Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1175  —  461. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um fjarskipti.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Rafnar Pétursdóttur og Birgi Rafn Þráinsson frá háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, Björn Geirsson, Sigurjón Ingvason og Unni Kristínu Sveinbjarnardóttur frá Fjarskiptastofu, Þórhall Ólafsson, Magnús Hauksson og Þórarinn V. Þórarinsson frá Neyðarlínunni ohf., Auði Ingu Ingvarsdóttur og Jón Ríkharð Kristjánsson frá Mílu ehf., Heimi Örn Herbertsson og Gunnar A. Ólafsson frá Nova hf., Pál Ásgrímsson og Heiðar Guðmundsson frá Sýn hf., Eirík Hauksson og Orra Hauksson frá Símanum hf., Jóhann Svein Sigurleifsson, Jón Inga Ingimundarson og Hlyn Halldórsson frá Ljósleiðaranum ehf., Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum iðnaðarins, Halldór Hallgrímsson Gröndal, Steingrím Ægisson og Aðalheiði Aðalsteinsdóttur frá Samkeppniseftirlitinu, Matthildi Sveinsdóttur frá Neytendastofu, Breka Karlsson og Einar Bjarna Einarsson frá Neytendasamtökunum, Þórð Sveinsson og Pál Heiðar Halldórsson frá Persónuvernd, Heiðmar Guðmundsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Þorvarð Sveinsson frá Farice ehf., Helga Valberg Jensson og Berg Jónsson frá ríkislögreglustjóra, Hinriku Söndru Ingimundardóttur og Guðmund Þóri Steinþórsson frá dómsmálaráðuneytinu, Chloé Berthélémy og Jesper Lund frá European Digital Rights og Pál Þórhallsson, varaformann nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis á árunum 2018–2019.
    Nefndinni bárust umsagnir og minnisblöð frá dómsmálaráðuneyti, Farice ehf., Fjarskiptastofu, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, Ljósleiðaranum ehf., Mílu ehf., Neytendastofu, Neytendasamtökunum, Neyðarlínunni ohf., Nova hf., Persónuvernd, ríkislögreglustjóra, Ríkisútvarpinu ohf., Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Símanum hf. og Sýn hf. Þá liggur fyrir umsögn utanríkismálanefndar sem nefndin óskaði eftir. Þar sem frumvarpið hefur í tvígang áður verið lagt fram og gengið til nefndarinnar eftir 1. umræðu, annars vegar á 150. löggjafarþingi vorið 2020 (775. mál) og hins vegar á 151. löggjafarþingi vorið 2021 (209. mál), liggur fyrir nefndinni fjöldi eldri umsagna sem nefndin hafði einnig til hliðsjónar við meðferð málsins.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun fjarskiptalöggjafarinnar og að innleidd verði hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um fjarskipti (e. European Electronic Communications Code Directive eða EECC-tilskipunin), sem stundum er vísað til sem „Kóðans“. Um er að ræða nýja grunngerð, þ.e. uppfærðar meginefnisreglur á fjarskiptamarkaði (e. recast), sem leysir af hólmi fjórar eldri gerðir. Aðildarríki Evrópusambandsins áttu í desember 2020 að hafa innleitt tilskipunina í landsrétt. EECC-tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 275/2021 frá 24. september 2021, með stjórnskipulegum fyrirvara. Sama dag var tekin upp í samninginn, með ákvörðun nr. 274/2021, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (e. Body of European Regulators for Electronic Communications eða BEREC) og stofnun honum til stuðnings (e. Agency for Support for BEREC eða BEREC Office), um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/2120 og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 1211/2009. Evrópskur hópur eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) er ráðgefandi og stefnumótandi samstarfsvettvangur sem ætlað er að stuðla að samræmdri innleiðingu og framkvæmd samevrópsks regluverks á fjarskiptamarkaði, svo sem með útgáfu leiðbeininga og ráðgjöf. Í daglegu tali er vitnað til EECC-tilskipunarinnar og BEREC-reglugerðarinnar sem fjarskiptapakka Evrópusambandsins frá 2018. Alþingi samþykkti með lögum um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021, heimild til handa ráðherra um innleiðingu BEREC-reglugerðarinnar með setningu reglugerðar. Stefnt er að setningu hennar af hálfu ráðherra verði frumvarpið að lögum. Með því yrði fjarskiptapakki Evrópusambandsins innleiddur í íslenska löggjöf.

