Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
2. uppprentun.

Þingskjal 1125  —  350. mál.
Fyrirsagnir. Leiðrétting.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnar Braga Bragason og Guðmund Jóhannesson frá matvælaráðuneyti, Karl Gunnarsson frá Hafrannsóknastofnun, Snorra Sigurðsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Kristínu Ágústsdóttur og Róbert A. Stefánsson frá Samtökum náttúrustofa, Erlu Friðriksdóttur frá Breiðafjarðarnefnd, Ingibjörgu Birnu Erlingsdóttur frá Reykhólahreppi, Finn Árnason og Arnór Halldórsson frá Þörungaverksmiðjunni hf., Aðalstein Óskarsson og Jóhönnu Ösp Einarsdóttur frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Guðrúnu Gauksdóttur frá Æðarræktarfélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Breiðafjarðarnefnd, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Landssambandi smábátaeigenda, Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykhólahreppi, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum náttúrustofa, Stykkishólmsbæ, Þörungaverksmiðjunni hf. og Æðarræktarfélagi Íslands.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald, sem snúa að öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Lagt er til að felld verði brott ákvæði sem snerta störf Hafrannsóknastofnunar er snúa að rannsóknum á sjávargróðri. Þá er lagt til að felld verði brott ýmis önnur ákvæði sem ekki eiga lengur við.
    Árið 2017 voru í fyrsta sinn settar sérstakar reglur um nýtingu á sjávargróðri í náttúru Íslands með breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, á lögum um stjórn fiskveiða og á lögum um veiðigjald. Þau ákvæði falla að óbreyttu úr gildi í lok þessa árs.

Umfjöllun nefndarinnar.
Um mat á ágengni og aukningu í þrepum.
    Með leyfisbindingu þangnytja á grundvelli nýtingaráætlana er horft til þess að ábyrgð á nýtingunni sé hjá vinnsluaðilum. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að skýrt verði kveðið á um eftirlit með nýtingaráætlun í reglugerð og enn fremur að haldið verði til haga þeim forsendum sem leiða til ógildingar áætlunar og leyfis til nýtingar. Eftirlitið nái líka til mats á ágengni nytja, sem skulu framar öllu vera í sátt við umhverfið. Þessu til stuðnings telur meiri hlutinn að farsælast væri að áform um aukna þangtekju verði innleidd í áföngum með vísan til umsagna Náttúrufræðistofnunar og Hafrannsóknastofnunar.

Breytingartillögur.
Náttúrufræðistofnun.
    Nýting á þangi og þara er um margt ólík öðrum hafnytjum. Það á ekki síst við þegar kemur að rannsóknum og eftirliti. Mikilvægt er að hafrannsóknir, rannsóknir á strandsvæðum, lífríki þeirra, hrygningarstöðvum og seiðauppeldi sem og rannsóknir á fuglalífi fari hönd í hönd þegar slá á þang. Með hliðsjón af því er það mat meiri hlutans að áframhaldandi aðkoma Náttúrufræðistofnunar tryggi enn frekar sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis að Hafrannsóknastofnun beri að leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar um einstök mál er varða nýtingu sjávargróðurs.

Veiðigjöld.
    Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að meginrökin með því að fella niður veiðigjöld af klóþangi væru þau að þang væri skorið innan netlaga og væri því háð einkaeignarrétti. Meiri hlutinn fellst á þau sjónarmið en bendir á að slíkt gildir ekki um þara og gerir því tillögu um að áfram verði heimilt að taka veiðigjald af þara utan netlaga.

Gildistaka.
    Meiri hlutinn leggur til að gildistöku laganna verði frestað fram í byrjun næsta árs ef frumvarp þetta nær fram að ganga. Telur meiri hlutinn að frestun gildistöku sé sanngjörn ráðstöfun sem veiti aðilum svigrúm til að bregðast við breytingum á reglum. Við gildistöku laganna um áramót skuli leyfishafar uppfylla skilyrði hinna nýju ákvæða um nýtingaráætlanir o.fl. sem kveðið verður á um í reglugerð. Leyfi skuli gilda í allt að fimm ár.

    Meiri hlutinn telur að verði frumvarpið samþykkt þurfi að kanna kosti þess að bæta við ákvæðum um nýtingu á sjávargróðri utan netlaga, yfir tilteknu magni, í viðauka við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      4. gr. orðist svo:
                      15. gr. b laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

             Nýting sjávargróðurs.

                      Enginn má stunda þangslátt í atvinnuskyni nema hafa fengið til þess leyfi sem Fiskistofa gefur út til allt að fimm ára í senn. Leyfið skal bundið við þau sláttutæki, eða sláttupramma, sem hagnýtt eru af leyfishafa. Leyfið er óskiptanlegt og óframseljanlegt.
                      Um heimild til þangsláttar í fjöru eða netlögum sjávarjarðar fer samkvæmt samkomulagi við ábúanda eða landeiganda. Er nægilegt að meiri hluti eigenda eða fyrirsvarsmaður skv. 1. mgr. 9. gr. jarðalaga, nr. 81/2004, veiti samþykki sé það ekki til lengri tíma en tíu ára.
                      Ráðherra er heimilt að binda leyfi samkvæmt þessari grein skilyrðum sem varðað geta m.a. löndun, vigtun, eftirlit og skráningu. Þá er leyfi háð skilyrði um að leyfishafi hafi gert nýtingaráætlun um töku þangs sem gildi a.m.k. í fimm ár í senn. Skal áætlun uppfærð áður en sláttur hefst á hverju ári. Í henni skal greina hvaða tæki verði hagnýtt við slátt, hvaða magn verði slegið, hvar verði slegið og eftir atvikum hvaða svæði verði hvíld eftir slátt til að örva endurvöxt. Skal áætlunin byggjast á mati á lífmassa þangs og líklegu aðgengi að því í fjörum. Leitast skal við að gera grein fyrir áhrifum nýtingar á umhverfið með hliðsjón af þeim sláttutækjum og sláttuaðferðum sem verða hagnýtt. Drög að nýtingaráætlun skal leyfishafi kynna Hafrannsóknastofnun skriflega. Hafrannsóknastofnun skal, að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, veita umsögn um nýtingaráætlunina. Leyfishafa er skylt í nýtingaráætlun að greina athugasemdir stofnunarinnar og hvernig brugðist hafi verið við þeim.
                      Ráðherra er heimilt, sé talin þörf á að koma í veg fyrir staðbundna ofnýtingu á tilteknum stofni, að ákveða að öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni utan fjörusvæða sé auk almenns veiðileyfis háð sérstöku leyfi Fiskistofu, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Auk þeirra skilyrða sem þar greinir má binda leyfi sömu skilyrðum og greinir í 1. og 3. mgr. Geta leyfi þessi verið til allt að 10 ára í senn. Ráðherra getur kveðið nánar á um gerð og innihald nýtingaráætlana í reglugerð, um skilyrði fyrir tæki og búnað við öflun sjávargróðurs og um form og efni ákvörðunar um leyfi vegna öflunar á sjávargróðri.
     2.      7. gr. orðist svo:
                      Orðið „klóþangs“ í 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.
     3.      8. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023. Leyfi til öflunar sjávargróðurs í atvinnuskyni sem eru í gildi á því tímamarki skulu uppfylla skilyrði laga þessara og geta þá gilt til allt að fimm ára.

Alþingi, 17. maí 2022.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, frsm. Hildur Sverrisdóttir.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Hanna Katrín Friðriksson. Haraldur Benediktsson.
Helga Þórðardóttir. Helgi Héðinsson.