Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 932  —  445. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um hlutlausa skráningu kyns í vegabréfum.


     1.      Hvaða ríki bjóða upp á hlutlausa skráningu kyns í vegabréfum?
    Upplýsingar um það hvaða ríki bjóða upp á hlutlausa skráningu kyns í vegabréfum liggja ekki fyrir í dómsmálaráðuneytinu. Ráðuneytinu er þó kunnugt um að útgáfa vegabréfa með hlutlausri skráningu kyns hófst í Bandaríkjunum 11. apríl sl.

     2.      Hversu mörg vegabréf hefur íslenska ríkið gefið út til einstaklinga með hlutlausa skráningu kyns?
    Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði, skal ávallt tákna hlutlausa skráningu kyns í vegabréfum með bókstafnum X. Þjóðskrá Íslands annast útgáfu vegabréfa á Íslandi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um vegabréf, nr. 136/1998. Ráðuneytið aflaði upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands um fjölda útgefinna vegabréfa með hlutlausri skráningu kyns. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hafa verið gefin út 34 vegabréf með hlutlausri skráningu kyns.

     3.      Þekkir ráðuneytið dæmi þess að fólk með hlutlausa skráningu kyns í vegabréfi verði fyrir áreitni eða fordómum, sé tafið, meinað um byrðingu eða lendi í öðrum vandræðum í tengslum við kynskráninguna á ferðalögum? Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að koma í veg fyrir að slíkt gerist frá því að fyrst var boðið upp á hlutlausa skráningu kyns í íslenskum vegabréfum?
    Dómsmálaráðuneytinu hafa ekki borist upplýsingar um að fólk með hlutlausa skráningu kyns í vegabréfi verði fyrir áreitni eða fordómum, sé tafið, meinað um byrðingu eða lendi í öðrum vandræðum í tengslum við kynskráninguna á ferðalögum. Ekki hefur verið gripið til sérstakra aðgerða af hálfu ráðuneytisins til að koma í veg fyrir að slíkt gerist.

     4.      Er ráðuneytinu kunnugt um það að ríki viðurkenni ekki vegabréf erlendra ríkisborgara með hlutlausa skráningu kyns? Hvaða ríki háttar svo um?
    Dómsmálaráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hvort eða hvaða ríki viðurkenni ekki vegabréf erlendra ríkisborgara með hlutlausa skráningu kyns.

     5.      Hefur komið til athugunar að kyn einstaklinga verði ekki skráð í íslensk vegabréf?
    Ekki hefur komið til athugunar í dómsmálaráðuneytinu að kyn einstaklinga verði ekki skráð í íslensk vegabréf.

     6.      Kemur til greina að breyta reglum um vegabréf á þann hátt að einstaklingi með hlutlausa skráningu kyns sé heimiluð handhöfn aukavegabréfs með annarri skráningu kyns, sem nota megi þar sem hlutlaus skráning kyns í vegabréfi geti verið handhafa til ama?
    Ekki hefur komið til umræðu í dómsmálaráðuneytinu að breyta reglum um vegabréf á þann hátt að einstaklingi með hlutlausa skráningu kyns sé heimiluð handhöfn aukavegabréfs með annarri skráningu kyns, sem nota megi þar sem hlutlaus skráning kyns í vegabréfi geti verið handhafa til ama.