Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 937  —  408. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 (tímabundin fjölgun starfslauna og styrkja).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur, Heimi Skarphéðinsson og Arnfríði Sólrúnu Valdimarsdóttur frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
    Nefndinni barst ein umsögn um málið frá Bandalagi íslenskra listamanna sem lýsti yfir stuðningi við frumvarpið.
    Með frumvarpinu er lagt til að fjölgað verði tímabundið samanlögðum starfslaunum listamanna fyrir árið 2022 úr 1.600, líkt og mælt er fyrir um í 5. gr. laganna, í 1.800 sem skiptist á milli sviðslistafólks og tónlistarflytjenda. Ætlunin er að styðja þá hópa listamanna sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar, sem eru samkvæmt könnun Bandalags íslenskra listamanna haustið 2020 sviðslistafólk og tónlistarflytjendur. Jafnframt er lagt til að styðja sérstaklega unga listamenn innan þessara hópa með því að skilyrða að 50 mánaðarlaun séu ætluð annars vegar ungu sviðslistafólki og hins vegar ungum tónlistarflytjendum undir 35 ára aldri og styðja þannig við „unga listamenn sem oft eru að stíga sín fyrstu skref eftir nám eða að hefja feril sinn“ eins og segir í greinargerð frumvarpsins. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið en telur rétt að tilgreina að ætlunin sé að mæla fyrir um að 50 mánaðarlaun skuli ætluð listamönnum undir 35 ára aldri í hvorum hópi að lágmarki. Það sé því ekki komið í veg fyrir að þeir geti orðið fleiri enda verður viðbótarfjármagni samkvæmt frumvarpinu úthlutað eins og öðrum listamannalaunum af faglegum úthlutunarnefndum. Jafnframt er lögð til breyting, sem er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif, en er gerð í því skyni að skerpa á orðalagi með því að tilgreina þá hópa listamanna sem frumvarpið varðar og er vísað til í 9. og 10. gr. laganna.
    Að því virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Í stað orðsins „listamanna“ í 2. efnismgr. komi: sviðslistafólks og tónlistarflytjenda.
     b.      Í stað orðanna „skulu 50 mánaðarlaun“ í a- og b-lið 2. efnismgr. komi: skulu minnst 50 mánaðarlaun.

Alþingi, 26. apríl 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Jóhann Friðrik Friðriksson,
frsm.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Erna Bjarnadóttir. Eyjólfur Ármannsson.
Jódís Skúladóttir. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Logi Einarsson.