Ferill 636. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1005 —  636. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um brot á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

    
     1.      Hversu oft hefur verið sektað fyrir brot á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018? Svar óskast sundurliðað eftir 7. til og með 14. gr. laganna.
    Samkvæmt 17. gr. laga nr. 85/2018 geta brot gegn 7.–11. gr. og 13.–14. gr. eða reglum settum samkvæmt lögunum varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál er varða brot á lögunum fer að hætti laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og eru dómstólar einir bærir til að kveða á um sektir samkvæmt ákvæðinu sem renna í ríkissjóð.
    Eftir því sem ráðuneytið kemst næst hefur ekki reynt á sektarákvæðið fyrir dómstólum enn sem komið er.

     2.      Hversu oft hefur verið stofnað mál hjá Jafnréttisstofu í tengslum við ætlað brot á lögunum? Svar óskast sundurliðað eftir 7. til og með 14. gr. laganna.
    Samkvæmt upplýsingum frá Jafnréttisstofu hafa þrjú mál verið stofnuð í skjalakerfi stofnunarinnar og varða þau öll meint brot á 7. gr. laganna um almennt bann við mismunun. Eitt brotanna varðar meinta hegðun og áreiti af hálfu lögreglu, annað meinta mismunun í tengslum við ættleiðingu og hið þriðja meinta misnotkun í tengslum við dýrahald.
    Þess utan hafa allnokkrar óformlegar fyrirspurnir borist Jafnréttisstofu um málefnið. Í þessum tilvikum hafa hlutaðeigandi aðilar fengið leiðbeiningar og ráðgjöf og þeim verið bent á kæruheimild til kærunefndar jafnréttismála sem kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.

     3.      Telur ráðherra að markmiðið með setningu laganna hafi náðst og að þau séu að skila tilætluðum árangri?

    Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/2018 er markmið laganna að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Í því skyni er í lögum nr. 85/2018 skýrt kveðið á um að mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna sé óheimil, hvort heldur um er að ræða beina eða óbeina mismunun.
    Einn af mikilvægum þáttum í því að ná árangri í málaflokknum er þekking og fræðsla í því skyni að auka vitund almennings um þessi málefni sem og um löggjöfina sjálfa. Þá þurfa einstaklingar að þekkja réttindi sín og hvaða úrræði eru í boði ef þeir telja á sér brotið.
    Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2018, sbr. og 1. gr. og b-lið 4. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, er það hlutverk Jafnréttisstofu að sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi á sviði jafnréttismála, þ.m.t. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018.
    Haustið 2018 boðaði Jafnréttisstofa hagsmunaaðila, þ.m.t. fulltrúa Fjölmenningarseturs, til kynningar og samtals um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Á þeim vettvangi voru hagsmunaaðilar hvattir til að kynna sínu félagsfólki og viðskiptavinum inntak laganna og tilgang þeirra. Árið 2019 voru síðan haldnir fjórir formlegir kynningarfundir í Borgarnesi, á Egilsstöðum, Ísafirði og Selfossi. Fundirnir voru öllum opnir en fulltrúar sveitarfélaga og fyrirtækja voru sérstaklega hvattir til að mæta. Fundunum var fylgt eftir með könnun sem Jafnréttisstofa lagði fyrir hagsmunaaðila árið 2020 þar sem leitað var upplýsinga um hvort aðilar þekktu til laganna og hefðu kynnt þau fyrir sínu félagsfólki og viðskiptavinum.
    Þá gaf Jafnréttisstofa út veggspjaldið Það er bannað að mismuna á íslensku, ensku og pólsku á árinu 2020. Veggspjaldinu er sérstaklega ætlað að vekja athygli á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og var dreift rafrænt til fyrirtækja og stofnana um land allt.
    Á árinu 2021 hélt Jafnréttisstofa tíu fundi með hagsmunaaðilum, þar á meðal með fulltrúum Fjölmenningarseturs og stéttarfélögum, þar sem minnt var á lögin, fjallað var um tiltekin mál fyrir kærunefnd jafnréttismála og farið yfir fræðsluefni og hvernig betur mætti koma löggjöfinni á framfæri. Jafnréttisstofa hvatti enn og aftur til þess að lögin yrðu kynnt félagsfólki og viðskiptavinum og minnti á fræðslu- og ráðgjafarhlutverk sitt.
    Síðustu misseri hefur Jafnréttisstofa kynnt tiltekin áhersluatriði í löggjöfinni á samfélagsmiðlunum Instagram og Facebook. Þá eru ótaldar almennar kynningar Jafnréttisstofu þar sem ávallt er fjallað um jafnréttislöggjöfina í heild sinni. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur auk þess fjallað um löggjöfina á almennum fræðslufundum sínum sem og í sinni lögfræðiráðgjöf. Einstök stéttarfélög hafa jafnframt haldið kynningar og verið með fræðslu um mismununarlöggjöfina þó svo að áhersla þeirra hafi eðli máls samkvæmt verið á lög um jafna stöðu á vinnumarkaði, nr. 86/2018.
    Lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, tóku gildi 1. september 2018 og hefur mál er varðar brot á lögunum enn sem komið er ekki verið tekið til meðferðar hjá kærunefnd jafnréttismála. Á hinn bóginn hefur verið leitað til kærunefndarinnar 11 sinnum með mál er varða meint brot á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, þar af þrjú mál er varða kynþátt og þjóðernisuppruna.