Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1121  —  168. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 (fjölgun mismununarþátta).

Frá 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að við lög nr. 85/2018 verði bætt mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Það þýðir að lögunum verði breytt á þann veg að þau gildi ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar.
    Í 7. gr. laga nr. 85/2018 segir m.a. að hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, hvort heldur bein eða óbein, vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna sé óheimil, sbr. einnig lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.
    Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um breytingu á 3. gr. laganna þar sem finna má orðskýringar. Lagt er til að hugtakið „áreitni“ verið skilgreint á eftirfarandi hátt: „ Áreitni: Hegðun sem tengist kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.“
    Verði frumvarpið að lögum mun falla undir hugtakið „áreitni“ hegðun sem tengist trú og þar með trúartilfinningu og trúarlífi fólks. Sú breyting leiðir til þess að hegðun sem tengist trú þess sem fyrir henni verður, og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi, teljist áreitni.
    Hér er lagt til að trú, trúartilfinning og trúarlíf verði gerð að verndarhagsmunum laganna og hegðun (áreitni) sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi vegna trúar einstaklings.
    Bann gegn guðlasti, áður í 125. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, var numið úr gildi með lögum nr. 43 frá 8. júlí 2015. Greinin lýsti athöfn refsiverða sem í daglegu tali kallast guðlast og var eftirfarandi: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum]. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“
    Hvað það merkir nákvæmlega að draga dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags var háð mati hverju sinni og einungis dómstóla að skera úr um.
    Árið 1984 féll dómur (nr. 16/1983) í Hæstarétti Íslands þar sem eitt álitaefni sneri að 125. gr. hegningarlaga, en dómurinn er kenndur við tímaritið Spegilinn. Í dóminum sagði: „[V]erndarandlag 125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er trúartilfinning fólks og réttur þess til að hafa hana í friði, sé um að ræða trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.“ Af dóminum má ráða að það teljist til refsiverðrar háttsemi að smána trú og trúarlíf fólk eins og þau eru vernduð í trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar, ef verknaðinum fylgi ekki eitthvert framlag til málefnalegrar umræðu.
    Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 43/2015, þar sem fellt var brott bann gegn guðlasti með því að nema úr gildi 125. gr. almennra hegningarlaga, segir: „Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðis. Það er grundvallaratriði í frjálsu samfélagi að almenningur geti tjáð sig án ótta við refsingar af nokkru tagi, hvort heldur sem er af völdum yfirvalda eða annarra.“ Þá segir jafnframt: „Með þessu frumvarpi er lagt til að ákvæðið verði afnumið. Fólk hefur ólíka sýn á lífið og því er viðbúið að tjáning sem einn telur eðlilega telji annar móðgandi. Sem betur fer eru upplifanir fólks af lífinu og tilverunni afskaplega ólíkar. Því er með öllu óraunhæft að ætla mannlegum hugsunum, tilfinningum og skoðunum að rúmast alltaf innan ramma svokallaðs almenns velsæmis.“
    Ljóst er að það að misbjóða virðingu manns vegna trúar og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi vegna trúar hans, líkt og skilgreiningin á áreitni hljóðar í frumvarpi þessu, kveður á um sömu verndarhagsmuni og voru í 125. gr. almennra hegningarlaga um bann gegn guðlasti. Hér er því verið að taka bann gegn guðlasti aftur upp í lög að hluta eða að öllu leyti.
    Hér er einnig verið að skerða tjáningarfrelsi það sem aukið var með lögum nr. 43/2015 þar sem bann gegn guðlasti var afnumið. Það er grundvallaratriði í frjálsu samfélagi að almenningur geti tjáð sig án ótta við refsingar af nokkru tagi, hvort heldur sem er af völdum yfirvalda eða annarra.
    Ekki er fjallað um það í frumvarpinu að verið sé að lögfesta á ný bann gegn guðlasti með því að kveða á um að óheimilt verði að hegða sér með þeim hætti sem lýst er í orðskýringu á hugtakinu „áreitni“. Það sýnir að frumvarpið er ekki nægilega vel unnið og ígrundað hvað fyrrgreint atriði varðar.
    Þá verður að telja að fyrirhuguð breyting á 11. gr. laganna um að þeir sem birta eða hanna auglýsingar skuli sjá til þess að þær séu ekki til minnkunar eða lítilsvirðingar þeim sem hafa ákveðna trú sé mjög varasöm og gangi nærri tjáningarfrelsi fólks. Vel er hægt að hugsa sér að fjölmiðlar neiti að birta efni sem þeir telji að kunni að brjóta gegn þessu ákvæði. Sem dæmi má nefna umfjöllun fjölmiðla undanfarið um reynslu fólks af sértrúarsöfnuðum. Ef lögunum er breytt á þann veg sem lagt er upp með í frumvarpinu má vel vera að fjölmiðlar sjái sér ekki fært að viðhafa slíka umfjöllun. Með því væri verið að skerða tjáningarfrelsið. Ákvæðið felur í sér takmörkun á tjáningarfrelsinu og hætta er á því að ákvæðið kunni að leiða til sjálfsritskoðunar fjölmiðla um mikilvæg samfélagsleg málefni.
    Verði frumvarpið að lögum mun heiti laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, breytast í lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Þar með verða tvenn lög á Íslandi í gildi um jafna meðferð fólks, annars vegar lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og hins vegar lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, nr. 85/2018.
    Ekkert liggur fyrir um það hvort lögin tryggi fólki jafna meðferð, það er að segja hvort lögin veiti fólki sömu réttarvernd með því að tryggja því jafna meðferð í samfélaginu á vinnumarkaði og utan hans. Ef munur er á réttarverndinni er mikilvægt að hann sé skýrður með lögfræðilegu áliti. Ekkert slíkt lögfræðilegt álit liggur fyrir. Ef um sömu réttarverndina er að ræða þarf að svara því hvers vegna kveðið sé á um hana í tvennum lögum. Einnig þarf að gera skýra grein fyrir því hvenær lögin um jafna meðferð utan vinnumarkaðar gilda annars vegar og hvenær lögin um jafna meðferð á vinnumarkaði hins vegar. Skilin á gildissviði laganna þurfa að vera skýr.
    Ekki er hægt að sjá nokkra nauðsyn á því að tvenn lög tryggi fólki jafna meðferð í samfélaginu, ein lög utan vinnumarkaðar og önnur lög á vinnumarkaði. Það getur skapað misræmi í réttarverndinni og leitt til mismunandi réttarverndar í lagaframkvæmd. Mikilvægt er því að ein löggjöf fjalli um jafna meðferð fólks í samfélaginu en ekki tvenn.
    Þriðji minni hluti telur að ekki eigi að samþykkja frumvarpið í ljósi þess að málið hefur ekki verið skoðað með tilliti til þess hvort guðlast verði í raun gert refsivert að nýju. Samþykki Alþingi frumvarpið og verði það að lögum væri samþykkt bann gegn guðlasti án vitneskju um það, og það nokkrum árum eftir að slíkt bann var fellt úr gildi.

Alþingi, 30. maí 2022.

Eyjólfur Ármannsson.