Ferill 622. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1156  —  622. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um aðgerðir til að auðvelda aðgengi erlendra sérfræðinga utan EES að íslenskum vinnumarkaði.


     1.      Til hvaða aðgerða hefur ráðherra gripið til að auðvelda aðgengi erlendra sérfræðinga frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins að íslenskum vinnumarkaði?
    Á undanförnum árum hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að auðvelda aðgengi erlendra sérfræðinga frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins að innlendum vinnumarkaði. Í því sambandi má meðal annars nefna að í þeim tilvikum þegar um er að ræða umsókn um atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar getur hlutaðeigandi atvinnurekandi óskað eftir að Vinnumálastofnun taki ákvörðun um heimild viðkomandi útlendings til að hefja störf hjá atvinnurekandanum á afgreiðslutíma umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Skilyrði fyrir því að slíkt sé heimilt er að Vinnumálastofnun hafi veitt tímabundið atvinnuleyfi í því tilviki sem um ræðir hverju sinni með fyrirvara um veitingu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar samkvæmt lögum um útlendinga og að atvinnurekandinn ábyrgist greiðslu á heimflutningi útlendingsins komi til þess að honum verði synjað um dvalarleyfið. Í þeim tilvikum þar sem fyrir liggur undirritaður ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og útlendings er Vinnumálastofnun jafnframt heimilt að taka til meðferðar umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar á undan öðrum umsóknum um atvinnuleyfi sem hafa borist stofnuninni. Enn fremur hefur sá tími sem heimilt er að veita tímabundin atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar í fyrsta skipti verið lengdur úr einu ári í tvö auk þess sem heimilt er að framlengja slík atvinnuleyfi um allt að tvö ár í senn.
    Þá hafa Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun breytt verkferlum sín á milli í því skyni að tryggja að ekki verði óþarfa tafir á afgreiðslu atvinnuleyfis í þeim tilvikum þegar um er að ræða umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur umsóknum um atvinnuleyfi hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar fjölgað ár frá ári frá því árið 2015 ef undan er skilið árið 2020. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjölda veittra atvinnuleyfa hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar sem og hlutfall veittra leyfa af umsóknum um slík leyfi, greint eftir árum, en til viðbótar má nefna að það sem af er árinu 2022 hefur Vinnumálastofnun veitt rúmlega 180 slík atvinnuleyfi.

Ár Fjöldi leyfa Aukning frá fyrra ári Hlutfall veittra leyfa
2021 684 20% 95%
2020 572 -4% 93%
2019 597 16% 95%
2018 516 31% 95%
2017 395 22% 96%
2016 325 69% 99%
2015 192 40% 96%
Heimild: Vinnumálastofnun.

     2.      Hyggst ráðherra grípa til frekari aðgerða til að auðvelda aðgengi erlendra sérfræðinga frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins að íslenskum vinnumarkaði? Ef svo er, til hvaða aðgerða og hvenær er gert ráð fyrir að þeim verði lokið?
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs kemur meðal annars fram að umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir einstaklinga sem sinna störfum sem krefjast sérfræðiþekkingar verði einfaldað. Verkefnið fellur undir dómsmálaráðuneytið en gert er ráð fyrir að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið verði einn af þeim aðilum sem munu koma að þeirri vinnu.
    Þegar vinnu við framangreint verkefni vindur fram má svara því til hvaða aðgerða verði gripið í því skyni að auðvelda aðgengi erlendra sérfræðinga frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins að innlendum vinnumarkaði.

     3.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að auka réttindi erlendra sérfræðinga og fjölskyldna þeirra frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fá dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi? Ef svo er, til hvaða aðgerða og hvenær er gert ráð fyrir að þeim verði lokið?
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs kemur meðal annars fram að mótuð verði skýr og heildstæð stefna í málefnum útlendinga sem miði að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði. Þessi stefnumótun fellur undir málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins en gert er ráð fyrir að í þeirri vinnu sem það verkefni mun hafa í för með sér verði meðal annars vikið að réttindum erlendra sérfræðinga og fjölskyldna þeirra frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem hyggjast setjast hér að. Aðgerðir og tímarammi liggja ekki fyrir að svo stöddu.

     4.      Hefur verið gripið til aðgerða til að stytta afgreiðslutíma umsókna sérfræðinga frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi? Ef svo er, hvenær er gert ráð fyrir að þeim verði lokið?

    Lög um útlendinga, nr. 80/2016, falla ekki undir málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og hefur ráðuneytið því ekki upplýsingar um hvort gripið hafi verið til aðgerða til að stytta afgreiðslutíma umsókna sérfræðinga frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um dvalarleyfi hér á landi. Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, falla hins vegar undir málefasvið ráðuneytisins og fer Vinnumálastofnun með framkvæmd laganna.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur afgreiðslutími umsókna um tímabundin atvinnuleyfi hér á landi vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar verið um það bil þrjár vikur eftir að umsókn berst stofnuninni til afgreiðslu. Er þar með talinn sá tími sem það tekur hlutaðeigandi atvinnurekanda að gera úrbætur á umsókn, ef þurfa þykir, sem og til að leggja fram nauðsynleg gögn eða afla umsagnar viðeigandi stéttarfélags. Meðalafgreiðslutími veittra atvinnuleyfa vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar var 23 dagar á árinu 2021 og 21 dagur á árinu 2020 en við útreikning á afgreiðslutíma er ekki gerður greinarmunur á virkum dögum og almennum frídögum. Fylgi fullnægjandi gögn með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar getur Vinnumálastofnun verið unnt að ljúka afgreiðslu umsóknar innan fárra daga eða jafnvel sama dag og umsókn berst stofnuninni.
    Þess má geta að í stefnu Vinnumálastofnunar fyrir árin 2022–2024, sem sett hefur verið í samræmi við 31. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, er við það miðað að afgreiðslutími umsókna um tímabundin atvinnuleyfi sé að hámarki 21 dagur.