Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1165  —  272. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (Félagsdómur).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Frumvarpinu var vísað aftur til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu og hefur nefndin fjallað um málið að nýju. Nefndin fékk á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur og Jón Þór Þorvaldsson frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Þá barst nefndinni minnisblað frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.
    Meiri hlutinn vill árétta nokkur atriði í frumvarpinu nánar. Í fyrsta lagi telur meiri hlutinn þörf á að skýra nánar hvers vegna skipan dómara verður með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir og sérstaklega hvers vegna skipan sumra dómara verður ótímabundin. Meiri hlutinn bendir á að hafa þarf í huga að í hverju máli sem rekið er fyrir Félagsdómi sitja fimm dómarar. Þeir þrír dómarar sem samkvæmt gildandi lögum eru skipaðir eða tilnefndir af Hæstarétti sitja í öllum málum en það fer eftir aðild hvers máls hvaða dómarar taka sæti sem fjórði og fimmti dómari. Þegar Félagsdómur dæmir í málum á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur sem varða aðildarfélög ASÍ og Samtök atvinnulífsins taka sæti dómarar sem hafa verið tilnefndir af þeim aðilum til þriggja ára í senn. Þegar Félagsdómur dæmir í málum sem rísa á milli samningsaðila samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka sæti dómarar sem hafa verið tilnefndir á grundvelli þeirra laga til þriggja ára í senn, annars vegar af viðkomandi heildarsamtökum stéttarfélaga og hins vegar fjármála- og efnahagsráðherra eða Sambandi íslenskra sveitarfélaga í stað þeirra sem tilnefndir hafa verið af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Sé stéttarfélag utan heildarsamtaka aðili máls fyrir Félagsdómi tilnefnir það sjálft dómara í það mál. Hið sama á við sé atvinnurekandi, sem er málsaðili, ekki félagi í Samtökum atvinnulífsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að þeir dómarar sem sitja í öllum málum sem rekin eru fyrir Félagsdómi verði skipaðir ótímabundið í því skyni að tryggja enn frekar sjálfstæði þeirra og óhlutdrægni. Aftur á móti þótti meiri hlutanum ekki tilefni til að leggja til samsvarandi breytingar á fyrirkomulagi við skipan þeirra dómara sem aðilar vinnumarkaðarins tilnefna í dóminn á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur eða laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. framangreint.
    Í öðru lagi vill meiri hlutinn árétta hvernig frumvarpið samræmist athugasemdum GRECO um skipan og tilnefningu Hæstaréttar í Félagsdóm. Í skýrslu GRECO sem frumvarpið vísar til komu fram athugasemdir í tengslum við fyrirkomulag við tilnefningar og skipun dómara í Félagsdóm, sér í lagi þá dómara sem tilnefndir væru og skipaðir af Hæstarétti og talið að tryggja þyrfti betur en nú er sjálfstæði, óhlutdrægni og gagnsæi dómsins. Meiri hlutinn telur að með frumvarpinu séu lagðar til breytingar í því skyni að bregðast við gagnrýni GRECO en meiri hlutinn telur að tillaga um að ráðherra skipi ótímabundið þá dómara sem tilnefndir eru af Hæstarétti sé til þess fallin að tryggja enn betur sjálfstæði og óhlutdrægni dómsins. Auk þess bendir meiri hlutinn á að reglur um auknar hæfiskröfur og ótímabundna skipan séu til þess fallnar að tryggja viðbrögð við ábendingum GRECO.
    Að lokum ítrekar meiri hlutinn að frumvarpið er afrakstur vinnu nefndar sem var ásamt fulltrúum ráðuneytisins skipuð fulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins sem eru þeir aðilar sem leggja ágreining fyrir Félagsdóm. Í ljósi þeirrar breiðu sáttar sem náðist um málið milli framangreindra aðila sem og í ljósi þeirra sjónarmiða sem rakin eru að framan telur meiri hlutinn rétt að virða efnislega niðurstöðu þeirrar nefndar.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með áorðnum breytingum.
    Ásmundur Friðriksson og Óli Björn Kárason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.

Alþingi, 3. júní 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Guðrún Hafsteinsdóttir. Oddný G. Harðardóttir.
Orri Páll Jóhannsson. Óli Björn Kárason.