Ferill 652. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 939  —  652. mál.
Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um forvarnir og viðbrögð við gróðureldum.

Frá Gísla Rafni Ólafssyni.


     1.      Hversu margar slökkviskjólur voru keyptar fyrir Landhelgisgæslu Íslands, sbr. yfirlýsingar ráðherra 14. maí 2021 eftir að eina slökkviskjóla landhelgisgæslunnar eyðilagðist í gróðureldum?
     2.      Hvert er ástand þeirra slökkviskjóla sem landhelgisgæslan hefur yfir að ráða?
     3.      Hefur aðgengi landhelgisgæslunnar að þyrlueldsneyti verið tryggt í öllum landshlutum, eins og lagt var til í skýrslu átakshóps um uppbyggingu innviða, Aðgerðir vegna fárviðris og önnur innviðauppbygging, í framhaldi af fárviðrinu í desember 2019 (verkþáttur LAN-094)? Ef ekki, í hvaða landshlutum er aðgengi ekki tryggt?
     4.      Hvenær stendur til að fjölga þyrluáhöfnum landhelgisgæslunnar úr sex í sjö svo að hægt sé að tryggja betra viðbragð og úthald í aðgerðum?
     5.      Hefur fjármagn verið tryggt í fjárlögum eða í fjármálaáætlun til þess annars vegar að kaupa nauðsynlegan viðbragðsbúnað vegna gróðurelda, sbr. tillögur starfshóps Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í minnisblaði til ráðherra frá byrjun mars sl., og hins vegar koma upp viðbragðsáætlunum fyrir gróðurelda á helstu stöðum sem hætta er á að slíkir eldar kvikni?
     6.      Hversu margar viðbragðs-, flótta- og rýmingaráætlanir vegna gróðurelda eru til?
     7.      Hefur verið komið upp endurmenntunarnámskeiði fyrir slökkviliðsmenn vegna gróðurelda? Ef ekki, hvenær er von á að slíkt námskeið verði tilbúið og kennsla hafin?
     8.      Hver er staða á vinnu við rafrænu gáttina Brunagátt þar sem upplýsingar um búnað slökkviliða og staðsetningu hans eiga að verða aðgengilegar auk upplýsinga um miðlægan búnað og utanaðkomandi bjargir sem nýtast til slökkvistarfs?


Skriflegt svar óskast.