Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1178  —  386. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (eftirlit Fiskistofu o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Eir Hólmgeirsdóttur, Agnar Braga Bragason og Guðmund Jóhannesson frá matvælaráðuneyti, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Hafnasambandi Íslands, Örn Marteinsson frá Samtökum smærri útgerða, Örn Pálsson og Arthur Bogason frá Landssambandi smábátaeigenda, Gunnar Inga Ágústsson og Vigdísi Evu Líndal frá Persónuvernd, Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, Heiðmar Guðmundsson og Hrefnu Karlsdóttur frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Evu Ómarsdóttur frá Samkeppniseftirlitinu og Elínu Björgu Ragnarsdóttur, Ernu Jónsdóttur, Hildi Jönu Júlíusdóttur og Margréti Kristínu Helgadóttur frá Fiskistofu.
    Umsagnir bárust frá Fiskistofu, Hafnasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Persónuvernd, Ríkisendurskoðun, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtökum smærri útgerða.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að styrkja eftirlitshlutverk Fiskistofu og lagðar til breytingar á helstu lögum á sviði fiskveiðistjórnar sem varða eftirlit stofnunarinnar, þ.e. lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998, og lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992. Lagt er til að Fiskistofu verði í ákveðnum tilvikum heimilt að leggja dagsektir á hvern þann sem vanrækir að veita stofnuninni þær upplýsingar sem viðkomandi ber að veita lögum samkvæmt sem og að innheimta uppsafnaðar dagsektir. Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um heimild Fiskistofu til að birta opinberlega ákvarðanir um sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa. Enn fremur eru lagðar til breytingar sem miða að því að styrkja heimildir Fiskistofu til rafræns eftirlits.

Umfjöllun nefndarinnar.
Eftirlitshlutverk Fiskistofu.
    Markmið frumvarpsins er að efla eftirlitshlutverk Fiskistofu sem fer með eftirlit með fiskveiðum. Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um að það væri þarft og nauðsynlegt og að stjórnvöld hafi á síðustu árum haft til skoðunar hvernig styrkja megi eftirlit Fiskistofu sem er bæði umfangsmikið og flókið.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis árið 2019 kemur fram að grípa þurfi til markvissra ráðstafana til að tryggja skilvirkt og árangursríkt eftirlit sem er í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis um að nytjastofnar sjávar séu nýttir með sjálfbærum hætti og að eftirlit Fiskistofu sé mikilvægur liður í stefnu stjórnvalda um sjálfbærar og ábyrgar veiðar og að markmiðum aflamarkskerfisins sé náð. Eftirlitið þurfi að vera skilvirkt og gagnsætt og hafa tilætluð fælingar- og varnaðaráhrif enda geta verið sterkir fjárhagslegir hvatar til að fara á svig við lögbundin ákvæði um vigtun, brottkast og samþjöppun aflaheimilda. Þá segir í skýrslunni að grunur eða vísbendingar um slíka háttsemi hafi reglulega komið fram.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að í kjölfar birtingar skýrslu Ríkisendurskoðunar hafi þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipað verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Um leið var settur á fót samráðshópur með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, stofnana og helstu hagaðila í sjávarútvegi. Í skýrslu verkefnastjórnarinnar frá júní 2020 eru birtar helstu ábendingar verkefnastjórnarinnar um m.a. öflugra sjóeftirlit, bætt eftirlit með vigtun sjávarafla og tillögur að nýrri