Ferill 629. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 991  —  629. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur um störf mannanafnanefndar.


     1.      Eru fordæmi fyrir því að eiginnafn hafi áunnið sér hefð í íslensku máli á þann hátt að nægilega margir hafi borið nafnið þó að það hafi ekki hlotið samþykki mannanafnanefndar? Ef ekki, væri slík hefð möguleg?

    Ekki er vitað um dæmi þess að nafn hafi áunnið sér hefð í íslensku máli en ekki verið samþykkt af mannanafnanefnd. Ef nafn er ekki á mannanafnaskrá er það ákvörðun mannanafnanefndar hvort beiðni um nafn verði samþykkt með hliðsjón af þeim reglum sem gilda um mannanöfn. Meðal annars er lagt mat á það hvort nafn hafi unnið sér hefð í íslensku máli.

     2.      Hvað liggur til grundvallar í mati nefndarinnar þegar nafn eða hluti af nafni telst hafa áunnið sér hefð?
    Við ákvörðun um hvort nafn hafi áunnið sér hefð styðst mannanafnanefnd einkum við upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands um hvort aðrir einstaklingar beri nafnið og þá hve margir, auk upplýsinga úr manntölum. Jafnframt styðst nefndin við vinnulagsreglur mannanafnanefndar sem byggðar eru á greinargerð með frumvarpi að lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, eldri vinnulagsreglum, dómaframkvæmd og sjónarmiðum sem fram koma í fundargerð mannanafnanefndar frá 22. mars 2022 er reglurnar voru síðast endurskoðaðar. Vinnulagsreglur mannanafnanefndar eru svohljóðandi:

     I.      Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð, bæði í 5. og 6. gr. mannanafnalaga, styðst við eftirfarandi vinnureglur:

     1.      Nafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
              a.    Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
              b.    Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
              c.    Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
              d.    Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr);
              e.    Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi en kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr) og hefð þess hefur ekki rofnað. Hefð nafns telst rofin ef það hefur ekki verið borið af Íslendingi undanfarin 70 ár.

     2.      Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

     3.      Nafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

     4.      Þrátt fyrir að ekki sé hefð fyrir tökunafni á grundvelli framanritaðs telst ritháttur þess hefðbundinn sé hann gjaldgengur í veitimáli og nafnið ekki ritháttarafbrigði rótgróins nafns. Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z. Heimilt er að laga tökunafnið að almennum íslenskum ritreglum.

     3.      Hver eru viðmið mannanafnanefndar þegar hún tekur til skoðunar nafn sem ekki hefur verið samþykkt og ekki unnið sér hefð en er þó með endingu sem mörg fordæmi eru fyrir?
    Við ákvörðun um hvort samþykkja skuli nýtt nafn á mannanafnaskrá leggur mannanafnanefnd mat á hvort skilyrðum sem fram koma í gildandi lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, sé fullnægt og hefur hliðsjón af vinnulagsreglum mannanafnanefndar við túlkun á hugtakinu hefð, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Þó að nafn sem umsókn lýtur að sé með sömu endingu og nafn sem til er á mannanafnaskrá hefur það almennt ekki sérstaka þýðingu. Taka verður sjálfstæða ákvörðun við mat á því hvort samþykkja skuli nýtt nafn sem ekki er á skrá.