Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1025  —  456. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2022 um breytingar á fjárheimildum sem leiðir af breyttri skipan Stjórnarráðsins í samræmi við forsetaúrskurð.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin fékk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytis, þau Björn Þór Hermannsson, Önnu Katrínu Guðmundsdóttur og Þröst Frey Gylfason, til að fara yfir efni frumvarpsins.

Lagagrundvöllur frumvarpsins.
    Samhliða myndun nýrrar ríkisstjórnar 28. nóvember 2021 var tilkynnt um breytingar á skipan Stjórnarráðsins. Jafnframt tók gildi forsetaúrskurður nr. 125/2021, þar sem gerðar voru breytingar á skiptingu stjórnarmálefna miðað við óbreytta skipan ráðuneyta. Gerð var grein fyrir þeim breytingum í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar fyrir 3. umræðu fjárlaga fyrir árið 2022.
    Með vísan til 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands ályktaði Alþingi að styðja fyrirhugaða breytingu á fjölda ráðuneyta og heitum þeirra með þingsályktun nr. 6/152 27. janúar. Í samræmi við þá afgreiðslu öðlaðist gildi forsetaúrskurður nr. 5/2022, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti 1. febrúar. Sama dag öðlaðist gildi nýr úrskurður, nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta, sbr. 4. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Báðir úrskurðirnir fólu í sér talsverðar breytingar frá fyrri skipan.
    Við flutning stjórnarmálefna á milli ráðuneyta, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, skal flytja fjárheimildir og starfsmenn milli ráðuneyta að því marki sem eðlilegt er talið að teknu tilliti til umfangs verkefna og aðstæðna skv. 21. gr. sömu laga.
    Breytingar koma því fram í tveimur skrefum, annars vegar í tillögum fyrir 3. umræðu fjárlaga fyrir árið 2022 og hins vegar í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2022.

Meginefni og tilgangur.
    Markmið með breytingunum er að tryggja að Stjórnarráðið verði sem best til þess fallið að takast á við nýjar áskoranir sem við er að etja hverju sinni og ný og breytt verkefni í takt við þarfir hvers tíma.
    Ráðherrum hefur fjölgað um einn og verða þeir tólf talsins. Þá er ráðuneytum fjölgað úr tíu í tólf og bætast þar við annars vegar menningar- og viðskiptaráðuneyti og hins vegar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Samhliða var heitum nokkurra ráðuneyta breytt til að endurspegla breytta verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins:
     *      Mennta- og menningarmálaráðuneyti verður mennta- og barnamálaráðuneyti.
     *      Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verður matvælaráðuneyti.
     *      Félagsmálaráðuneyti verður félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
     *      Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti verður innviðaráðuneyti.
     *      Umhverfis- og auðlindaráðuneyti verður umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
Umfang skipulagsbreytinganna.
    Í greinargerð með frumvarpinu er birt tafla á bls. 38 þar sem sýnt er fjárhagslegt umfang breytinganna, bæði við 3. umræðu fjárlaga fyrir árið 2022 og í frumvarpinu. Taflan er birt hér að aftan og hefur þar verið bætt við samtölum við breytingarnar. Fjárhæðir eru í m.kr.

Ráðuneyti fyrir breytingar Ráðuneyti eftir breytingar Br. í fjárlögum Br. í fjárauka Samtals
Æðsta stjórn ríkisins Æðsta stjórn ríkisins 0 0 0
Forsætisráðuneyti Forsætisráðuneyti -98 41 -57
Mennta- og menningarmálarn. Mennta- og barnamálaráðuneyti -4.781 -83.211 -87.992
Utanríkisráðuneyti Utanríkisráðuneyti 0 0 0
Atvinnuvega- og nýsköpunarrn. Matvælaráðuneyti 2.138 -26.723 -24.585
Dómsmálaráðuneyti Dómsmálaráðuneyti -2.183 186 -1.997
Félagsmálaráðuneyti Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti -11.475 -3.293 -14.768
Heilbrigðisráðuneyti Heilbrigðisráðuneyti 0 0 0
Fjármála- og efnahagsrn. Fjármála- og efnahagsráðuneyti 0 -31 -31
Samgöngu- og sveitarstjórnarrn. Innviðaráðuneyti 14.956 -1.412 13.544
Umhverfis- og auðlindarn. Umhverfis-, orku- og loftslagsrn. 1.442 1.358 2.800
Menningar- og viðskiptaráðuneyti 28.026 28.026
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarrn. 85.059 85.059
Nettótilfærsla milli ráðuneyta 18.537 114.639 133.176

    Samtals nema tilfærslur milli ráðuneyta 133 ma.kr. og koma að langmestu leyti fram í frumvarpinu þegar tvö ný ráðuneyti eru mynduð. Umfang menningar- og viðskiptaráðuneytis nemur samtals 28 ma.kr. Hið nýja ráðuneyti tekur við safnamálum og menningarstofnunum ásamt fjölmiðlum og málefnum ferðaþjónustunnar. Umfang háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis nemur samtals 85 ma.kr. Ráðuneytið fer með málefni háskólastigsins. Hluti af málefnasviði um nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar færist einnig undir þetta ráðuneyti. Umfang háskólastigsins nemur 57,4 ma.kr.