Umfjöllun nefndarinnar.
Heildarendurskoðun fjarskiptalöggjafar.
    Núgildandi fjarskiptalöggjöf byggist að mestu á samevrópsku regluverki, þ.e. ýmsum gerðum Evrópuþingsins og ráðsins, og er hún komin nokkuð til ára sinna. Í því sambandi vísar meiri hluti nefndarinnar einkum til framfara í tækni og þjónustu og áréttar mikilvægi þess að löggjöf á hverjum tíma fylgi tækniþróun. Frumvarpið felur í sér breytingar og nýmæli frá gildandi regluverki þó að um sé að ræða að mestu uppfærslu á framangreindu samevrópsku regluverki.
    Þegar heildarendurskoðun löggjafar fer fram þarf að tryggja að gildandi stjórnvaldsfyrirmæli, svo sem reglugerðir, séu uppfærð og áréttar meiri hluti nefndarinnar að ljúka þurfi þeirri vinnu svo fljótt sem kostur er svo að endurskoðunin nái markmiði sínu. Heildarendurskoðun alls regluverks á fjarskiptamarkaði stuðlar að framförum, fjárfestingum, samkeppni, hagkvæmni, samnýtingu og vernd neytenda. Þá er bent á að gildistími fjölmargra tíðniheimilda rennur út á fyrsta ársfjórðungi 2023 og er því afar æskilegt að við undirbúning endurúthlutunar verði stuðst við endurnýjað regluverk.

Samstarf markaðsaðila.
    Með frumvarpinu er hvatt til aukins samstarfs markaðsaðila og sameiginlegra fjárfestinga við uppbyggingu innviða og tilteknum ívilnunum heitið þeim sem byggja upp innviði. Fyrirtækjum sem eingöngu selja aðgang að innviðum í heildsölu og starfa ekki á smásölustigi má segja að sé ívilnað á þann hátt að á slík fyrirtæki er ekki unnt að leggja eins íþyngjandi kvaðir og á lóðrétt samþætt fjarskiptafyrirtæki. Meiri hluti nefndarinnar áréttar mikilvægi samskipta og samstarfs við innviðauppbyggingu.

Varðveisla gagna vegna rannsóknar sakamála.
    Í 3. mgr. 89. gr. er að finna ákvæði sem kveður á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að varðveita ákveðna lágmarksskráningu gagna í sex mánuði í þágu almannaöryggis og rannsóknar sakamála. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi fjarskiptalögum en það kom inn í lögin með breytingalögum nr. 78/2005. Nefndin hefur fjallað um þetta ákvæði og hvernig ákvæði gildandi laga hafa nýst lögreglu og ákæruvaldi í framkvæmd. Þau sjónarmið hafa komið fram í samráði og umsögnum að það kunni að vera að varðveislutími gagnanna sé ekki nægilega langur og það geti haft skaðlegar afleiðingar fyrir rannsókn sakamála í þeim tilvikum þegar rannsókn hefst eftir að sex mánaða fresturinn er liðinn.
    Meiri hluti nefndarinnar beinir því til ráðherra að taka til skoðunar svo fljótt sem auðið er hvort tilefni sé til að gera breytingar á greininni að teknu tillit til framangreindra sjónarmiða og bendir á að við þá skoðun skuli höfð hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga, m.a. er lúta að tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs, sjónarmiðum um meðalhóf og þróun evrópskrar löggjafar á sviði persónuverndar. Við þá skoðun beinir meiri hluti nefndarinnar því til ráðherra að kanna hvort tilefni sé til að lengja varðveislutímann, breyta skilyrðum varðveislu o.s.frv. Áréttað er að varðveisla gagna á grundvelli ákvæðisins nú er eingöngu gerð í þágu almannaöryggis og uppljóstrunar brota og það er eftir sem áður í höndum dómara að úrskurða um kröfu ákæruvaldsins um afhendingu gagna.

