Ferill 652. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1205  —  652. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um forvarnir og viðbrögð við gróðureldum.


    Óskað var upplýsinga frá Landhelgisgæslu Íslands við gerð þeirra svara eru lutu að stofnuninni og búnaði sem hún hefur yfir að ráða. Hér er svarað þeim liðum fyrirspurnarinnar sem varða ábyrgðarsvið dómsmálaráðherra samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Að öðru leyti verður að beina 5., 7. og 8. tölul. fyrirspurnarinnar til viðeigandi ráðherra sem í þessu tilviki er líklega innviðaráðherra og/eða umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, en málefni brunavarna og meðferð elds og varnir gegn gróðureldum falla undir ábyrgðarsvið þeirra.

     1.      Hversu margar slökkviskjólur voru keyptar fyrir Landhelgisgæslu Íslands, sbr. yfirlýsingar ráðherra 14. maí 2021 eftir að eina slökkviskjóla landhelgisgæslunnar eyðilagðist í gróðureldum?
    Ein slökkviskjóla var keypt í kjölfar yfirlýsinga 14. maí 2021. Í kjölfarið var sett í gang vinna viðeigandi aðila innan kerfis sem bera ábyrgð á brunavörnum og vörnum gegn gróðureldum til að greina þörfina á slíkum búnaði svo að fullnægjandi brunavarnir væru tryggðar. Samkvæmt núgildandi forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta ber innviðaráðuneytið ábyrgð á brunavörnum og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið ber ábyrgð á meðferð elds og vörnum gegn gróðureldum.

     2.      Hvert er ástand þeirra slökkviskjóla sem landhelgisgæslan hefur yfir að ráða?
    Í vor kom upp bilun í slökkviskjólunni sem krafðist þess að panta þurfti varahluti í hana. Þeir eru nú komnir, gert hefur verið við slökkviskjóluna og er hún í góðu ástandi.

     3.      Hefur aðgengi landhelgisgæslunnar að þyrlueldsneyti verið tryggt í öllum landshlutum, eins og lagt var til í skýrslu átakshóps um uppbyggingu innviða, Aðgerðir vegna fárviðris og önnur innviðauppbygging, í framhaldi af fárviðrinu í desember 2019 (verkþáttur LAN-094)? Ef ekki, í hvaða landshlutum er aðgengi ekki tryggt?
    Aðgerð LAN-094 er enn til skoðunar og vinnslu. Því hefur ekki verið gengið frá umbótum til að mæta þeirri aðgerð.
    Aðgengi að þyrlueldsneyti er í raun tryggt í öllum landshlutum en það getur verið mislangt að sækja það. Til nánari skýringar er þyrlueldsneyti tryggt alls staðar þar sem áætlunarflug er rekið á landinu. Því til viðbótar hefur Landhelgisgæslan komið fyrir tunnum með eldsneyti á Þórshöfn og í Hrauneyjum. Þá er einnig aðgengi að eldsneyti á Rifi.

     4.      Hvenær stendur til að fjölga þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar úr sex í sjö svo að hægt sé að tryggja betra viðbragð og úthald í aðgerðum?
    Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að fjölga þyrluáhöfnum en ýmis mál tengd Landhelgisgæslunni og þyrlurekstri hennar eru til skoðunar í ráðuneytinu. Þó má nefna að ekki er langt síðan þyrluáhöfnum var fjölgað úr fimm í sex.

     5.      Hefur fjármagn verið tryggt í fjárlögum eða í fjármálaáætlun til þess annars vegar að kaupa nauðsynlegan viðbragðsbúnað vegna gróðurelda, sbr. tillögur starfshóps Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í minnisblaði til ráðherra frá byrjun mars sl., og hins vegar koma upp viðbragðsáætlunum fyrir gróðurelda á helstu stöðum sem hætta er á að slíkir eldar kvikni?
    Beina verður þessum lið fyrirspurnarinnar til viðeigandi ráðherra.

     6.      Hversu margar viðbragðs-, flótta- og rýmingaráætlanir vegna gróðurelda eru til?
    Í 15. og 16. gr. laga um almannavarnir, nr. 82/2008, er fjallað um skyldu bæði ríkis og sveitarfélaga til að gera viðbragðsáætlanir. Það er hlutverk hvers sveitarfélags að kanna áfallaþol í eigin umdæmi og almannavarnanefnda sveitarfélagsins að gera viðbragðsáætlun í samvinnu við ríkislögreglustjóra og í samræmi við hættumat í umdæminu. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu almannavarna eru tvær viðbragðsáætlanir útgefnar vegna gróðurelda, annars vegar viðbragðsáætlun vegna gróðurelda í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og hins vegar viðbragðsáætlun vegna gróðurelda í Skorradal.

     7.      Hefur verið komið upp endurmenntunarnámskeiði fyrir slökkviliðsmenn vegna gróðurelda? Ef ekki, hvenær er von á að slíkt námskeið verði tilbúið og kennsla hafin?
    Beina verður þessum lið fyrirspurnarinnar til viðeigandi ráðherra.

     8.      Hver er staða á vinnu við rafrænu gáttina Brunagátt þar sem upplýsingar um búnað slökkviliða og staðsetningu hans eiga að verða aðgengilegar auk upplýsinga um miðlægan búnað og utanaðkomandi bjargir sem nýtast til slökkvistarfs?
    Beina verður þessum lið fyrirspurnarinnar til viðeigandi ráðherra.