Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 995  —  608. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Hildu Jönu Gísladóttur um landshlutasamtök og nýsköpun.


     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fjármagn verði veitt í sóknaráætlanir landshlutanna í tengslum við nýsköpun?
    Í þingsályktunartillögu innviðaráðherra um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036, sem nú er til afgreiðslu á Alþingi (þskj. 799), er ríkisstjórninni falið að vinna að framkvæmd stefnu í byggðamálum til 15 ára og aðgerðaáætlunar til fimm ára, sbr. lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Verkefni sóknaráætlana landshluta eru að stærstum hluta nýsköpunarverkefni eða með sterka skírskotun til nýsköpunar. Þar sem fyrri fyrirspurn háttvirts þingmanns vék sérstaklega að umhverfis- og loftslagsmálum var í undirbúningi svars óskað eftir upplýsingum um slík verkefni innan sóknaráætlana landshlutanna. Fullyrða má út frá þeim gögnum sem borist hafa að allir landshlutar vinna að fjölbreyttum verkefnum á þessum sviðum og má þar t.d. nefna samstarfsverkefni um orkuskipti, innleiðingu hringrásarhagkerfis, kolefnisbókhald sveitarfélaga, gerð umhverfis- og auðlindastefnu, loftslagsstefnu sveitarfélaga, orkuskipti í haftengdri starfsemi, samræmingu úrgangsflokkunar, fullvinnslu afurða, nýtingu glatvarma, gerð svæðisskipulags, fræðsluáætlanir á sviði umhverfis- og loftslagsmála, gerð stefnumótunar- og aðgerðaáætlana og margt fleira.
    Nýsköpun er og hefur verið áberandi í verkefnum sóknaráætlana frá upphafi og svo verður áfram. Þingsályktunartillaga innviðaráðherra um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 er komin til afgreiðslu á Alþingi og þá gefst tækifæri til m.a. að ræða sóknaráætlanir landshluta og fjármögnun.

     2.      Mun ráðherra stuðla að markvissu samstarfi landshlutasamtaka og ríkisins vegna nýsköpunar? Ef svo er, hvernig?
    Sóknaráætlanir landshluta eru nýsköpun í stjórnsýslu og sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga. Lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir frá 2015 festa í sessi verklag og hugmyndafræði sóknaráætlana. Markmiðið með lögunum er að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga og jafnframt að færa aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar til sveitarstjórna. Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir. Í þeim sameinast heimamenn um framtíðarsýn, markmið, forgangsröðun verkefna og leiðir til að áætlunin nái fram að ganga.
    Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál veitir landshlutasamtökum sveitarfélaga stuðning við gerð og framkvæmd sóknaráætlana. Hlutverk stýrihópsins er m.a. að efla samhæfingu innan Stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í málaflokknum. Í stýrihópnum sitja fulltrúar allra ráðuneyta og fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, auk áheyrnarfulltrúa frá Byggðastofnun og landshlutasamtökum sveitarfélaga. Ráðherra byggðamála skipar í hópinn og fulltrúi ráðherra fer með formennsku. Fulltrúar ráðuneytis háskóla, iðnaðar og vísinda (hvin) í stýrihópnum eru sem stendur tveir. Stýrihópurinn fundar með reglubundnum hætti með landshlutunum. Stýrihópurinn fer yfir og staðfestir áhersluverkefni landshlutanna og gefst þá gott tækifæri til að koma á framfæri ábendingum t.d. um bætta samþættingu við stefnur stjórnvalda í málaflokkum, tengingar við undirstofnanir ráðuneyta og ábendingar um önnur sambærileg verkefni, sem unnið er að.
    Samstarf landshlutasamtaka og ríkisins er því í skýrum farvegi og er áherslumál stýrihópsins að það sé sem allra best. Sóknaráætlanir landshluta eru valdeflandi fyrir landshlutana og verkefni þeirra byggjast á framtíðarsýn og áherslum þeirra.