Ríkisstyrktir innviðir.
    Nefndin hefur fjallað um aðgang að ríkisstyrktum innviðum til að auka dreifingu fjarskiptasambands. Meiri hluti nefndarinnar beinir því til ráðherra að finna leiðir til að tryggja betri aðgang að ríkisstyrktum innviðum svo tryggt sé að þeir nýtist í raun til að efla fjarskiptaþjónustu og samkeppni á því sviði. Það er áréttað að fjárstuðningur ríkisvaldsins þarf að endurspeglast í verðskrám fyrir aðgang að umræddri þjónustu.

Önnur atriði.
    Meiri hluti nefndarinnar tekur sérstaklega fram að frumvarpið hefur að geyma ýmis nýmæli sem eru til þess fallin að auðvelda og bæta aðstöðu stjórnvalda til að leggja mat á árangur og umbætur í lagaumhverfi fjarskipta og framkvæmd hennar, bæði reglubundið og til framtíðar. Áréttað er að þegar við kemur sviði eins og fjarskiptum, þegar framfarir tækni og þjónustu eru miklar, sé mjög mikilvægt að stjórnvöld meti árangur reglubundið og geri tillögur að umbótum ef reynslan sýnir að umbóta sé þörf.

Breytingartillögur.
Almennt.
    Nefndinni barst fjöldi umsagna um málið sem hún hefur yfirfarið efnislega. Meiri hluti nefndarinnar telur, í ljósi umsagna og annars samráðs, m.a. við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og Fjarskiptastofu, að breytingar þurfi að gera á frumvarpinu. Annars vegar er um að ræða tilteknar breytingar er lúta að notkun hugtaka og orðalagi og hins vegar breytingar á einstökum greinum eins og nánar verður gerð grein fyrir.

Orðskýringar (5. gr.).
    Í 10. tölul. er orðið endanotandi skilgreint sem notandi sem ekki býður almenn fjarskiptanet eða veitir almenna fjarskiptaþjónustu. Á ýmsum stöðum hefur í frumvarpinu verið notað hugtakið neytandi í stað endanotandi og eru því lagðar til breytingar á frumvarpinu til að laga og samræma notkun á hugtakinu endanotandi. Þá er á stöku stað lagt til að hugtakinu notanda verði skipt út fyrir endanotanda. Breytingunum er ætlað að stuðla að innbyrðis samræmi.
    Í 13. tölul. er lögð til breyting á orðskýringu hugtaksins fjarskiptafyrirtæki, þannig að vísað verði til 4. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005. Ekki fæst séð að breytingin hafi efnisleg áhrif frá því sem gildandi lög og frumvarpið gera ráð fyrir, enda er fyrirtæki skilgreint þannig í 2. tölul. 4. gr. samkeppnislaga: „Fyrirtæki er einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem stunda atvinnurekstur.“ Þá er skrá yfir fjarskiptafyrirtæki aðgengileg á vef Fjarskiptastofu.
    Í 46. tölul. er lagt til að orðunum „þráðlausrar leiðsöguþjónustu“ verði skipt út fyrir orðið „fjarleiðsöguþjónustu“, með vísan til reglugerðar nr. 400/2008, um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands.

