Ferill 644. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 989  —  644. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Daníel E. Arnarssyni um Íslenska dansflokkinn.


     1.      Hefur ráðherra í hyggju að útvega Íslenska dansflokknum varanlegt húsnæði?
    Undanfarin ár hafa viðræður átt sér stað á milli Íslenska dansflokksins og fyrrum mennta- og menningarmálaráðuneytis um varanlegt húsnæði fyrir Íslenska dansflokkinn. Ýmsir möguleikar hafa verið kannaðir í því skyni. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2027 kemur fram að unnið verður að því á tímabilinu að bæta húsnæðismál Íslenska dansflokksins.

     2.      Hvers vegna hefur hækkun framlaga til Íslenska dansflokksins ekki haldist í hendur við hækkun framlaga til annarra sviðslistahópa sem starfa með stuðningi ríkisins?
    Starfsemi Íslenska dansflokksins var lögfest í nýjum lögum um sviðslistir sem tóku gildi 1. júlí 2019. Með lögunum er skotið styrkum stoðum undir starfsemi Íslenska dansflokksins og hún fest í lög í fyrsta sinn sem fullgild ríkisstofnun og þar með tryggð sambærileg staða hvað varðar danslist og Þjóðleikhúsið nýtur á sviði leiklistar. Það er því örðugt að bera stöðu Íslenska dansflokksins saman við stöðu annarra sviðslistahópa.

     3.      Eru framlög, laun, húsnæði og umfang sviðslistahópa sem starfa með stuðningi íslenska ríkisins samræmd hjá ráðuneytinu?
    Ráðuneytið gerir rekstrarsamninga við menningarfélög og sjálfseignarstofnanir. Hvernig þessir aðilar reka sig er með ýmsu móti og á þeirra ábyrgð. Ríkisstofnanir á sviði sviðslista eru aftur á móti á fjárlögum.
    Hvað launakostnað varðar gerir ríkið kjarasamninga á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, annars vegar og laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, hins vegar. Fjármála- og efnahagsráðherra fer með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð kjarasamninga og skipar samninganefnd til að annast samninga fyrir sína hönd. Hún starfar í nánum tengslum við kjara- og mannauðssýslu ríkisins sem starfar í umboði ráðherra og er í forsvari fyrir ríkið sem vinnuveitanda.