Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1076  —  517. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014 (EURES-netið).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.
    Tilefni þessa frumvarps er innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/589 frá 13. apríl 2016 um vinnumiðlunarnet Evrópu (EURES-netið), aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða, og breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 492/2011 og (ESB) nr. 1296/2013 en gert er ráð fyrir að efni hennar verði innleitt með reglugerð sem sett verði á grundvelli 20. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006.
    Ákvæði um EURES, vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu, hafa fram til þessa verið í reglugerð (ESB) nr. 492/2011, sem veitt hefur verið lagagildi hér á landi með lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga.
    Með 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589 eru ákvæði 11.–20. gr. og 38. gr. reglugerðar (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan sambandsins felld brott úr þeirri reglugerð og þess í stað tekin upp í reglugerð (ESB) 2016/589. Í ljósi þess er í frumvarpi þessu lagt til að í 1. gr. laganna verði kveðið á um að ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 492/2011, með þeim breytingum sem leiðir af 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589, skuli hafa lagagildi hér á landi.
    Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að fylgiskjal með lögunum, þar sem reglugerð (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan sambandsins er birt í heild sinni, verði fellt brott úr lögunum í samræmi við hefðbundna lagasetningu í tengslum við innleiðingu reglugerða sem leiðir af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ekki er því gert ráð fyrir breytingum hvað varðar gildi reglugerðar (ESB) nr. 492/2011 hér á landi, með þeim breytingum sem leiðir af 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589, heldur er eingöngu um að ræða hefðbundna framsetningu við innleiðingu reglugerða Evrópusambandsins með lögum hér á landi. Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir efnislegum breytingum hvað varðar starfsemi EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, hér á landi.
    Nefndin bendir á að frumvarpið felur ekki í sér efnisbreytingar á reglum sem gilda um EURES-netið. Annars vegar er um að ræða brottfall tiltekinna ákvæða úr fylgiskjali með lögunum, þar sem reglugerð ESB frá 2011 er birt, þar sem þessi tilteknu ákvæði er nú að finna í reglugerð ESB frá 2016 sem fyrirhugað er að innleiða hér á landi með reglugerð, sbr. framangreint. Hins vegar hefur frumvarpið í för með sér að framangreint fylgiskjal með lögunum er fellt brott og þess í stað birt sem hlekkur sem leiðir beint á vefslóð reglugerðar ESB frá 2011 sem nú er birt í fylgiskjalinu.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Halldóra Mogensen og Jódís Skúladóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.

Alþingi, 25. maí 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir,
frsm.
Halldóra Mogensen.
Ásmundur Friðriksson. Guðmundur Ingi Kristinsson. Guðrún Hafsteinsdóttir.
Jódís Skúladóttir. Oddný G. Harðardóttir. Óli Björn Kárason.