Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1111  —  504. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Jódísi Skúladóttur um loftbrú.

     1.      Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til þess að úrræðið Loftbrú nýtist flugfarendum betur þar sem í ljós hefur komið að ef farþegar geta einhverra hluta vegna ekki nýtt sér fluglegg sem bókaður er með Loftbrú rennur styrkurinn engu að síður til flugfélagsins en farþeginn hefur þar tapað einum legg af sex óháð því hvort farþegi á rétt á endurgreiðslu flugmiðans eða ekki?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni endurnýjast afsláttur notanda ef flug er afbókað eða ef flugferð er aflýst af flugfélagi. Undantekning frá því er að ef keyptur er flugmiði með þeim skilmálum að ekki sé hægt að fá hann endurgreiddan gildir hið sama um afslátt Loftbrúarinnar nema flugfélagið beri ábyrgð á að miðinn hafi ekki verið notaður, svo sem ef flugið er fellt niður. Þá eru afbókanir miða sem ekki eru endurgreiðanlegir aðeins lítið brot af heildarafbókunum.
    Falli flug niður eða þurfi notandi að gera breytingar á sínu flugi eru réttindi Loftbrúar því í langflestum tilfellum endurútgefin. Hingað til hefur því ekki þótt þörf á sérstökum úrræðum vegna þessa.

     2.      Telur ráðherrann koma til álita að fjölga flugleggjum til handa flugfarendum sem fá nú einungis sex flugleggi á ári?
    Með Loftbrúnni hefur verið stigið stórt skref í þá átt að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti fyrir þá tæplega 60.000 einstaklinga sem eiga rétt á að nýta sér hana. Notkun Loftbrúarinnar er stöðugt að aukast. Í mars sl. höfðu tæplega 70.000 flugleggir verið bókaðir á þeim 18 mánuðum sem liðnir voru frá því að Loftbrúin fór í loftið. Haldi notkunin áfram að aukast kemur vel til greina að endurskoða fjölda flugleggja en hann verður þó ávallt háður fjárveitingum til verkefnisins.

     3.      Hve margar flugferðir hafa fallið niður á kostnað flugfarenda? Svar óskast sundurliðað eftir flugleiðum, tímabilum, kostnaði og nýtingu á Loftbrú eftir áfangastöðum.
    Þessum upplýsingum hefur ekki verið haldið sérstaklega saman af Vegagerðinni þar sem aðeins er um lítið brot flugferða að ræða.

     4.      Telur ráðherra að merkja megi breytingar á flugfargjöldum eftir að Loftbrú kom til?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni um greiðsluþátttöku Loftbrúar í febrúarmánuði 2021 annars vegar og hins vegar í febrúarmánuði 2022 má gera ráð fyrir að fargjöld hafi hækkað um u.þ.b. 10% milli ára. Hafa ber í huga í því sambandi að eldsneytisverð hefur hækkað mikið á þessum tíma og jafnframt að eingöngu er horft á verð á keyptum flugmiðum í gegnum Loftbrú.