Ferill 653. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1188  —  653. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um afplánun fanga undir 18 ára.


     1.      Hvaða vistunarúrræði standa til boða fyrir fanga undir 18 ára aldri hérlendis?
    Fangar sem eru undir 18 ára aldri skulu vistast á vegum barnaverndaryfirvalda skv. 6. mgr. 21. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga. Í 44. gr. laganna kemur fram að óheimilt sé að vista fanga undir 18 ára aldri í fangelsi nema fyrir liggi mat sérfræðinga um að það sé honum fyrir bestu með vísan til sérstakra aðstæðna er lúta að honum sjálfum og í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Gert er ráð fyrir því að Barna- og fjölskyldustofa komi að því að finna lausn í málum sem þessum og meðferðarúrræði stofnunarinnar geti þá gagnast, t.d. meðferðarúrræði á Stuðlum.

     2.      Hversu margir einstaklingar undir 18 ára aldri hafa verið dæmdir til óskilorðsbundinnar fangelsisvistar sl. fimm ár? Óskað er eftir sundurliðun eftir vistunarúrræðum.
    Frá 1. janúar 2017 hefur einn dómur borist Fangelsismálastofnun til fullnustu þar sem viðkomandi var 17 ára, en þeim einstaklingi var veitt heimild til að afplána refsingu með samfélagsþjónustu.

     3.      Hversu margir einstaklingar undir 18 ára aldri sem voru dæmdir til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar þurftu að afplána í hefðbundnum fangelsum? Hver var rökstuðningurinn fyrir þeim ákvörðunum?
    Enginn einstaklingur undir 18 ára hefur afplánað refsingu í hefðbundnu fangelsi síðastliðin fimm ár.