Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1152  —  587. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018 (lenging lánstíma).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heimi Skarphéðinsson og Sigrúnu Brynju Einarsdóttur frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Helenu Karlsdóttur frá Ferðamálastofu og Baldur Sigmundsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Umsagnir bárust frá Ferðamálastofu og Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að lengja lánstíma lána sem Ferðaábyrgðasjóður hefur veitt til ferðaskrifstofa til að endurgreiða neytendum vegna pakkaferða sem var aflýst eða voru afbókaðar vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem sköpuðust í upphafi kórónuveirufaraldursins. Lánin voru veitt til allt að sex ára en með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að lengja lánstímann til allt að tíu ára.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar kom fram að ferðaskrifstofur þurfi aukið svigrúm til að endurgreiða þau lán sem þeim voru veitt en við ákvörðun sex ára tímamarksins með lögum nr. 78/2020, hafi litið út fyrir að kórónuveirufaraldurinn myndi ekki hafa þau langtímaáhrif sem svo varð. Viðspyrna ferðaþjónustunnar hafi þannig orðið hægari en vonir stóðu til og óvissuástandið varað lengur. Í umsögn Ferðamálastofu var m.a. bent á að aukin dreifing afborgana sé mikið hagsmunamál fyrir lántakendur en langstærsti hluti þeirra hafi nýtt sér frestun fyrstu afborgunar. Lenging lánstímans og viðsnúningur ferðaþjónustunnar muni án efa auka greiðslugetu lántakenda þegar fram líði stundir. Hvort tveggja Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa hvöttu til þess að frumvarpið yrði samþykkt.
    Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarpsins hefur fyrsta gjalddaga lána Ferðaábyrgðasjóðs verið frestað í tvígang þar sem neikvæðra áhrifa kórónuveirufaraldursins á ferðaþjónustuna hefur gætt lengur en fyrirsjáanlegt var og fyrsti gjalddagi er nú 1. desember 2022. Þar sem lánstíminn breyttist ekki samhliða frestun gjalddaga auk þess sem viðspyrna ferðaþjónustunnar hefur verið hægari en vonir stóðu til er ljóst að greiðslubyrði lántakenda verður mjög mikil á fyrsta gjalddaga að óbreyttu. Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um að eitt af markmiðum laga nr. 78/2020 hafi verið að aðstoða ferðaskrifstofur í því erfiða rekstrarumhverfi sem leiddi af heimsfaraldrinum. Með hliðsjón af öllu framangreindu telur nefndin nauðsynlegt að lengt verði í lánstíma þeirra lána sem Ferðaábyrgðasjóður veitti og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Haraldur Benediktsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 2. júní 2022.

Stefán Vagn Stefánsson,
form., frsm.
Gísli Rafn Ólafsson. Hildur Sverrisdóttir.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Hanna Katrín Friðriksson.
Tómas A. Tómasson. Þórarinn Ingi Pétursson. Haraldur Benediktsson.