Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1144  —  456. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2022 um breytingar á fjárheimildum sem leiðir af breyttri skipan Stjórnarráðsins í samræmi við forsetaúrskurð.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Í desember síðastliðnum lagði forsætisráðherra fram stjórnartillögu sem samþykkt var á Alþingi af þingflokkum ríkisstjórnarinnar 27. janúar sl. sem ályktun nr. 6/152. Í þeirri tillögu kemur fram að breytingarnar séu ekki síst fallnar til þess að: „fella ósýnilega múra stofnanamenningar“. Þar er talað um að breytingarnar stuðli að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins. Þetta eru falleg orð og góð markmið, en hvað liggur eiginlega á bak við þessi markmið?

Forsætisráðuneytið spannar verksvið.
    Mannréttindi, mannréttindasamningar og jafnréttismál eru flutt til forsætisráðuneytisins af því að það er „augljós samlegð með þeim málefnum í forsætisráðuneytinu“. Rökin fyrir því að mannréttindi eigi heima í forsætisráðuneyti eru að grunni til talin vera að: „mannréttindamál spanna verksvið ráðuneyta þvert á Stjórnarráðið og sveitarfélög landsins“.
    Nú er persónuvernd líka mannréttindamál og spannar verksvið allra ráðuneyta og sveitarfélaga landsins. Samt eru persónuverndarmál í dómsmálaráðuneytinu. Sömu rök, önnur niðurstaða. Hvað með „9. Almennar umbætur í starfsemi hins opinbera“ sbr. forsetaúrskurð nr. 6/2022? Spannar það ekki líka verksvið allra ráðuneyta? Það er samt fjármálaráðuneytið sem sér um þetta verksvið. Hvað með loftslagsmál, miðað við markmið um forgang þeirra og nauðsyn þess að brugðist sé við á öllum verksviðum sem vettlingi geta valdið?
    Eitt verkefni fer frá forsætisráðuneytinu, en það er að framfylgt sé lögum og reglum um undirbúning stjórnarfrumvarpa. Rökin fyrir því að slíkt verkefni sem spannar verksvið allra ráðuneyta sé flutt frá ráðuneytinu til dómsmálaráðuneytis er að það sé verið að fylgja danskri fyrirmynd.

Tilfærslufjárauki.
    Í þeim fjárauka sem hér er fjallað um birtast okkur þær fjárlagalegu tilfærslur sem fylgja þessari ákvörðun um endurskipulagningu ráðuneyta. Meiri hluti nefndarinnar ítrekar að markmiðið með breytingunum sé að: „tryggja að Stjórnarráðið verði sem best til þess fallið að takast á við nýjar áskoranir sem við er að etja hverju sinni og takast á við ný og breytt verkefni í takt við þarfir hvers tíma“ sem bergmálar svipað orðalag úr þingsályktun um breytta skipan ráðuneyta, nr. 6/152, en í greinargerð með þeirri tillögu er sérstaklega vísað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna: „sem varpaði ljósi á alvarlega veikleika í íslensku stjórnkerfi, ekki síst að því er varðaði skort á samhæfingu og samvinnu þeirra stjórnvalda sem fóru með skyld verkefni og getu stjórnsýslunnar til viðbragða og stefnumótunar“.
    Það verður því að teljast verulega kaldhæðnislegt að eitt af því fyrsta sem gerist eftir þessar skipulagsbreytingar sem stuðla eigi að betri samvinnu, samráði og samhæfingu að það klúðrist enn og aftur að selja banka. Þrátt fyrir fullt samráð milli Bankasýslunnar og fjármálaráðuneytis, að sögn Bankasýslunnar að minnsta kosti.
    Það má því segja að þessi tilraun til þess að fella ósýnilega múra stofnanamenningarinnar hafi mistekist þegar fyrst reyndi á. Það, eða þá að vandinn er kannski ekki hjá stofnununum heldur í pólitíkinni sem virðist ekki geta starfað eftir faglegum vinnubrögðum þegar mestu máli skiptir.

Álit 2. minni hluta.
    Sumar af þessum tilfærslum eru örugglega ágætar á meðan aðrar vekja upp ýmsar spurningar, eins og fram kom í umræðum um stjórnartillöguna sem verið er að bregðast hér við með þessum fjárauka. Tillagan er hins vegar illa rökstudd og algerlega án mælanlegra markmiða til þess að hægt sé að meta hvort ávinningur verði af því að kosta til næstum hálfum milljarði kr. á ári í þessar breytingar.
    Ábyrgðin á þessum aðgerðum er algerlega í höndum ríkisstjórnarinnar og þingmanna stjórnarflokkanna. Fulltrúi 2. minni hluta hafnaði stjórnartillögunni um breytta skipan ráðuneyta og er enn mótfallinn þessum aukakostnaði og tilfærslum. 2. minni hluti mælir með því að málinu verði hafnað.

Alþingi, 23. maí 2022.

Björn Leví Gunnarsson.