Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1026  —  456. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2022 um breytingar á fjárheimildum sem leiðir af breyttri skipan Stjórnarráðsins í samræmi við forsetaúrskurð.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Hér er verið að leggja fram svokallaðan tæknilegan fjárauka. Um engar fjárheimildir er að ræða heldur er ráðuneytum aðeins skipt upp. Þetta frumvarp til fjáraukalaga er lýsandi fyrir nálgun ríkisstjórnarinnar um þessar mundir. Fjármagn er fært á milli, stofnanir eru endurnefndar og ákveðið að ráðast í heljarinnar uppstokkun á stjórnkerfinu á nokkrum vikum, en lítið heyrist frá þeim um þau málefni sem virkilega brenna á fólki þessa dagana: lífskjörin í landinu.
    Í þessu frumvarpi til fjáraukalaga er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á fjárheimildum þrátt fyrir mun erfiðara ástand en blasti við þegar fjárlög voru samþykkt fyrir áramót. Hvergi var að finna þingmál tengd efnahagsástandinu á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar langt fram eftir vori þrátt fyrir ítrekað ákall um aðgerðir. Við það sat þar til rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar þegar verðbólga var orðin 7,2%. Eftir hálft ár af hárri verðbólgu birtust svokallaðar sértækar aðgerðir á borði ríkisstjórnarinnar.
    Betra er seint en aldrei, og betra er nokkuð en ekki neitt. En þetta eru vonbrigði að mati 1. minni hluta. Nágrannalönd okkar hafa kynnt hvern aðgerðapakkann á fætur öðrum. Við sjáum nú raungerast sama seinagang og fyrir tveimur árum í heimsfaraldri. Verðbólga nú er afleiðing af efnahagsaðgerðum stjórnvalda sem lögðu höfuðáherslu á að veita stuðning fyrst með almennum hætti fyrir tilstilli peningastefnunnar í stað þess að grípa hratt og örugglega inn í með sértækum aðgerðum á tíma heimsfaraldurs. Sama ríkisstjórn er nú að skera niður um tvo milljarða kr. í almenna íbúðakerfinu, opinbera húsnæðiskerfinu, samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun. Þetta er gert þrátt fyrir að húsnæðisliðurinn sé aðalástæðan fyrir verðbólgunni, og þrátt fyrir vilyrði innviðaráðherra um stórtæka opinbera uppbyggingu á næstu árum. Annaðhvort er ekkert að marka þau vilyrði eða innviðaráðherra hefur einfaldlega takmarkað svigrúm í þeirri efnahagsstefnu sem hér er stýrt af einum flokki.
    Erfitt er að grípa til réttra og vel tímasettra aðgerða í efnahagsmálum þegar efnahagsstefnan er óljós og tilviljanakennd. Ríkisstjórnin stundar hægri pólitík í fjármálum, þar sem fjármálaráðherra leggur áherslu á eignasölu og skattalækkanir eftir fremsta megni, en leiðréttir hana af og til með félagshyggjuáherslum þegar almenningi er ofboðið. Grunnstefnunni er stýrt af Sjálfstæðisflokknum en Vinstri græn plástra hana til inn á milli svo að ásýndin sleppi fyrir horn um stundarsakir. Framsókn flýtur síðan með í anda samvinnu.
    Þessi tilviljanakennda stefna kostar okkur gríðarlega peninga því að engin samfella er í því hvernig efnahagsmálum er stýrt. Of langan tíma tekur að bregðast við þegar upp kemur ástand sem krefst skjótra viðbragða af hálfu stjórnvalda, hvort sem er heimsfaraldur eða verðbólga. Tækifæri tapast, þrýstingur eykst og óánægja vex sem getur leitt af sér yfirskot í launakröfum og kostnaði síðar. Þegar þetta bætist við þá vanfjárfestingu sem hefur átt sér stað í velferðarkerfi okkar undanfarinn áratug undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í samvinnu við Framsókn, sem Vinstri græn hafa í seinni tíð kvittað upp á, er erfitt að sjá að hægt verði að stemma stigu við ósjálfbærni í ríkisrekstri. Tekjuhliðin er brostin og tregða til að grípa til alvöru aðgerða til að leiðrétta skekkju í velferðarkerfi okkar eftir niðurskurð skapar þrýsting á að ráðast í skammtímaúrræði sem eru gífurlega dýr.
