Ferill 714. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1108  —  714. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að stöðva brottvísanir og endursendingar flóttafólks til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands.


Flm.: Sigmar Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Lenya Rún Taha Karim, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að tryggja að stofnanir sem undir ráðuneytið heyra sendi umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki til Grikklands, Ítalíu eða Ungverjalands, óháð því hvort viðkomandi hafi þegar hlotið þar alþjóðlega vernd eða ekki.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 150. þingi (654. mál) en var ekki afgreidd. Sneri hún þá að brottvísunum og endursendingum til Grikklands en nú hefur Ítalíu og Ungverjalandi verið bætt við að auki.
    Markmiðið með tillögunni er að tryggja að stjórnvöld sendi umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki á svæði þar sem aðstæður eru óviðunandi og hætt er við að fólk verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Á tillagan sér stoð í 1. mgr. 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, sem felur í sér bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem lífi þess eða frelsi kann að vera stefnt í hættu.
    Íslenska ríkið hefur áður metið aðstæður tiltekinna svæða til móttöku flóttafólks óviðunandi. Má þar nefna að árið 2010 hætti Útlendingastofnun að senda flóttafólk til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar vegna þess að þarlend stjórnvöld gátu ekki staðið við alþjóðlegar skuldbindingar um aðbúnað flóttafólks. Sambærileg ákvörðun var tekin varðandi Ungverjaland árið 2015.
    Þrátt fyrir að brottvísunum flóttafólks hafi verið hætt til framangreindra landa á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þá hafa einstaklingar og fjölskyldur í mörgum tilvikum verið endursend þangað ef þau hafa þegar fengið þar alþjóðlega vernd. Aðstæður fólks sem hefur hlotið alþjóðlega vernd eru þó vart skárri en þeirra sem með umsókn í meðferð. Í Grikklandi og á Ítalíu á fólk mun minni rétt á opinberum stuðningi eftir að alþjóðleg vernd hefur verið veitt og í ítalska hæliskerfinu er ekki skimað eftir því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera viðkvæmir einstaklingar. Þá hafa stjórnvöld í Ungverjalandi lagt kapp á að takmarka aðgerðir og stuðning til handa flóttamönnum, m.a. með löggjöf sem gerir það að verkum að lögmenn, ráðgjafar, sjálfboðaliðar og aðrir sem aðstoða umsækjendur um alþjóðlega vernd geta átt yfir höfði sér fangelsisrefsingu. Í úrskurði kærunefndar útlendingamála 27. september 2018, nr. 387/2018, segir m.a. að samverkandi þættir leiði til þess að staða einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd, sem eru af öðrum kynþætti en almenningur í Ungverjalandi og hafa ekki aðlagast þar, sé mun verri en annarra þar í landi. Niðurstaðan er sú að í umræddum löndum býr flóttafólk sem hefur hlotið alþjóðlega vernd oft við afar bágbornar og ómannúðlegar aðstæður, á erfitt með að fá atvinnu og er oft heimilislaust á götunni eða í gistiskýlum.
    Með tillögu þessari er því lagt til að Ítalíu verði bætt við þau lönd sem fólk er ekki sent til á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og að stöðvun brottvísana og endursendinga taki einnig til annarra ákvarðana um að senda fólk til þessara þriggja landa, óháð því hvort umsækjandi hafi þegar hlotið þar alþjóðlega vernd eða ekki. Rétt er að þetta gildi þar til hægt verður að tryggja að aðbúnaður og mannréttindi flóttafólks séu virt í framangreindum löndum.
    Flutningsmenn tillögunnar telja yfir vafa hafið að aðstæður í Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi gefi fullt tilefni til þess að stöðva allar brottvísanir og endursendingar flóttafólks þangað. Er það sjónarmið stutt af samanburðargreiningu á vegum Evrópuþingsins um aðlögun flóttamanna í Grikklandi, Ungverjalandi og Ítalíu (e. Integration of refugees in Greece, Hungary and Italy: Comparative Analysis), öðrum alþjóðlegum skýrslum og frásögnum flóttafólks sem hefur dvalið með vernd í framangreindum löndum, líkt og fram kom m.a. í umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks 4. febrúar 2020.