Ferill 678. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1051  —  678. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lísu Margréti Sigurðardóttur frá innviðaráðuneyti, Benedikt Axel Ágústsson, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Sögu Guðmundsdóttur og Tómas Brynjólfsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ágúst Þór Sigurðsson og Jóhönnu Lind Elíasdóttur frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Dreng Óla Þorsteinsson og Aldísi Hilmarsdóttur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Árna Haraldsson frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Vilhjálm Hilmarsson frá Bandalagi háskólamanna, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá BSRB, Ragnar Ingólfsson frá VR, Helga Samúel Guðnason og Ævar Ísberg frá Skattinum, Sigrúnu Jónsdóttur, Ragnheiði Birnu Björnsdóttur og Þóri Ólason frá Tryggingastofnun ríkisins, Guðmund Ásgeirsson og Sigríði Örlygsdóttur frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Yngva Ómar Sighvatsson frá Samtökum leigjenda á Íslandi og Valdísi Árnadóttur, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Bergþór Heimi Þórðarson frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, BSRB, Hagsmunasamtökum heimilanna, Tryggingastofnun ríkisins, Samtökum atvinnulífsins og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Þá barst nefndinni minnisblað um málið frá innviðaráðuneyti og minnisblað auk gagna frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Frumvarpinu er ætlað að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins sem fyrirséð er að hækkandi verðbólga bitni verst á. Felur það í sér þríþættar breytingar sem miða að framangreindu markmiði. Í fyrsta lagi er um að ræða greiðslu sérstaks barnabótaauka að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni í þeim tilvikum þar sem ákvarðaðar eru tekjutengdar barnabætur til framfærenda við álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2022. Í annan stað er um að ræða hækkun á bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð um 3% frá 1. júní 2022. Að lokum er um að ræða hækkun á húsnæðisbótum um 10% frá 1. júní 2022 og afturvirka hækkun frítekjumarka húsnæðisbóta um 3% frá 1. janúar 2022.
    
Umfjöllun nefndarinnar.
    Meiri hlutinn telur rétt að bregðast við nokkrum athugasemdum í umsögnum sem nefndinni bárust við umfjöllun málsins.
    Að mati meiri hlutans er mikilvægt að gæta að því að auka ekki enn frekar á þenslu í samfélaginu heldur hafa aðgerðir markvissar og tryggja að þær nái til hópa fólks sem eru viðkvæmir fyrir hækkunum, sem raktar verða til verðbólgu, líkt og gert er með frumvarpinu. Meiri hlutinn beinir því til stjórnvalda að fylgjast vel með framvindu efnahagsmála og áhrifa á þann hóp fólks sem er tekjulægstur og berskjaldaðastur fyrir vaxtahækkunum og verðbólgu.
    Við umfjöllun nefndarinnar var vakin athygli á mögulegum áhrifum vaxandi verðbólgu á ungt fólk sem nýlega hefur fest kaup á fasteign. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána og lána með breytilegum vöxtum geti hækkað verulega í hækkandi vaxtaumhverfi. Ungt og efnalítið fólk geti illa varið sig fyrir hækkandi greiðslubyrði fasteignalána. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fjármála- og efnahagsráðuneytið fylgist sérstaklega með áhrifum verðbólgu á þann hóp fólks og grípi til ráðstafana ef þurfa þykir.
    Öryrkjabandalagið bendir á að fyrirhuguð lagabreyting um að 11% skerðingarhlutfall gildi frá 1. janúar 2022 sé á skjön við ákvæði laga nr. 75/2016, sem kveði á um 9% skerðingarhlutfall, og feli því í reynd í sér skerðingu afturvirkt.
    Meiri hlutinn bendir á að í 4. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, er mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt með reglugerð að kveða nánar á um frítekjumörk og skerðingarhlutfall skv. 17. gr. laganna. Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið er ívilnandi og felur ekki í sér afturvirka skerðingu.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á 2. mgr. b-liðar 3. gr. frumvarpsins, þess efnis að endurreikningur og leiðrétting húsnæðisbóta skuli vera til bráðabirgða fyrir tímabilið 1. janúar – 31. maí 2022. Telur meiri hlutinn að breytingin sé til þess fallin að taka af allan vafa um að lokauppgjör húsnæðisbóta skuli fara fram með hefðbundnum hætti í samræmi við 25. og 26. gr. laga um húsnæðisbætur þegar skattframtöl fyrir árið 2022 liggja fyrir á komandi ári.
    Í umsögn Tryggingastofnunar er lagt til að kveðið verði á um í frumvarpinu að þær hækkanir sem lagðar eru til með frumvarpinu komi til framkvæmda og útgreiðslu í síðasta lagi 1. júlí nk. Ítrekar stofnunin þó að verði frumvarpið að lögum sé stefnt að því að greiða hækkanir svo fljótt sem auðið er. Meiri hlutinn tekur undir ábendinguna og leggur til breytingu á 2. gr. frumvarpsins, þess efnis að greiðslur samkvæmt greininni komi til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2022, en áfram verði þó miðað við að hækkunin gildi frá 1. júní 2022. Um er að ræða framkvæmdalegt atriði sem vikið er að í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að greiðslur verði afgreiddar eins fljótt og auðið er.
    Aðrar breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Greiðslur komi til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2022.
     2.      Við 3. gr.
                  a.      Í stað orðanna „fyrir leigu húsnæðis árið 2022“ í 1. mgr. b-liðar komi: vegna leigu á íbúðarhúsnæði á árinu 2022.
                  b.      Á eftir orðinu „húsnæðisbóta“ í 2. mgr. b-liðar komi: til bráðabirgða.
                  c.      Við 2. mgr. b-liðar bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um endurreikning og leiðréttingu húsnæðisbóta fer að öðru leyti skv. 25. og 26. gr.

Alþingi, 23. maí 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Steinunn Þóra Árnadóttir,
frsm.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Helgi Héðinsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Óli Björn Kárason.