Ferill 667. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 966  —  667. mál.
Fyrirspurn


til heilbrigðisráðherra um útvistun aðgerða vegna of langs biðtíma.

Frá Hönnu Katrínu Friðriksson.


     1.      Hversu mörgum liðskiptaaðgerðum, annars vegar á mjöðm og hins vegar á hné, var útvistað til aðgerða erlendis vegna of langs biðtíma hér á landi á árunum 2017–2021? Hversu mörgum efnaskiptaaðgerðum (offituaðgerðum) var útvistað til aðgerða erlendis af sömu ástæðu á árunum 2017–2021?
     2.      Hver var kostnaður ríkisins vegna greiðsluþátttöku í útvistuðum aðgerðum, sundurliðað eftir framangreindum þremur aðgerðaflokkum? Bar ríkið annan kostnað af þessum aðgerðum en beina greiðsluþátttöku?
     3.      Var aðgerðum úr öðrum aðgerðaflokkum útvistað til aðgerða erlendis á árunum 2017– 2021 vegna of langs biðtíma? Ef svo er, hvaða aðgerðir voru það? Hver var kostnaðurinn af þeim?
     4.      Hversu margir erlendir þjónustuveitendur í hverjum framangreindra þriggja aðgerðaflokka veittu hina útvistuðu þjónustu á árunum 2017–2021? Hverjir eru þessir þjónustuveitendur, greint eftir þjóðerni og vinnustöðum í einu landi eða fleirum, eftir atvikum?
     5.      Er rétt að einstaklingum sem leituðu eftir útvistuðum aðgerðum hér á landi á árunum 2017–2021 vegna of langs biðtíma hafi verið neitað um greiðsluþátttöku á grunni þess að viðkomandi þjónustuaðilar höfðu ekki þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands eða vegna stöðu slíkra samninga? Ef svo er ekki, af hverju var beiðnum hafnað?
     6.      Hvernig fór fram athugun á því hvort erlendir þjónustuaðilar sem aðgerðum var útvistað til hefðu þjónustusamning við opinbera aðila í viðkomandi landi og uppfylltu skilyrði sem gerð eru til innlendra þjónustuaðila?
     7.      Hverjar eru greiðslur Sjúkratrygginga Íslands til þjónustuveitenda vegna útvistaðra aðgerða samanborið við verðskrá gildandi samninga sömu þjónustuveitenda við opinbera aðila í þeim löndum sem viðkomandi þjónustuveitandi starfar?


Skriflegt svar óskast.