tækni í eftirliti. Í skýrslunni kemur fram að sjávarútvegur byggist á nýtingu sameiginlegrar auðlindar, þar sem takmarka þarf aðgang til að tryggja sjálfbæra nýtingu. Því lúti eftirlit í sjávarútvegi öðrum lögmálum en eftirlit með öðrum atvinnugreinum. Bent er á að ein helsta takmörkun hefðbundins fiskveiðieftirlits er hversu mannaflafrekt og dýrt það er og þannig er þekja eftirlitsins lítil, þ.e. nær til lítils hluta veiðiferða eða landana. Þá segir að eigi eftirlit með íslenskum sjávarútvegi að halda í við tækniþróun þurfi Fiskistofa að hefja tilraunir með notkun myndavélakerfa til eftirlits, hvort tveggja um borð í skipum og í höfnum. Jafnframt er bent á að huga skuli að fleiri tækninýjungum sem gætu sparað kostnað og styrkt eftirlit til lengdar, svo sem með fjareftirliti með ómönnuðum loftförum eða drónum, hvort sem er við sjó- eða landeftirlit. Þá leggur verkefnastjórnin til að Fiskistofa fái skýrar lagaheimildir til rafrænnar fjarvöktunar til eftirlits og að almennt verði hugað að notkun nýjustu tækni við eftirlit, svo sem ómannaðra loftfara eða annars konar tækni.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að með frumvarpinu sé m.a. verið að bregðast við ábendingum verkefnastjórnarinnar um að nýting dróna við eftirlit Fiskistofu kalli á sérstaka lagaheimild. Einnig segir að það sé talið nauðsynlegt að styrkja heimildir Fiskistofu til rafrænnar aflaskráningar og myndavélaeftirlits.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að markmið laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eru m.a. að stuðla að sjálfbærri og hagkvæmri nýtingu fiskistofna á Íslandsmiðum jafnframt því að stuðla að verndun þeirra, tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu og hámarksafrakstur til langs tíma fyrir íslensku þjóðina. Með það í huga telur meiri hlutinn nauðsynlegt að styrkja eftirlit Fiskistofu með fiskveiðum. Sjávarútvegurinn er ein veigamesta atvinnugrein þjóðarinnar og það er almannahagur að sporna gegn brottkasti og framhjálöndun og tryggja rétta upplýsingagjöf um veiði og afla. Þá eru mikil verðmæti fólgin í sjálfbærnivottunum á íslenskum afurðum sem tryggja hærra verð á íslensku sjávarfangi. Þær eru til staðar m.a. vegna trausts á eftirliti með fiskveiðum, þ.m.t. brottkasti. Ríkir almannahagsmunir eru af því að viðhalda þeirri góðu stöðu en hún færir íslensku samfélagi mikil verðmæti í formi hærri afurðaverðs. Bætt eftirlit treystir þá stöðu. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að traust þurfi að ríkja gagnvart eftirliti Fiskistofu og lög um fiskveiðistjórn þurfa að vera skýr til að hafa tilætluð varnaðaráhrif. Því er mikilvægt að lagaheimildir stofnunarinnar til rafræns eftirlits séu skýrar, sérstaklega þegar ný tækni er nýtt til eftirlitsins.

Mat á nauðsyn vinnslu persónuupplýsinga.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um álitaefni tengt persónuvernd og 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs en lagt er til í frumvarpinu að Fiskistofu verði veitt heimild til aðgangs að efni sem safnast í rafrænum vöktunarkerfum í löndunarhöfnum, sbr. 1. gr. frumvarpsins, auk þess sem stofnuninni verði veitt heimild til að notast við fjarstýrð loftför í þágu eftirlits með fiskveiðum, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Í umsögn Persónuverndar er gagnrýnt að í frumvarpinu sé ekki fjallað um mat á nauðsyn vinnslu persónuupplýsinga með hliðsjón af kröfum 71. gr. stjórnarskrárinnar og hvort nauðsyn eftirlitsins réttlæti þá skerðingu á friðhelgi einkalífs einstaklinga sem eftirlitið mundi fela í sér.
