Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1196, 152. löggjafarþing 433. mál: heilbrigðisþjónusta (stjórn Landspítala).
Lög nr. 44 22. júní 2022.

Lög um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (stjórn Landspítala).


1. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Stjórn Landspítala.
     Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Landspítala, og tvo til vara, til tveggja ára í senn. Skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Jafnframt skal ráðherra skipa tvo áheyrnarfulltrúa úr hópi starfsmanna Landspítalans með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar. Í stjórn skulu sitja einstaklingar sem hafa þekkingu á rekstri og áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og menntun heilbrigðisstétta og á opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar. Einfaldur meiri hluti atkvæða þeirra fimm stjórnarmanna sem hafa atkvæðisrétt ræður úrslitum á stjórnarfundum en atkvæði formanns skal ráða úrslitum ef atkvæði eru jöfn.
     Stjórn Landspítala skal í samráði við forstjóra marka stofnuninni langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum. Hún skal yfirfara árlega starfsáætlun og ársáætlun skv. 32. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, leggja sjálfstætt mat á þær og þau markmið og mælikvarða sem þar eru sett fram og gera ráðherra grein fyrir mati sínu innan tveggja vikna frá því að ársáætlun hefur verið lögð fyrir ráðherra til samþykktar.
     Forstjóri skal bera ráðstafanir sem miðað við daglegan rekstur eru mikils háttar eða óvenjulegar í starfsemi stofnunarinnar undir stjórn til samþykktar. Stjórn ber ábyrgð gagnvart ráðherra á þeim ákvörðunum sem hún samþykkir. Forstjóri ber eftir sem áður ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt, sbr. 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Jafnframt skal stjórn Landspítala vera forstjóra til aðstoðar við ákvarðanir um önnur veigamikil atriði er varða rekstur stofnunarinnar og starfsemi hennar.
     Formaður stjórnar Landspítala skal reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi stjórnar og stöðu og árangri stofnunarinnar. Þá skal formaður gera ráðherra grein fyrir annars vegar þeim meiri háttar eða óvenjulegu ráðstöfunum sem stjórn hefur samþykkt og hins vegar veigamiklum frávikum í rekstri, hvort heldur er rekstrarlegum frávikum eða faglegum.
     Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Forstjóri situr stjórnarfundi nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Stjórn getur jafnframt boðað aðra þá sem hún telur hafa þýðingu fyrir efni funda á fundi stjórnarinnar. Ráðherra setur stjórninni erindisbréf og ákveður þóknun til stjórnarmanna sem skal greidd af rekstrarfé stofnunarinnar.
     Ráðherra er skylt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um hlutverk og ábyrgð stjórnar. Þá skal stjórn setja sér starfsreglur með nánari ákvæðum um starfssvið stjórnar.

2. gr.

     Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skipar forstjóra Landspítala til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar.

3. gr.

     Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Við heilbrigðisstofnun þar sem starfandi er stjórn skal forstjóri bera skipurit undir hana til samþykktar áður en það er kynnt ráðherra.

4. gr.

     2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
     Forstjóra og stjórn heilbrigðisstofnana, þar sem við á, ber að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag heilbrigðisstofnunar.

5. gr.

     Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Notendaráð.
     Ráðherra skipar sjö fulltrúa í notendaráð heilbrigðisþjónustu samkvæmt tilnefningu frá starfandi sjúklingasamtökum. Forstjórar og stjórn heilbrigðisstofnana, þar sem við á, skulu hafa samráð við notendaráð til að tryggja að sjónarmið notenda séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku um atriði er varða hagsmuni sjúklinga innan heilbrigðisstofnana.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2022.