    Núverandi fjármálaáætlun er til að mynda lítið annað en plagg þar sem kerfislægur vöxtur vindur upp á sig. Lagðar eru fram skýrslur um kostnað ríkissjóðs til ársins 2050 þar sem núverandi fyrirkomulag er einungis framreiknað og niðurstaðan er ósjálfbærni, líkt og núverandi efnahagsstefna og fyrirkomulag velferðarmála falli af himnum ofan. Það gleymist að kerfin eru okkar, mótuð af fólki sem hér stjórnar.
    Það kostar að uppfæra kerfin einungis samkvæmt verðbólgu og launahækkunum ef þau eru ekki sjálfbær í núverandi mynd. Endurfjárfesta þarf í velferðarkerfi okkar, en vandinn er sá að grafið hefur verið undan getu hins opinbera til að halda þeim gangandi; tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu verða þær lægstu á öldinni í lok þessa kjörtímabils. Tugir milljarða hafa markvisst verið teknir út úr tekjugrunni ríkissjóðs undanfarin ár á meðvitaðan hátt án þess að nýjar tekjur komi á móti.
    Ríkisstjórnin ber jafnan fyrir sig að stjórnvöld séu „að lenda í kostnaði“ eða „að lenda í verðbólgu“. Ytri þættir stýri flestu. Viðbrögðin eru þau að setja ríkissjóð í enn þrengri spennitreyju til að ýfa upp óánægju meðal þeirra sem starfa í velferðarkerfi okkar og meðal þeirra sem nýta þjónustuna. Það er gert til að mæta kröfum þeirra sem raunverulega stjórna um tekjuaðhald gagnvart ríkissjóði. Vítahringurinn magnast og enginn skilur hvers vegna óánægja eykst og kerfin verða brothættari, enda segir fjármálaráðherra að ríkisstjórnin stundi skynsamlega hagstjórn. Og undir það taka formenn annarra stjórnarflokka.
    En hér axlar enginn raunverulega ábyrgð. Ekkert uppbrot, enginn kjarkur til að hafa raunveruleg áhrif á grunnvandann. Aðeins stefna um að halda ríkisumsvifum í skefjum og minnka hlut ríkissjóðs, og það af hálfu flokks með fimmtungsfylgi. Hinir flokkarnir tveir reyna að bjarga málum af og til með skyndilausnum.
    Merkilegast er að sjá hvernig ríkisstjórnin kynnir aðgerðir sem kynntar voru í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sem sértækar aðgerðir, sem hafa þó ekki verið fjármagnaðar en sagt er að eigi að fjármagna með varasjóðum sem geta tæmst hratt í núverandi verðbólguumhverfi. Stærstur hluti þess pakka snýr að því að bæta örorku- og ellilífeyrisþegum upp fyrir verðbólguna. Bundið er í lög að verja skuli þennan hóp fyrir verðbólgu. Það stendur skýrum stöfum í 69. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, að tryggja eigi að upphæðir í almannatryggingakerfinu fylgi launaþróun eða verðbólgu ef hún er hærri. Það hefði verið lögbrot að gera það ekki.
    Það er ekkert sértækt, sérstakt eða fréttnæmt við það að fara að lögum og virða réttindi fólks í velferðarsamfélagi. Nema kannski í ríkisstjórn þar sem hægri slagsíðan í efnahagsmálum er svo mikil að það þarf vinstri flokk til að passa að grunnforsendur velferðarkerfis okkar séu virtar; að það sé raunverulega farið að lögum. Sem tók reyndar að verða hálft ár að þrýsta á um.
    Markmið stjórnvalda er ekki að ná jafnvægi í ríkisfjármálum eins og heyrist svo víða, núna þvert á ríkisstjórnarflokkana. Markmið stjórnvalda er að þjónusta íbúa landsins og vernda samfélagið. Hvernig við náum því markmiði með hætti sem er sjálfbær og stuðlar að efnahagslegu jafnvægi snýr að tækjum og tólum; vaxtastigi, gjöldum og skattlagningu. Það þarf að beita þeim tækjum og tólum sem til eru til að ná höfuðmarkmiði stjórnvalda um að þjónusta almenning og byggja þannig grunninn sem einkageirinn vex á. Kerfið virkar í báðar áttir. Sú kredda sem nú stýrir efnahagsmálum, og hefur sett efnahagsstefnuna í baklás aðgerðaleysis, mun því ekki aðeins bitna á velferð fólks heldur tekjusköpun í samfélaginu. Það er vítahringurinn sem ríkisreksturinn er kominn í og verður að rjúfa.

Alþingi, 18. maí 2022.

Kristrún Frostadóttir.