Skipulag tíðnirófsins (12. gr.).
    Stofngerð um evrópskan stefnuhóp um fjarskiptatíðnirófið (e. Radio Spectrum Policy Group), sem vikið er að í 15. gr. frumvarpsins var endurnýjuð 2019. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er stefnt að upptöku gerðarinnar í EES-samninginn en fyrir mistök hófst ferli vegna upptöku hennar ekki fyrr en sl. vetur. Helstu verkefni hópsins á grundvelli nýrra gerða eru að vera samráðsvettvangur við mótun stefnu Evrópusambandsins um tíðniskipulag, aðstoð við að samræma tíðninotkun til að koma í veg fyrir skaðlegar truflanir á tíðnisviði yfir landamæri og, þegar við á, rýni á áformum aðildarríkja um úthlutun tíðniheimilda. Hópurinn hefur ekki heimildir til töku bindandi ákvarðana. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að við 6. mgr. 12. gr., þar sem ráðherra er veitt heimild til þess að gefa út reglugerð um atriði tengd tíðnum, bætist tilvísun til aðildar að hópnum.

Innanhússfjarskiptalagnir (25. gr.).
    Ákvæðið byggist á 60. gr. gildandi fjarskiptalaga, eins og það var samþykkt með lögum nr. 125/2019, um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta. Lagt er til að felld verða á brott orðin „samþykkt hönnunargögn“ í 2. málsl. 1. mgr. og ákvæðið verður þá svohljóðandi: „Staðsetning aðgangspunkts og allar innanhússfjarskiptalagnir skulu vera í samræmi við teikningar byggingar og/eða með samþykki húseigenda“. Er breytingin lögð til með vísan til þess að í nýlegum byggingum geta teikningar (hönnunargögn) mögulega sýnt legu innanhússfjarskiptalagna og inntaksstaðar fjarskipta (staðsetning aðgangspunkts), en raunin mun oftar vera sú að teikningar sýni þetta ekki. Í síðastnefndum tilvikum þarf að ákveða lagnaleiðir fyrir innanhússfjarskiptalagnir og staðsetningu aðgangspunkts, en ábyrgðin er á eiganda hlutaðeigandi byggingar með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. Þá er lagt til að felld verði á brott orðin „aðgangspunktur skal vera innsiglaður eða læstur og“ í 3. málsl. 1. mgr. og að skerpt verði á orðalagi og málsliðurinn verði svohljóðandi: „Í fjöleignarhúsum skal, eins og kostur er, verja aðgangspunkt og innanhússfjarskiptalagnir óviðkomandi aðgangi“.

Skilgreining markaðsaðila o.fl. (43. gr.).
    Lögð er til sú breyting að við skilgreiningu á markaði skuli einnig taka tilliti til innlendra aðstæðna, sérstaklega viðkomandi landfræðilegs markaðar, þar sem hliðsjón er m.a. höfð af eðli samkeppni í innviðum á tilteknu svæði í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

Framkvæmd markaðsgreininga (44. gr.).
    Lagðar eru til tvær nýjar málsgreinar í stað 5. mgr., annars vegar þess efnis að leiði markaðsgreiningin á grundvelli 1.–4. mgr. í ljós að skilyrði á viðkomandi markaði réttlæti ekki álagningu kvaða eða skilyrði skv. 6. mgr. séu ekki fyrir hendi, skal hvorki leggja á né viðhalda kvöðum á grundvelli 46. gr. frumvarpsins. Hafi kvaðir verið lagðar á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði beri að fella þær úr gildi. Hins vegar er lagt til að telji Fjarskiptastofa á grundvelli markaðsgreiningar sem framkvæmd er í samræmi við 1.–4. mgr. að álagning kvaða sé réttlætanleg, skal stofnunin auðkenna fyrirtæki sem hvert um sig eða í sameiningu hafa umtalsverðan markaðsstyrk, sbr. 45. gr., og leggja á, viðhalda eða breyta viðeigandi kvöðum í samræmi við 46. gr., ef stofnunin telur að án kvaða hafi útkoman fyrir endanotendur ekki í för með sér skilvirka samkeppni. Þá er lögð til sú breyting á 7. mgr., sem verður 8. mgr., að fyrirhugaðar aðgerðir vegna markaðsgreiningar sem Fjarskiptastofa framkvæmir skuli tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA innan nánar tilgreindra tímamarka.

