Ferill 635. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 985  —  635. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Daníel E. Arnarssyni um sérstaka kvennamóttöku á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.


     1.      Hver er staða tilraunaverkefnis heilbrigðisráðuneytis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um sérstaka kvennamóttöku hjá heilsugæslunni? Telur ráðherra tilefni til að stofna fleiri slíkar móttökur?
    Eftir að ákvörðun heilbrigðisráðherra lá fyrir um að fara í tilraunaverkefni og opna sérstaka móttöku fyrir konur var Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins falið verkefnið. Þar átti meðal annars að horfa sérstaklega til þess að veita heilbrigðisþjónustu og ráðgjöf um ofbeldi og afleiðingar þess, breytingaskeið kvenna, getnaðarvarnir og sjúkdóma sem herja sérstaklega á konur. Einnig bar að dreifa þekkingu og þjónustulausnum á þessu sviði og koma þeim á framfæri á landsvísu til annarra heilbrigðisstarfsmanna, kvenna og alls almennings. Til að tryggja öflun þekkingar um þessi mál, samræmingu og koma á framfæri á landsvísu var Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu tengd verkefninu.
    Heilsugæslan hóf strax undirbúning verkefnisins. Ráðinn var verkefnisstjóri og aðrir starfsmenn og fór starfsemin af stað um áramótin. Hafist var handa við að draga saman þekkingu. Útbúið var fræðsluefni fyrir almenning og klínískar leiðbeiningar fyrir fagfólk ásamt fræðsluefni og fyrirlestrum á vef. Fræðslu og upplýsingum hefur verið komið á framfæri við fagfólk og stjórnendur á landsvísu og gert er ráð fyrir að upplýsingarnar muni birtast á Heilsuveru á næstu dögum. Leit að hentugu húsnæði hefur hins vegar tafið að móttaka hafi farið af stað en ákveðið hefur verið að byrja þó í bráðabirgðahúsnæði í maí meðan leitað er áfram að hentugu húsnæði. Þegar reynsla og frekari lærdómur hefur verið dreginn af tilraunaverkefninu er rétt að leggja mat á framtíðarþróun þjónustunnar.

     2.      Telur ráðherra að aukið fjármagn þurfi til svo að verkefnið komist á legg? Hyggst ráðherra tryggja það fjármagn ef þess gerist þörf?
    Gengið er út frá að núverandi fjármagn nægi til að koma verkefninu á legg.

     3.      Telur ráðherra að þörf sé á sérstakri kvennamóttöku í ljósi vísbendinga um að heilsuvanda kvenna sé ekki mætt sem skyldi?
    Ákvörðun um að opna sérstaka kvennamóttöku var tekin í ljósi vísbendinga um að heilsuvanda kvenna væri ekki mætt sem skyldi og bæta þyrfti þar úr. Vonir standa til að með þessari þjónustu verði þörfum kvenna betur mætt. Reynslan mun síðan leiða í ljós hvort auka þarf umfang þjónustunnar.