Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 975  —  521. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um njósnaauglýsingar.


     1.      Hvernig er stafrænn réttur neytenda á veraldarvefnum tryggður með löggjöf hérlendis með hliðsjón af netauglýsingum sem byggjast á persónusniði og eftirliti með notendum, svonefndum njósnaauglýsingum?
    Samkvæmt 3. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, gildir reglan um upprunaland hér á landi. Með því er átt við að rafræn þjónusta sem þjónustuveitendur með staðfestu á Íslandi veita skuli vera í samræmi við íslensk lög um stofnun og starfrækslu þjónustunnar.
    Lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, (markaðssetningarlög) eru almenn lög og gilda um viðskiptahætti og markaðssetningu á Íslandi. Lögin kveða meðal annars á um að viðskiptahættir megi ekki brjóta í bága við góða viðskiptahætti gagnvart neytendum eða vera villandi og raska þannig verulega eða vera líklegir til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda. Í lögunum er gerð sú krafa að gera skuli grein fyrir viðskiptalegum tilgangi viðskiptahátta og að auglýsingar skuli þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Í markaðssetningarlögunum er hins vegar ekki að finna sérákvæði um markmiðaðar auglýsingar eða auglýsingar sem byggja á persónusniði og eftirliti með notendum.
    Ákvæði 13. gr. markaðssetningarlaganna hafa að geyma svonefnda almenna reglu sem er vísiregla. Samkvæmt almennu reglunni er óheimilt að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir eða eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda. Almennu reglunni er ætlað að ná til ýmissa tilvika sem önnur ákvæði laganna sem fjalla um sérstök tilfelli eða sérstakar viðskiptaaðferðir taka ekki til. Almenna reglan gerir þannig kleift að bregðast við nýjum aðferðum í markaðssetningu sem eru ótilhlýðilegar. Ákvæðið ætti til dæmis að vera unnt að nota vegna markaðssetningar sem gerir út á brot gegn friðhelgi einkalífs þótt ekki verði séð að reglunni hafi hingað til verið beitt með þeim hætti í íslenskum rétti.
    Auk framangreinds eru neytendur verndaðir gegn ólögmætri vinnslu persónuupplýsinga með ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem dómsmálaráðherra fer með og ákvæðum 42. og 47. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003, sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fer með.

     2.      Hyggst ráðherra tryggja betur stafræn réttindi neytenda á veraldarvefnum með tilliti til svonefndra njósnaauglýsinga?
    Hröð stafvæðing á neytendamörkuðum á undanförnum árum hefur í för með sér fjölda áskorana og tækifæra fyrir neytendur og fyrirtæki. Brýnt er að tryggja friðhelgi einkalífs neytenda á netinu eins og frekast er unnt og að neytendavernd hér á landi sé með besta móti. Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu er hafin vinna við heildarstefnumótun á sviði neytendaverndar. Í þeirri vinnu er meðal annars til skoðunar hvort þörf sé á nýrri löggjöf vegna markmiðaðra auglýsinga. Menningar- og viðskiptaráðuneytið fylgist grannt með tækniþróun á þessu sviði og stefnumótun á vettvangi Evrópusambandsins, m.a. með þátttöku í vinnuhópum EFTA, með tilliti til mögulegra skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Evrópuþingið og ráðið hafa nú til meðferðar tillögur að Evrópugerðum sem geta haft mikla þýðingu fyrir gagnsæi, söfnun og notkun gagna um neytendur fyrir markmiðaðar auglýsingar.

     3.      Hyggst ráðherra stuðla að vitundarvakningu neytenda þegar kemur að slíkum njósnaauglýsingum?
    Ráðherra hefur áhuga á að fara í sérstakar aðgerðir til að stuðla að vitundarvakningu neytenda vegna slíkrar markaðssetningar. Í því sambandi má vekja athygli á að ráðherra hefur undirritað þjónustusamning á milli ráðuneytisins og Neytendasamtakanna. Með samningnum er Neytendasamtökunum falið að sinna ákveðnum verkefnum á sviði neytendamála fyrir hönd stjórnvalda, svo sem fræðslu til almennings um neytendamál.