Ferill 663. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1185  —  663. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Ernu Bjarnadóttur um tryggingavernd og starfsemi Bjargráðasjóðs.


     1.      Hefur ráðherra látið gera úttekt á tryggingavernd sem Bjargráðasjóður veitir samkvæmt lögum um sjóðinn nr. 49/2009? Ef svo er, hvað hefur hún leitt í ljós?
    Bjargráðasjóður veitir ekki tryggingavernd eins og hún er skilgreind í lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004. Til hans eru ekki greidd iðgjöld sem tryggja greiðendum afmarkaða vernd í skilningi laganna. Meginhlutverk sjóðsins er skilgreint með eftirfarandi hætti í 8. gr. laga nr. 49/2009: „Hlutverk Bjargráðasjóðs er að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar beint tjón af völdum náttúruhamfara.“ Aðstoð Bjargráðasjóðs er eingöngu fólgin í veitingu styrkja samkvæmt nánari ákvæðum laganna og ákvörðun stjórnar hans.

     2.      Telur ráðherra þá tryggingavernd sem sjóðurinn veitir nægilega?
    Vísað er til svara við 1. og 4. tölul.

     3.      Felur það í sér mismunun gagnvart þeim rekstraraðilum sem falla undir tryggingavernd laganna þegar margir verða samtímis fyrir tjóni, eins og t.d. kali í túnum, og gripið er til sérstakra fjárveitinga í sumum tilvikum, en í öðrum verða takmarkaðar fjárveitingar að skiptast með ógagnsæjum hætti milli tjónþola með þeim afleiðingum að þeir bera jafnvel minni bætur úr býtum þó að um sambærilegt tjón sé að ræða?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fela lög um Bjargráðasjóð, nr. 49/2009, ekki í sér tryggingavernd samkvæmt lögum nr. 30/2004, heldur styrkveitingar sem hljóta alltaf að ráðast af þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.

     4.      Telur ráðherra að þessi staða kalli á einhver viðbrögð og þá hver?
    Í aðgerðaáætlun þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til eflingar á landbúnaði sem kynnt var í febrúar 2021, kemur fram að tryggingavernd bænda verði greind, kannað verði fyrirkomulag slíkrar tryggingaverndar í nágrannalöndum og gerðar tillögur til úrbóta. Þáverandi ráðherra skipaði starfshóp vegna þess verkefnis í ágúst 2021 sem falið var að fara yfir núverandi stöðu málsins, ásamt gildandi regluverki um áfallatryggingar í landbúnaði og gera áðurnefndar tillögur til úrbóta. Í hópinn voru skipaðir fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis (nú matvælaráðuneytis), fjármála- og efnahagsráðuneytis, Náttúruhamfaratrygginga Íslands, Bjargráðasjóðs, Samtaka fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands. Hópurinn hefur ekki lokið störfum.