Eftirlit með gjaldskrá (52. gr.).
    Lagt er til að tiltekið verði í 1. mgr. að skortur á virkri samkeppni hafi verið endanotendum til tjóns. Þá verði í stað þess að vísa til of hárra gjalda vísað til óhóflegra gjalda. Báðar breytingar tengjast þeirri stöðu þegar skortur á virkri samkeppni getur haft í för með sér að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk geti viðhaldið óhóflega háum gjöldum eða beitt verðþrýstingi, endanotendum til tjóns.

Ný afkastamikil háhraðanet (55. gr.).
    Lögð er til stutt innskotssetning í 3. mgr. þar sem vísað er á milli málsgreina í samræmi við ábendingar og að auki eru lagðar til lagfæringar á orðalagi.

Eftirlit með smásöluþjónustu (61. gr.).
    Lagt er til að vísað verði sérstaklega til þess að undirverðlagning sem vísað er til í 2. mgr. sé skaðleg auk þess sem tiltekið verði í 3. mgr. að heimild til að kveða á um hámark á smásöluverði, ráðstafanir til að stjórna einstökum gjaldskrám eða ráðstafanir til að beina gjaldskrám í átt að kostnaðarverði eða verði á sambærilegum mörkuðum verði beitt í þeim tilgangi að vernda hagsmuni endanotenda og á sama tíma að efla virka samkeppni.

Réttur til alþjónustu á viðráðanlegu verði (62. gr.).
    Lagt er til að bætt verði við 2. málsl. í 6. mgr. ákvæði um að ráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um þá þjónustu og aðgerðir sem neytendum skuli standa til boða í gegnum viðkomandi tengingu. Tiltekið verði að á meðal þess sem ráðherra getur kveðið á um í reglugerðinni séu nánari viðmið um virkni, gæði og tæknilega eiginleika sem netaðgangsþjónusta skal að lágmarki búa yfir.

Gildistími, uppsögn og breytingar á samningum (72. gr.).
    Lagt er til að hámarksbinditíma verði haldið óbreyttum í sex mánuði í stað þeirra 12 mánaða sem kveðið er á um í frumvarpinu. Er framangreint lagt til í ljósi umsagna sem borist hafa nefndinni.

Reikningar o.fl. (74. gr.).
    Lagt er til að við 1. mgr. bætist nýr málsliður þar sem ráðherra verði veitt heimild til að kveða á um í reglugerð skv. 4. mgr., þrátt fyrir 1. málsl., undanþágur frá skyldu fjarskiptafyrirtækja til sundurliðunar reikninga í tilvikum þar sem gjaldtaka fyrir símaþjónustu er óháð notkun þjónustunnar.

Númeraflutningur og flutningur netaðgangsþjónustu milli fjarskiptafyrirtækja (76. gr.).
    Lagt er til að 5. og 6. mgr. verði sameinaðar í eina málsgrein. Þar komi fram að það sé Fjarskiptastofa sem setur nánari reglur um númera- og þjónustuflutning, þar á meðal um tímasetningar í því sambandi og bætur til endanotenda í tilvikum þar sem mistök verða í flutningsferli síma- eða netaðgangsþjónustu, misbeiting eða tafir verða í flutningsferli og vegna þjónustu sem ekki er veitt með umsömdum hætti. Þá sker Fjarskiptastofa úr ágreiningi um framkvæmd númera- og þjónustuflutnings.