    Meiri hlutinn áréttar að í ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs felst ekki að allar takmarkanir á þeim réttindum séu óheimilar, heldur er í 3. mgr. þeirrar greinar sett fram skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að takmarkanir séu heimilar. Þar kemur fram að takmarkanir á friðhelgi einkalífs þurfi ávallt að byggjast annars vegar á skýrri og sérstakri lagaheimild og hins vegar þurfi brýn nauðsyn að vera fyrir hendi. Meiri hlutinn telur að unnt hefði verið að skýra framangreind atriði betur í greinargerð frumvarpsins. Ljóst er að með frumvarpinu er verið að veita eftirliti og þar með söfnun tiltekinna persónuupplýsinga lagastoð. Meiri hlutinn telur brýna nauðsyn vera fyrir hendi enda um að ræðan mikilvægan lið í stefnu stjórnvalda um sjálfbærar og ábyrgar veiðar og að markmiðum aflamarkskerfisins sé náð. Unnt verði að fylgjast með og koma í veg fyrir að farið verði á svig við reglur um vigtun, brottkast og samþjöppun aflaheimilda.
    Þá bendir Persónuvernd á í umsögn sinni að ekki sé æskilegt að stofnun eins og Fiskistofa, sem ekki fer með lögregluvald, sé veitt heimild til vöktunar með leynd. Meiri hlutinn telur ekki óeðlilegt að stjórnvald eins og Fiskistofa, sem er í eðli sínu eftirlitsstjórnvald, fari með slíkar heimildir. Eftir sem áður þarf stjórnvaldið að taka tillit til meðalhófs við beitingu allra valdheimilda sinna.

Mat á áhrifum á persónuvernd vegna vinnslu persónuupplýsinga
    Í umsögn Persónuverndar um málið er bent á að ef líklegt er að tiltekin tegund vinnslu persónuupplýsinga geti haft í för með sér mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklinga, einkum þar sem beitt er nýrri tækni, og með hliðsjón af eðli, umfangi, samhengi og tilgangi vinnslunnar, skuli ábyrgðaraðili láta fara fram mat á áhrifum fyrirhugaðra vinnsluaðgerða á vernd persónuupplýsinga áður en vinnslan hefst skv. 35. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Persónuvernd bendir einnig á að skv. 1. tölul. 3. gr. auglýsingar nr. 828/2019, um skrá yfir vinnsluaðgerðir sem krefjast ávallt mats á áhrifum á persónuvernd, skuli slíkt mat ávallt fara fram þegar um er að ræða gagnaöflun frá þriðja aðila í þágu kerfisbundins eftirlits.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um að æskilegt hefði verið að mat á áhrifum á persónuvernd vegna vinnslu persónuupplýsinga væri framkvæmt við undirbúning lagasetningar og að fjallað væri um forsendur matsins og niðurstöður þess í greinargerð með frumvarpinu. Við umfjöllun málsins var nefndin upplýst um að Fiskistofa hefur unnið mat á áhrifum á persónuvernd vegna vinnslu persónuupplýsinga og fékk nefndin afhent matið frá matvælaráðuneytinu ásamt verklýsingu á notkun fjareftirlitsbúnaðar hjá Fiskistofu og hafa þessi gögn verið birt á vef Alþingis ásamt öðrum umsögnum um málið.
    Mat Fiskistofu á áhrifum á persónuvernd er frá júní 2020 og fjallar um eftirlit með notkun dróna. Í matinu er fjallað um kerfisbundna lýsingu á fyrirhuguðum vinnsluaðgerðum, hvort vinnsluaðgerðirnar séu nauðsynlegar og hóflegar miðað við tilgang, áhættu og ógnir fyrir réttindi og frelsi skráðra einstaklinga, hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar til að draga úr áhættu og samráð við hlutaðeigandi aðila. Niðurstaða matsins er að áhætta vinnslunnar sé lítil að teknu tilliti til þeirrar undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið og verður unnin áður en vinnsla hefst. Fiskistofa muni móta verkferil við framangreinda vinnslu og sinna fræðslu til hinna skráðu sem og til starfsmanna Fiskistofu sem að vinnslunni koma. Fram kemur að tækifæri hinna skráðu til að fá upplýsingar og koma að athugasemdum sé tryggt með góðu aðgengi að persónuverndarfulltrúa og þjálfuðum eftirlitsmönnum sem vita hvernig þeir eiga að svara fyrirspurnum varðandi vinnsluna á vettvangi.
