Ferill 505. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 992  —  505. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um tímabundnar ívilnanir við endurgreiðslu námslána.


     1.      Hyggst ráðherra auglýsa sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina eins og heimilt er skv. 27. gr. laga um Menntasjóð námsmanna? Ef svo er, hvenær má vænta þess og vegna hvaða námsgreina?
    Eins og fram kemur í lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, og í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 60/2020 þurfa samkvæmt 27. gr. laganna að liggja fyrir upplýsingar um viðvarandi skort í ákveðinni starfsstétt eða slíkur skortur að vera fyrirsjáanlegur. Í kjölfar þess þarf að liggja fyrir skýrsla sem byggð er á framangreindum upplýsingum og skal hún unnin af stjórnvöldum í samráði við hlutaðeigandi atvinnurekendur eða samtök atvinnurekenda. Skilyrði fyrir ívilnun námslána samkvæmt þessari grein er að einstaklingurinn sem þiggur ívilnun skal hafa lokið prófgráðu í viðkomandi námsgrein sem hann nýtir til starfa í þeirri starfsstétt sem skortur er í.
    Engin skýrsla er fyrirliggjandi um viðvarandi skort í starfsstétt sem gefur ráðherra tilefni til þess að auglýsa tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 60/2020.

     2.      Hyggst ráðherra auglýsa sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búsettir eru á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun eins og heimilt er skv. 28. gr. laga um Menntasjóð námsmanna? Ef svo er, hvenær má vænta þess og á hvaða svæðum?
    Samkvæmt 28. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, er ívilnun við endurgreiðslu námslána möguleg ef fyrir liggur tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum um þörf á menntuðu fólki í viðkomandi sveitarfélagi eða sveitarfélögum. Í kjölfar tillögunnar skal unnin skýrsla sem byggist á framangreindri tillögu og skal hún unnin af Byggðastofnun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Forsenda fyrir beitingu þessa ákvæðis er að skortur sé á einstaklingum í sveitarfélagi með menntun í ákveðinni starfsstétt. Að uppfylltum þessum skilyrðum og mati menntamálayfirvalda um að þörf sé á að beita þessum ákvæðum laganna eru jafnframt gerðar kröfur til þeirra einstaklinga sem undir ákvæði geta fallið um vinnuframlag, starfshlutfall (a.m.k. 50%) og lengd búsetu sem er að lágmarki tvö ár. Þessari lagaheimild hefur ekki verið beitt en til þess þyrfti sérstaka viðbótarfjárveitingu til Menntasjóðs námsmanna. Slík ákvörðun er því á forræði Alþingis en ekki Menntasjóðs námsmanna og ekki gert ráð fyrir því í lögunum að stjórn Menntasjóðs taki afstöðu til hennar sé fyrirhugað að beita þeim ákvæðum né heldur að sjóðurinn fái slíkar ákvarðanir til umsagnar. Þá er þekking á því hvort þörf sé á menntun í ákveðnum starfsgreinum eða í ákveðnum byggðarlögum úti á landi engin innan sjóðsins. Frumkvæði að beitingu lagaheimildarinnar þarf að koma annars vegar frá hlutaðeigandi atvinnurekendum eða samtökum atvinnurekenda í viðkomandi starfsstétt og hins vegar frá sveitarfélagi þar sem fyrir liggja upplýsingar um skort á einstaklingum með menntun í ákveðinni starfsstétt.
    Engin skýrsla frá Byggðastofnun er fyrirliggjandi sem gefur ráðherra tilefni til þess að auglýsa sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búsettir eru á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun skv. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 60/2020.