Ferill 648. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1066  —  648. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ernu Bjarnadóttur um birtingu bindandi álita um tollflokkun.


     1.      Er Ísland skuldbundið af GATT-samkomulaginu til að birta öll bindandi álit um tollflokkun sem Skatturinn (áður tollstjóri) kveður upp?
    Með aðild að hinum almenna samningi um tolla og viðskipti (GATT) eru íslensk stjórnvöld skuldbundin til þess að birta opinberlega lög, reglugerðir, úrskurði, dóma og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. Einnig eru íslensk stjórnvöld skuldbundin til að birta tollkjör, aðflutningsgjöld, innflutningstakmarkanir, reglur og önnur almenn atriði sem geta haft áhrif á tollflokkun, tollverðsákvörðun, geymsluhúsnæði fyrir ótollafgreidda vöru og önnur almenn atriði sem máli geta skipt við tollmeðferð. Samkvæmt GATT-samningnum eru íslensk stjórnvöld ekki skuldbundin til að birta að eigin frumkvæði allar ákvarðanir sem teknar eru um bindandi álit um tollflokkun vöru fyrir öðrum en þeim aðilum sem ákvörðunin beinist að. Að því sögðu skulu stjórnvöld tryggja aðgang hagsmunaaðila að lögum, reglum, úrskurðum, dómum og öðrum fyrirmælum sem hafa almennt gildi við tollafgreiðslu.
    Árið 2017 tók gildi nýr samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um viðskiptaliprun. Samningurinn er hluti af viðaukum GATT og yfirlýst markmið samningsins er að flýta enn frekar flutningi, afhendingu og tollskoðun vara. Samkvæmt samningnum skulu aðildarríki birta reglur og eyðublöð um flokkun eða mat á virði vara með tilliti til tollafgreiðslu á heimasíðu sinni. Samkvæmt samningnum eru samningsaðilar ekki skuldbundnir til að birta öll bindandi álit á heimasíðu sinni en skulu hins vegar kappkosta að birta hvers kyns upplýsingar sem máli geta skipt fyrir hagsmunaaðila, þ.m.t. um tollflokkun vöru. Mikilvægt er að hagsmunaaðilar hafi greiðan aðgang að öllum reglum sem gilda um tollmeðferð viðkomandi vöru. Aðildarríki eru hins vegar ekki skuldbundin til að birta að eigin frumkvæði ákvarðanir einstakra mála sem ekki eru skuldbindandi gagnvart þriðja aðila. Eins og fjallað verður um hér að neðan eru fyrirspyrjandi og tollyfirvöld skuldbundin af ákvörðun um bindandi álit um tollflokkun vöru.

     2.      Í umsögn sinni (e. trade policy review) sem Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) birti 30. ágúst 2017 um stefnu Íslands í alþjóðlegum vöruviðskiptum kemur fram á bls. 37 að Ísland birti ekki þessi álit, hver er skýringin á því? Liggur fyrir áætlun um að úr þessu verði bætt?
    Árið 2017 framkvæmdi Alþjóðaviðskiptastofnunin endurskoðun á viðskiptastefnu Íslands. Reglubundin endurskoðun er framkvæmd á grundvelli viðauka 3 við GATT. Tilgangur endurskoðunar er að auka gagnsæi regluverks aðildarríkja, framkvæmd viðskiptastefnu og að auka reglufylgni aðildarríkja á alþjóðlegum skuldbindingum sem settar hafa verið á vettvangi WTO. Endurskoðun viðskiptastefnu er hins vegar ekki undanfari þvingunaraðgerða WTO vegna ófullnægjandi innleiðingar eða til að stofna til nýrra alþjóðlegra skuldbindinga. Tilgangur endurskoðunar er hins vegar að upplýsa aðildarríki með reglubundnum hætti um viðskiptastefnu annarra aðildarríkja og framkvæmd viðskiptastefnu. Aðildarríki WTO geta á grundvelli upplýsinga í endurskoðun viðskiptastefnu WTO eða sjálfstæðra rannsókna ákveðið að framkvæma nánari skoðun sem getur leitt til deilumála, t.d. á vettvangi WTO. Íslenskum stjórnvöldum hefur ekki borist kæra frá WTO eða aðildarríkjum þess vegna skorts á birtingu allra bindandi álita um tollflokkun vöru.
    Samkvæmt íslenskum lögum eru ákvarðanir um bindandi álit um tollflokkun vöru teknar af tollyfirvöldum á grundvelli 21. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Ákvörðun tollyfirvalda um bindandi tollflokkun er skuldbindandi gagnvart fyrirspyrjanda og tollyfirvöldum í sex ár frá birtingardegi, nema hún sé afturkölluð af tollyfirvöldum eða henni breytt eftir kæru til yfirskattanefndar. Tollalög gera hins vegar ekki sérstaklega ráð fyrir að ákvarðanir séu birtar fyrir öðrum en fyrirspyrjanda og tollmiðlara. Hins vegar hafa tollyfirvöld um marga ára skeið birt úrskurði skv. 117. gr. tollalaga á heimasíðu sinni og einnig birtir yfirskattanefnd úrskurði á grundvelli 118. gr. tollalaga, þar sem viðkvæmar upplýsingar hafa verið fjarlægðar. Hvað varðar bindandi álit hafa tollyfirvöld ekki birt ákvarðanir á heimasíðu. Tollyfirvöld hafa litið svo á að almennar upplýsingar sem fram koma í ákvörðunum um bindandi álit falli undir aðgang almennings að gögnum, sbr. upplýsingalög, nr. 140/2012. Tollyfirvöld hafa hins vegar synjað aðgangi að viðkvæmum upplýsingum sem fram koma í ákvörðunum, t.d. nafni fyrirspyrjanda, heimilisfangi, undirskrift og upplýsingum um viðskiptalegt auðkenni.
    Tollyfirvöld hafa um nokkurt skeið stefnt að almennri birtingu ákvarðana um bindandi álit tollflokkunar vöru á heimasíðu sinni. Samkvæmt skýringum frá Skattinum hafa ýmsar tæknilegar ástæður leitt til þess að birting álita hefur tafist. Á næstu tólf mánuðum stefna tollyfirvöld að innleiðingu nýrrar veftollskrár. Veftollskrá er hugbúnaður tollyfirvalda sem birtir með aðgengilegum hætti á heimasíðu tollyfirvalda tollskrá, sbr. viðauka 1 við tollalög, nr. 88/2005, upplýsingar um tollkjör, aðflutningsgjöld, innflutningstakmarkanir o.fl. Með nýrri veftollskrá skapast tækifæri til að veita betri upplýsingar um tollmeðferð og tengja bindandi álit við tollskrárnúmer sem verður aðgengilegt hagsmunaaðilum. Stefnt er að því að birta allar ákvarðanir um bindandi álit á heimasíðu og í veftollskrá á árinu 2024.