Ferill 615. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 949  —  615. mál.
Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um aðgerðir í kjölfar snjóflóða á Flateyri.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra beita sér fyrir uppbyggingu fiskeldis í Önundarfirði samkvæmt tillögu aðgerðahóps sem skipaður var í kjölfar snjóflóða á Flateyri árið 2020?

    Heilt yfir hefur orðið mikill uppgangur á Vestfjörðum, þ.m.t. á Flateyri, sem rekja má til starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Líkt og fram hefur komið í greiningum sem Vestfjarðastofa hefur látið vinna hafa mörg bein og óbein störf myndast á svæðinu, íbúafjöldi aukist og fasteignaverð hækkað.
    Varðandi frekari leyfisveitingar er það svo að með lögum nr. 101/2019, sem breyttu lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, var girt fyrir að veitt yrðu ný leyfi nema að undangengnu útboði. Bráðabirgðaákvæði II tryggði þó að ákveðinn hluti rekstrarleyfisumsókna sem út af stæði yrði afgreiddur samkvæmt eldri lögum en engin slík umsókn var í Önundarfirði. Bráðabirgðaákvæði IX, sem sett var með breytingalögum nr. 59/2021, kveður þó á um heimild til handa ráðherra til að bjóða út umframlífmassa í ákveðnum fjörðum, svo sem í Önundarfirði. Í Önundarfirði er 1.300 tonna umframlífmassi til staðar en tvö fyrirtæki eru með rekstrar- og starfsleyfi í firðinum upp á samtals 1.200 tonna lífmassa. Samkvæmt áðurnefndu bráðabirgðaákvæði IX er því ekki heimilt að veita leyfi til fiskeldis í Önundarfirði nema að undangengnu útboði.
    Í ríkisstjórnarsáttmála kemur fram að móta eigi heildstæða stefnu um uppbyggingu fiskeldis. Sem hluti af þeirri vinnu hefur ráðherra óskað eftir því að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluúttekt á málefnum fiskeldis. Þá er hafin vinna innan ráðuneytisins við undirbúning stefnumótunarskýrslu. Vonir standa til þess að í lok þessarar vinnu liggi fyrir skýr stefna stjórnvalda í málaflokknum sem geri atvinnugreininni kleift að standa enn traustari fótum svo að hægt sé að fara í áframhaldandi uppbyggingu á henni, þ.m.t. í Önundarfirði. Forsendur uppbyggingarinnar verða eftir sem áður byggðar á sjálfbærni og vísindalegri þekkingu. Þegar stefnumótunarvinnu stjórnvalda verður lokið standa enn fremur vonir til þess að haf- og strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði liggi fyrir sem leiði til meiri fyrirsjáanleika fyrir fiskeldisfyrirtæki og styttri umsóknartíma.
    Að mati ráðherra er það því hagur allra sem að atvinnugreininni standa að beðið sé úthlutunar á umframlífmassa í Önundarfirði þar til framangreindri stefnumótunarvinnu er lokið.