjast gegn spillingu sem lið í aukinni vernd fyrir uppljóstrara. Þá hafa fjölmörg ríki stutt við bakið á samtökunum, þar á meðal Bandaríkin, Bretland, Danmörk, Ástralía, Nýja Sjáland, Kanada, Þýskaland, Írland, Svíþjóð og Sviss. Tæplega 60% af rekstrarfé Transparency International koma frá opinberum aðilum enda sinna samtökin mikilvægri þjónustu sem varðar almannahag.
    Augljósir almannahagsmunir eru undir og mikilvægt að markvisst sé unnið gegn spillingu í íslensku samfélagi. Því er með tillögu þessari lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra geri ráð fyrir fjármunum til Íslandsdeildar Transparency International svo að samtökin geti náð markmiðum sínum.