Úttektir og bindandi fyrirmæli (79. gr.).
    Lögð er til viðbót við 3. mgr. á þann veg að í þeim tilvikum þegar Fjarskiptastofa getur gefið fyrirmæli vegna vanrækslu þá sé um að ræða alvarlega veikleika, þannig að vanræki fjarskiptafyrirtæki að fara að fyrirmælum Fjarskiptastofu á alvarlegum veikleikum um úrbætur getur stofnunin látið vinna verkið á kostnað hlutaðeigandi fjarskiptafyrirtækis.

Vernd fjarskiptavirkja (86. gr.).
    Tvíþættar breytingar eru lagðar til við 4. mgr., annars vegar verði vísun til botnveiða breytt í veiðar í 5. málsl. og hins vegar er lögð til nákvæm tilvísun til gáleysisstigs í 7. málsl. Í 7. málsl. er vísað til ásetnings eða gáleysis vegna tjóns á fjarskiptastreng í sjó. Breytingin felur í sér að almenn tilvísun til gáleysis verði færð í stórkostlegt gáleysi, þ.e. hæsta stig gáleysis, enda ákvæðinu ekki ætlað að ná til annarra stiga gáleysis.

Öryggishagsmunir vegna uppbyggingar farneta (87. gr.).
    Lögð er til viðbót við 2. mgr. þess efnis að þegar leyfi sem Fjarskiptastofa veitir skv. 27. gr. eru bundin skilyrðum sem stuðla að fjölbreytni í gerð búnaðar sé horft á búnað allra fjarskiptafyrirtækja í heild sinni á landsvísu. Breytingunni er ætlað að skerpa orðalag ákvæðisins.

Áreiðanleiki neyðar- og öryggisfjarskipta (95. gr.).
    Lög er til viðbót við stafliði 2. mgr. til þess að skerpa á lagastoð fyrir þeim reglugerðum sem ráðherra er heimilt að setja um áreiðanleika neyðar- og öryggisfjarskipta. Trygg neyðar- og öryggisfjarskipti eru forsenda þess að hægt sé að hefja og samræma aðgerðir viðbragðsaðila þegar vá ber að höndum. Í frumvarpinu eru á dreif ákvæði sem heimila ráðherra setningu reglugerða en ekki er ítarlegt ákvæði sem snýr að neyðar- og öryggisfjarskiptum. Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að heimildir ráðherra til að mæla fyrir um atriði tengd neyðar- og öryggisfjarskiptum í reglugerð séu allar á sama stað og leggur því til breytingar á ákvæðinu í þá veru.

Gildistaka (109. gr.).
    Meiri hluti nefndarinnar telur rétt að fresta almennri gildistöku frumvarpsins til 1. september nk. Með því fengju fjarskiptafyrirtæki frest til aðlögunar auk þess sem nefndin hefur fengið upplýsingar um að endurskoðun stjórnvaldsfyrirmæla verði langt á veg komin, eða jafnvel lokið, við það tímamark.
    Vegna áforma um lagningu nýs fjarskiptastrengs í sumar er lagt til að við samþykkt frumvarpsins öðlist 4. mgr. 86. gr. þegar gildi.

Breytingar á öðrum lögum (110. gr.).
    Í meðförum nefndarinnar hafa komið fram ábendingar um nauðsyn þess að leggja til breytingar á öðrum lögum til þess að tryggja samræmi og hugtakanotkun verði frumvarpið að lögum. Annars vegar þarf að uppfæra lög um íslensk landshöfuðlén, nr. 54/2021, þannig að í stað þess að vísa til Póst- og fjarskiptastofnunar í lögunum sé vísað til Fjarskiptastofu. Hins vegar þarf að gera breytingar á 15. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021, til tryggja afdráttarlausa skyldu fjarskiptafyrirtækja til að afhenda fullnægjandi og réttar upplýsingar um uppbyggingu eða uppfærslu fjarskiptaneta, ef við á.

    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 2. júní 2022.

Vilhjálmur Árnason,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Bjarni Jónsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Helga Vala Helgadóttir. Ingibjörg Isaksen.
Orri Páll Jóhannsson. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.