Fjármögnun.
    Við 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2022 var gerð tillaga um 450 m.kr. framlag vegna breyttrar skipunar Stjórnarráðsins. Á þeim tíma lá ekki fyrir endanlegt innra skipulag nýrra ráðuneyta, tilfærsla núverandi starfsmanna og breyttar starfsáherslur, m.a. í tengslum við stefnumál ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarsáttmála. Forsendur framlagsins miðuðust við kostnað við stofnun nýju ráðuneytanna tveggja.
    Þar var horft til launakostnaðar ráðuneytisstjóra, ritara, bílstjóra og þriggja starfsmanna. Þessu til viðbótar var gert ráð fyrir öðrum rekstrarkostnaði, húsaleigu og einskiptiskostnaði við búnað og tæki. Kostnaður vegna launa eins ráðherra og tveggja aðstoðarmanna færist undir málefnasvið æðstu stjórnar ríkisins og var fjárheimild þar aukin um 56,3 m.kr. við 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2022.
    Nú liggja fyrir rekstraráætlanir fyrir nýju ráðuneytin og er gert ráð fyrir að gjöldin nemi rúmum 680 m.kr. fyrir hvort ráðuneyti um sig, samtals 1.386 m.kr. Áætlað er að ársverk menningar- og viðskiptaráðuneytis verði um 36 talsins en 38 ársverk hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    Fjármögnun ráðuneytanna liggur fyrir og gert er ráð fyrir að samtals verði 1.008 m.kr. millifærðar frá öðrum ráðuneytum en 383 m.kr. millifærðar af áðurnefndri 450 m.kr. fjárheimild. Að auki er 15 m.kr. einskiptisheimild til hvors ráðuneytis um sig vegna kaupa á tækjum og búnaði.
    Það sem eftir stendur af 450 m.kr. heimildinni verður eftir atvikum nýtt til að mæta óvissu um kostnað við breytta skipan ráðuneyta á árinu, t.d. vegna húsnæðisflutninga ráðuneyta.

Ábendingar meiri hlutans.
Hagkvæmni og skilvirkni í rekstri ráðuneyta.
    Í greinargerð með frumvarpinu og í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem samþykkt var á Alþingi 27. janúar, koma fram markmið um að stjórnsýslan sé árangursrík. Gera á ríkari kröfur um sveigjanleika og viðbragðsþrótt stjórnkerfisins. Samþætting málaflokka á einnig að aukast, m.a. með því að hafa orkumál og náttúruvernd í sama ráðuneyti. Sú nálgun er í takt við markmið um að kalla eftir jafnvægi milli nýtingar og verndar. Sama gildir um málefni ferðaþjónustunnar og skapandi greina innan ráðuneytis menningar og viðskipta. Með sameiginlegri umgjörð þessara mikilvægu atvinnugreina er þannig markmiðið að hámarka gagnkvæman ávinning og stuðla að sameiginlegum lausnum í þágu beggja greina.
    Til að ná markmiðum um aukna skilvirkni bendir meiri hlutinn á nauðsyn þess að fleiri verkefni flytjist frá einstökum ráðuneytum til þjónustumiðstöðvar Stjórnarráðsins, Umbru. Um þessar mundir felast verkefnin einkum í upplýsingatækniþjónustu, rekstri fasteigna, þ.m.t. ræstingu, og í rekstri þjónustuvers sem annast símsvörun og móttökuþjónustu, akstursþjónustu og öryggisgæslu fyrir ráðherra. Einnig hefur félagið sameiginlegan persónuverndarfulltrúa fyrir allt Stjórnarráðið.
    Þessu til viðbótar er brýnt að bæta við verkþáttum til að koma í veg fyrir að fjölga þurfi í stoðþjónustu hvers ráðuneytis. Þar mætti sérstaklega huga að samræmingu verkferla og að starfsfólki við skjalavörslu. Einnig gæti mannauðsdeild verið sameiginleg með ráðuneytunum, svo og ýmis gæðamál og margvísleg önnur innri þjónusta, svo sem færsla bókhalds, umsjón með rekstrarvörum o.fl.
    Að auki gætu útgáfumál verið sameiginleg, svo sem frágangur á skýrslum, prófarkalestur og grafísk hönnun.