    Í verklýsingu á notkun fjareftirlitsbúnaðar hjá Fiskistofu er að finna reglur um notkun fjareftirlitsbúnaðar í landi og reglur um notkun fjareftirlitsbúnaðar við eftirlit með veiðum. Þá eru raktar leiðbeiningar um gerð brotaskýrslu og almennar reglur um eftirlit.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að framangreind gögn hafi komið fram og að hægt sé að líta til þeirra ásamt öðrum lögskýringargögnum málsins til vitnis um þann undirbúning sem hefur farið fram hjá Fiskistofu um notkun fjareftirlitsbúnaðar við rafrænt eftirlit. Meiri hlutinn bendir hins vegar á að umrætt mat á áhrifum á persónuvernd virðist ekki unnið í tengslum við framlagningu þessa frumvarps. Þannig er matið takmarkað við notkun farsíma, sjónauka og dróna og er ekki unnið í samhengi við þær heimildir sem Fiskistofu eru veittar samkvæmt frumvarpinu til rafræns eftirlits. Því beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins og Fiskistofu að unnið verði mat á áhrifum á persónuvernd vegna þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem lögð er til með frumvarpinu verði það samþykkt.

Rafrænt vöktunarkerfi í löndunarhöfnum.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um 1. gr. frumvarpsins sem felur í sér breytingu á 1. mgr. 8. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Með ákvæðinu er lagt til að eftirlitsmönnum Fiskistofu verði heimill aðgangur að rafrænum vöktunarkerfum í löndunarhöfnum í þeim tilgangi að hafa eftirlit með löndun afla.
    Við umfjöllun málsins komu fram sjónarmið um að skýra þyrfti ákvæðið frekar og fjalla um í hvaða tilvikum Fiskistofa muni nýta þessa heimild. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að ákvæðið ætti ekki að fela í sér heimild til Fiskistofu til að viðhafa beint streymi í gegnum vöktunarkerfi hafna. Meiri hlutinn bendir á að um er að ræða heimild til aðgangs að rafrænum vöktunarkerfum hafna séu þau til staðar. Frumvarpið felur ekki í sér skyldu löndunarhafna til að setja upp rafrænt vöktunarkerfi. Þannig er ekki stefnt að því að vöktun Fiskistofu verði án takmarkana. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að við eftirlitið þurfi að huga að lögum um persónuvernd og gæta þess að eftirlit sé í samræmi við tilgang heimildarinnar, þ.e. að hafa eftirlit með löndun afla, að teknu tilliti til meðalhófs. Meiri hlutinn ítrekar þessi sjónarmið og leggur áherslu á að um er að ræða heimild sem tekur til eftirlits með löndun afla.

Breytingartillögur.
Rafræn skráning afla (2. gr.).
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á 2. gr. frumvarpsins sem felur í sér breytingu á 4. mgr. 9. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar og varðar afladagbækur. Um afladagbækur eru nú ákvæði bæði í 1. mgr. 17. gr. laga um stjórn fiskveiða og í 4. mgr. 9. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Með frumvarpinu er lagt til að fella brott 1. mgr. 17. gr. laga um stjórn fiskveiða þannig að lagastoð fyrir kröfu um afladagbækur verði á einum stað. Í gildandi ákvæði 4. mgr. 9. gr. laga um umgengi um nytjastofna sjávar segir að skipstjórar fiskiskipa skulu halda afladagbók en í 1. mgr. 17. gr. laga um stjórn fiskveiða segir að skipstjórnarmenn veiðiskipa, sem hljóta veiðileyfi í atvinnuskyni, skuli halda sérstakar afladagbækur. Því þarf að bæta við orðunum „eða sérveiðileyfi“ þannig að tekinn sé af allur vafi um að skipstjórar skipa sem veiða samkvæmt sérveiðileyfi haldi einnig afladagbók og til að gæta samræmis við gildandi reglu í 4. mgr. 9. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar.
