Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 990  —  469. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingibjörgu Isaksen um húsnæði fyrir lögreglumenn í dreifðum byggðum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ríkissjóður kaupi húsnæði fyrir lögreglumenn í Langanesbyggð svo að tryggja megi löggæslu á svæðinu í ljósi þess að erfitt er að fá lögreglumenn til starfa þar vegna húsnæðisskorts?
     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir kaupum á húsnæði fyrir lögreglumenn víðar í dreifðum byggðum svo að auðveldara verði að manna stöður?


    Fjármálaráðuneytið fer með fasteignir ríkisins skv. 3. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022.
    Á síðustu árum hefur þeirri stefnu verið fylgt í meginatriðum að ríkið dragi sig út úr rekstri embættisbústaða eða annars húsnæðis sem keypt er eða rekið sérstaklega fyrir starfsmenn ríkisins í einstökum byggðarlögum. Enn þekkist þó að til séu embættisbústaðir til afnota fyrir starfsmenn á landsbyggðinni. Þeim fer þó hratt fækkandi og hafa verið aflagðir þegar starfsmenn, sem hafa fengið slíka úthlutun samkvæmt eldri framkvæmd, láta af störfum. Þá þekkist að ríkið eigi húsnæði í stuttan tíma í senn fyrir tímabundin verkefni sem eru þó regluleg.
    Ráðherra er meðvitaður um þann vanda sem við hefur verið að etja við að manna stöður lögreglumanna í Langanesbyggð og víðar. Ráðherra telur vel koma til greina að aflað verði íbúðarhúsnæðis til að leysa þennan vanda, eftir atvikum í tengslum við húsnæði lögreglunnar sjálfrar. Slíkt ætti þó að heyra til undantekninga og ekki að verða meginregla eða hugsað sem varanlegt úrræði til lengri tíma fyrir lögreglumenn.