Ferill 593. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1204  —  593. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um sorgarleyfi.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur og Klöru Baldursdóttur Briem frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Höllu Þorvaldsdóttur, Ninu Slowinska og Hörpu Ásdísi Sigfúsdóttur frá Krabbameinsfélaginu, Karólínu Helgu Símonardóttur og Ínu Ólöfu Sigurðardóttur frá Sorgarmiðstöðinni, Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Unni Helgu Óttarsdóttur og Önnu Láru Steindal frá Landssamtökunum Þroskahjálp.
    Þá bárust umsagnir frá Barnaheillum, BSRB, Krabbameinsfélaginu, Landssamtökunum Þroskahjálp, Samtökum atvinnulífsins og Sorgarmiðstöð, félagasamtökum.

Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að foreldrum sem missa barn verði tryggt svonefnt sorgarleyfi, þ.e. leyfi frá launuðum störfum í allt að sex mánuði í kjölfar barnsmissis, sem og við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Lögfestingu frumvarpsins er þannig ætlað að tryggja foreldrum svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum styðja við eftirlifandi systkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Með þessu er leitast við að viðurkenna áhrif sorgar vegna barnsmissis á fjölskyldur í heild og þannig styrkja stöðu barna og barnafjölskyldna sem verða fyrir áföllum. Þá sé um leið stuðlað að því að sem flestir geti átt farsæla endurkomu á vinnumarkað og verið þar virkir þátttakendur.

Umfjöllun nefndarinnar.

    Umsagnaraðilar voru almennt afar jákvæðir um efni frumvarpsins. Barnaheill hvöttu þó til þess að við frumvarpið yrði bætt sérstakri umfjöllun um áhrif þess á börn í samræmi við 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, um að allar ákvarðanir sem hafi áhrif á börn skuli taka með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Þá bentu Krabbameinsfélagið og Sorgarmiðstöð á það í umsögnum sínum að mikilvægt væri að einstaklingar sem missi maka frá ungu barni eða börnum njóti sömu réttinda til sorgarleyfis og þeir sem missi barn. Þá hvetja samtökin til þess að hafinn verði undirbúningur að lagasetningu til að tryggja einstaklingum sem missi maka frá ungum börnum sambærilega réttarbót en að meðaltali missa um 100 börn hér á landi a.m.k. annað foreldri sitt úr illkynja sjúkdómum á ári hverju. Af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að verði frumvarpið að lögum verður kannað hvort forsendur séu fyrir því að leggja fyrir Alþingi breytingalagafrumvarp með það að markmiði að tryggja fleiri fjölskyldum og/eða einstaklingum sorgarleyfi.
    Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og hvetur ráðherra til að hefja vinnu við breytingar á lögum um sorgarleyfi með það að markmiði að færa einstaklingum sem missa maka frá börnum sambærilega réttarbót.

Breytingartillögur.
    Nefndin gerir nokkrar breytingartillögur sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við14. gr.
                  a.      Í stað orðanna „greiðslur á grundvelli 7. mgr. 8. gr.“ í f-lið 2. mgr. komi: tekjutengdar greiðslur á grundvelli.
                  b.      Á undan orðinu „greiðslum“ í 5. mgr. komi: tekjutengdum.
                  c.      Orðin „7. mgr. 8. gr.“ í 5. mgr. falli brott.
     2.      Við 21. gr.
                  a.      Í stað orðanna „sorgarstyrk sem námsmanni“ í 4. mgr. komi: sem er í námi sorgarstyrk.
                  b.      Orðin „7. mgr. 8. gr.“ í 4. mgr. og 6. mgr. falli brott.
     3.      6. mgr. 32. gr. orðist svo:
                      Foreldri sem nýtur tekjutengdra greiðslna á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna getur ekki á sama tímabili nýtt rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi.
     4.      37. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023 og eiga við um foreldra sem verða fyrir barnsmissi 1. janúar 2023 eða síðar. Sama á við um andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu.
     5.      Í stað orðanna „Á eftir tilvísuninni „b-lið 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur“ í 2. tölul. f-liðar 1. tölul. 38. gr. komi: Við 3. mgr. bætist.
     6.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Þrátt fyrir a c-lið 2. tölul. 38. gr. skal foreldri sem þegar nýtur greiðslna á grundvelli 7. mgr. 8. gr., 6. mgr. 14. gr. eða 7. mgr. 19. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, við gildistöku laga þessara eiga rétt á að fullnýta rétt sinn samkvæmt því ákvæði sem um ræðir hverju sinni.

Alþingi, 8. júní 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðný Birna Guðmundsdóttir. Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Halldóra Mogensen. Orri Páll Jóhannsson. Óli Björn Kárason.