    Í 2. gr. frumvarpsins um breytingu á 4. mgr. 9. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar er gert ráð fyrir að skipstjórar sendi afladagbækur rafrænt til Fiskistofu áður en veiðiferð lýkur. Meiri hlutinn leggur til að í stað orðsins „rafrænt“ komi orðið „stafrænt“ til að mæta örri þróun í tæknilausnum við skráningu aflaupplýsinga.

Dagsektir (3., 4. og 5. gr.).
    Í 3., 4. og 5. gr. frumvarpsins eru ákvæði sem heimila Fiskistofu að leggja dagsektir á þá aðila sem vanrækja að afhenda stjórnvaldinu nánar tilgreindar upplýsingar. Ákvæðin eru áþekk, þ.e. mæla öll fyrir um að dagsektir skulu nema 30 þús. kr. fyrir hvern byrjaðan dag, óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðili veiti um síðir umbeðnar upplýsingar og dagsektir geta hæst orðið 1,5 millj. kr.
    Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarpið var á það bent að þeir aðilar sem Fiskistofa getur lagt dagsektir á séu mjög fjárhagslega ólíkir og beinir þeim tilmælum til nefndarinnar að hún endurskoði ákvæði um sektarfjárhæðir þar sem þær séu ekki í neinu samhengi við mismunandi efnahag og fjárhagslegan styrkleika viðkomandi eftirlitsskyldra aðila. Með því sé unnt að tryggja að viðkomandi sektir hafi viðunandi fullnustu- og varnaðaráhrif. Þá bendir Samkeppniseftirlitið á í umsögn sinni að eðlilegt sé að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila við álagningu dagsekta. Þá vísar stofnunin til þess að óalgengt sé að eftirlitsstjórnvald hafi svo lága dagsektarfjárhæð í lögum eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er vísað til þess að dagsektir séu í eðli sínu þvingunarúrræði stjórnvalda til að knýja fram breytta hegðun. Með því að fella niður óinnheimtar dagsektir skapast hvati til breyttrar hegðunar. Slíkt sé þó ekki fyrir hendi í frumvarpinu þar sem tiltekið sé að þær falli ekki niður þótt aðilar veiti upplýsingar síðar.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og telur nauðsynlegt að Fiskistofa búi yfir fullnægjandi úrræðum til þess að knýja á um t.d. afhendingu gagna og upplýsinga. Úrræðin þurfa að vera afgerandi og skýr svo að eftirlitið skili árangri og markmið þeirra laga sem Fiskistofa starfar eftir náist. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á framangreindum ákvæðum 3., 4. og 5. gr. frumvarpsins sem lúta að dagsektum. Í fyrsta lagi að fjárhæðir sekta geti verið á bilinu 10 þús. kr. til 1 millj. kr. Í öðru lagi að tiltekið verði að heimilt verði að ákveða dagsektir sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri eftirlitsskylds aðila. Þá verði við ákvörðun um fjárhæð dagsekta heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Í þriðja lagi verði heimilt er að fella óinnheimtar dagsektir niður veiti aðilar síðar upplýsingar. Meiri hlutinn áréttar að hér er um að ræða heimildarákvæði en ekki skyldu sem þarf ávallt að beita á grundvelli réttarreglna stjórnsýsluréttar um jafnræði og málefnaleg sjónarmið. Þá verði í fjórða lagi fellt úr frumvarpinu hámark dagsekta enda veitir hámarkið eins og það er í frumvarpinu vart varnaðaráhrif. Í fimmta lagi verði ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.

Notkun fjarstýrðra loftfara við eftirlitsstörf (7. gr.).