Reikningshald – verkefnabókhald nýrra ráðuneyta.
    Um þessar mundir er fjárhagsbókhald ríkisins sundurliðað miðað við málefnasvið, málefnaflokka og stofnanir og aðra ríkisaðila sem aftur skiptast í deildir og einstök viðfangsefni.
    Sú endurskipulagning Stjórnarráðsins sem lögð er til í frumvarpinu gefur tækifæri til að breyta uppbyggingu og framsetningu fjárhagsupplýsinga til þess að draga fram gjöld og tekjur einstakra lykilverkefna. Megintilgangurinn er að samþætting málefnasviða og málaflokka í fjármálaáætlun og fjárlögum endurspeglist í uppbyggingu reikningshaldsins.
    Í samræmi við aðferðafræði um árangursmiðaða fjárlagagerð bendir meiri hlutinn á nauðsyn þess að reikningshaldið endurspegli kostnað við þau lykilverkefni sem vinna á að til að ná þeim markmiðum sem fram koma í fjármálaáætlun hverju sinni. Jafnframt þarf reikningshaldið að styðja við mælikvarða sem settir eru til að meta hvernig miðar að ná fram markmiðunum.
    Þau tímamót að tvö ný ráðuneyti verði til eru upplagt tækifæri til að endurskipuleggja reikningshald þeirra til að það falli betur að uppbyggingu markmiða, verkefna og mælikvarða fyrir einstök málefnasvið og málaflokka.

Breytingartillaga.
    Við breytta skipan Stjórnarráðsins fluttust húsnæðis- og skipulagsmál frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti (sem áður var félagsmálaráðuneyti) og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti (sem áður var umhverfis- og auðlindaráðuneyti) til innviðaráðuneytis (sem áður var samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti).
    Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heyrði áður undir málaflokk 32.40 Stjórnsýsla félagsmálaráðuneytis og Skipulagsstofnun heyrði undir málaflokk 17.50 Stjórnsýsla umhverfismála. Í frumvarpinu eru þessar tvær stofnanir fluttar tímabundið undir stjórnsýslu innviðaráðuneytis í málaflokki 11.30 (sem áður var Stjórnsýsla samgönguráðuneytis) sem heyrir undir málefnasvið 11 Samgöngur og fjarskipti.
    Við nánari yfirferð fjármála- og efnahagsráðuneytis þótti fara betur á því að þessar stofnanir féllu undir málefnasvið 31. Var heiti þess sviðs breytt til að endurspegla betur starfsemi þess. Þessi breyting er einnig í betra samræmi við alþjóðlegan flokkunarstaðal sem Hagstofa Íslands notar, svokallaða COFOG-flokkun, sem inniheldur einnig málaflokkinn húsnæðis- og skipulagsmál. Að auki eru skipulagsmál sveitarfélaga sem eru á málaflokki 08.10 Framlög til sveitarfélaga í fjárlögum flutt á málaflokk 31.20 Skipulagsmál. Meiri hlutinn tekur undir þessar tillögur og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Við 1. tölul. bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað „31 Húsnæðisstuðningur“ kemur: 31 Húsnæðis- og skipulagsmál.
                  b.      Við 2. tölul. bætist tveir nýir liðir, svohljóðandi:
                      1.      Í stað „31.10 Húsnæðisstuðningur“ kemur: 31.10 Húsnæðismál.
                      2.      Við málefnasvið 31 bætist nýr málaflokkur: 31.20 Skipulagsmál.
     2.      Eftirfarandi viðbætur og breytingar verði á sundurliðun 1, Fjárheimildir málefnasviða, eftir málaflokkum og ráðuneytum.

Skv. frv.
m.kr.
Breyting
m.kr.
Samtals
m.kr.
Breytingar á sundurliðun 1:
08 Sveitarfélög og byggðamál
10 Innviðaráðuneyti
1. Við 08.10 Framlög til sveitarfélaga
a. Rekstrarframlög
-74,0 -74,0
b. Rekstrartilfærslur
-242,5 -242,5
c. Framlag úr ríkissjóði
-316,5 -316,5
11 Samgöngu- og fjarskiptamál
10 Innviðaráðuneyti
2. Við 11.30 Stjórnsýsla innviðaráðuneytis
a. Rekstrarframlög
-10,5 -2.969,4 -2.979,9
b. Rekstrartilfærslur
-107,8 -107,8
c. Fjárfestingarframlög
-155,6 -155,6
d. Rekstrartekjur
23,2 922,9 946,1
e. Framlag úr ríkissjóði
12,7 -2.309,9 -2.297,2
31 Húsnæðis- og skipulagsmál
10 Innviðaráðuneyti
3. Við 31.10 Húsnæðismál
a. Rekstrarframlög
2.561,7 2.561,7
b. Rekstrartilfærslur
105,4 105,4
c. Fjárfestingarframlög
152,7 152,7
d. Rekstrartekjur
-889,4 -889,4
e. Framlag úr ríkissjóði
1.930,4 1.930,4
4. Við 31.20 Skipulagsmál
a. Rekstrarframlög
481,7 481,7
b. Rekstrartilfærslur
244,9 244,9
c. Fjárfestingarframlög
2,9 2,9
d. Rekstrartekjur
-33,5 -33,5
e. Framlag úr ríkissjóði
696,0 696,0

Alþingi, 18. maí 2022.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Helgi Héðinsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Stefán Vagn Stefánsson. Vilhjálmur Árnason.