Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 984  —  610. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Eyjólfi Ármannssyni um rannsókn héraðssaksóknara.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve lengi hefur meint peningaþvætti og mútubrot tengd Samherja í svokölluðu Namibíumáli verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara?
     2.      Hefur héraðssaksóknari óskað eftir auknum fjármunum eða mannafla til að sinna rannsókninni? Ef svo er, hvernig hefur ráðherra brugðist við?
     3.      Er skýrslutökum og gagnaöflun lokið í tengslum við rannsókn málsins?
     4.      Hversu margar skýrslur hafa verið teknar af hversu mörgum aðilum í tengslum við rannsókn málsins?
     5.      Er málið komið í ákærumeðferð?
     6.      Hvenær má vænta þess að rannsókn héraðssaksóknara ljúki?


    Rétt er að taka fram að íslenskt sakamálaréttarfar byggist á því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma. Af þessu leiðir að dómsmálaráðuneyti og dómsmálaráðherra hafa engin afskipti af sakamálarannsóknum á Íslandi að undanskildu þröngu hlutverki ráðuneytisins í alþjóðlegri sakamálasamvinnu á grundvelli laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
    Starfsemi ákæruvaldsins er því sérstaks eðlis og hefur sérstöðu hvað varðar eftirlitsheimildir ráðherra. Það eru því takmarkanir á því með hvaða hætti ráðherra getur beitt sér gagnvart ákæruvaldinu og verða heimildir ráðherra til afskipta að byggjast á skýrum lagaheimildum. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, hefur dómsmálaráðherra eftirlit með framkvæmd ákæruvalds og getur krafist þess að ríkissaksóknari láti í té gögn og greinargerð um meðferð einstakra mála. Í því felst þó ekki almenn heimild fyrir ráðherra til að óska eftir upplýsingum um stöðu einstakra mála eða hvernig rannsókn þeirra miðar með einum eða öðrum hætti. Ákvæði þessu hefur ávallt verið beitt af mikilli varfærni og í algerum undantekningartilvikum, enda eru afar fá tilvik þar sem til skoðunar hefur komið að beita því og því verið beitt. Það hefur því ekki verið litið svo á að í ákvæðinu felist nein heimild til að endurmeta hvort málsmeðferð lögreglu eða ákæruvalds í sakamáli samræmist lögum, enda gengi slíkt gegn meginreglunni um sjálfstæði ríkissaksóknara sem æðsta handhafa ákæruvalds í landinu, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Það verður því heldur ekki litið svo á að fyrirspurn þingmanns á grundvelli laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, virki 19. gr. laga um meðferð sakamála á þann hátt að það geti verið grundvöllur fyrir því að ráðherra beiti umræddu ákvæði og óski upplýsinga um stöðu rannsóknar á einstöku sakamáli til að svara fyrirspurn þingmanns.
    Með vísan til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin mun dómsmálaráðherra ekki óska eftir þeim upplýsingum sem 1., 3., 4., 5. og 6. tölul. fyrirspurnarinnar lúta að.
    Að því er varðar 2. tölul. fyrirspurnarinnar er rétt að taka fram að þau embætti sem fara með rannsókn og saksókn sakamála óska ekki eftir fjármagni eða auknum mannafla til að sinna rannsókn tiltekins sakamáls og eru því fjárveitingar á þessu sviði ekki veittar á þeim grundvelli enda væri það í andstöðu við þau sjónarmið sem rakin hafa verið hér. Fjárveitingar til stofnana eru unnar í gegnum fjármálaáætlun og fjárlög hverju sinni í samræmi við lög um opinber fjármál.