    Með 7. gr. frumvarpsins er lagt til að veita eftirlitsmönnum Fiskistofu heimild til að nota fjarstýrð loftför í eftirlitsstörfum sínum sem eru búin myndavélum til upptöku eða annan fjarstýrðan búnað sem getur safnað upplýsingum. Auk þess er kveðið á um heimild Fiskistofu til að vinna úr upplýsingum sem þannig er aflað. Lagt er til að rafræn vöktun skuli einungis fara fram þar sem nauðsynlegt er talið vegna almannahagsmuna til þess að eftirlitsmenn Fiskistofu geti uppfyllt eftirlitsskyldu sína auk þess kveðið er á um að hve lengi Fiskistofu er heimilt að varðveita persónuupplýsingar sem safnast við rafræna vöktun.
    Í umsögnum við málið kom fram gagnrýni á þetta ákvæði frumvarpsins þess efnis að gengið sé of nærri friðhelgi einkalífs einstaklinga með leynilegri vöktun á bátum og skipum. Rætt var um hvort mögulegt væri að kveða á um tilkynningarskyldu Fiskistofu um eftirlit með fjarstýrðum loftförum. Bent var á að slík skylda getur dregið úr fælingarmætti eftirlitsins og markmiðum þess. Meiri hlutinn bendir hins vegar á að verið sé að veita Fiskistofu heimild með lögum til að sinna eftirlitsskyldum sínum með nýrri tækni og um sé að ræða veigamikla þróun á framkvæmd eftirlits Fiskistofu. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að stíga varlega til jarðar þegar um er að ræða nýtingu nýrrar tækni við eftirlit með fiskveiðum og telur sanngjarnt að Fiskistofa gefi út almenna tilkynningu áður en hún hefur eftirlit, t.d. á vef Fiskistofu, en ekki er gert ráð fyrir að tilkynningarnar verði svæðisbundnar eða afmarkaðar með tilteknum hætti, svo sem tímamörkum. Leggur meiri hlutinn því til breytingartillögu þess efnis við 7. gr. frumvarpsins.

Vinnsla persónuupplýsinga (8. gr.).
    Með 8. gr. frumvarpsins er lagt til að Fiskistofu verði heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga sem verða til við rafrænt eftirlit og um eignarhald útgerðarfélaga og annarra upplýsinga sem hinn skráði leggur í té, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum á sviði fiskveiðistjórnar að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Í umsögn Persónuverndar um málið er bent á að líkur eru á því að Fiskistofu muni berast upplýsingar frá fleiri aðilum en hinum skráða, t.d. útgerðarfélögum. Persónuvernd leggur til að ákvæðinu verði breytt á þann hátt að Fiskistofu verði heimil vinnsla þeirra persónuupplýsinga sem stofnuninni berast í tengslum við eftirlit sitt og að einungis verði heimil vinnsla þeirra persónuupplýsinga sem nauðsynlegar eru í þágu eftirlitsins. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingu á ákvæðinu til að skýra heimildir Fiskistofu til vinnslu persónuupplýsinga.

Tilraunaverkefni um rafrænt eftirlit með myndavélum um borð í fiskiskipum (11. gr).
    Með 11. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um Fiskistofu bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um heimild Fiskistofu til að fara í samstarf við útgerðaraðila um rafræna vöktun með myndavélum um borð í fiskveiðiskipum árin 2022 og 2023. Við umfjöllun um málið í nefndinni var bent á að nauðsynlegt væri að heimildin næði til lengri tíma þar sem talsvert er liðið á árið 2022. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og leggur til að samstarfið verið einnig heimilt árið 2024.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Haraldur Benediktsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þórunn Sveinbjarnardóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 3. júní 2022.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Gísli Rafn Ólafsson. Hanna Katrín Friðriksson. Hildur Sverrisdóttir.
Þórarinn Ingi Pétursson.