Ferill 683. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1206  —  683. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um framkvæmd laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.


     1.      Hversu margir einstaklingar leituðu til kærunefndar jafnréttismála vegna hugsanlegra brota á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, frá gildistöku þeirra til dagsins í dag, og hverjar voru lyktir þeirra mála?
    Lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, tóku gildi 1. september 2018 og hefur mál er varðar brot á lögunum enn sem komið er ekki borist kærunefnd jafnréttismála. Á hinn bóginn hefur verið leitað til kærunefndarinnar ellefu sinnum með mál er varða lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, þar af þrjú mál er varða kynþátt og þjóðernisuppruna.

     2.      Hvaða leiðbeiningar fá aðilar sem leita til kærunefndarinnar vegna brota á lögunum?
    Samkvæmt lögum nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, er hlutverk kærunefndar jafnréttismála að taka til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr. laganna. Á vefsvæði kærunefndar er hægt að nálgast sérstakt eyðublað sem skila má kæru á. Það er þó ekki skylt að nota eyðublaðið og mörg dæmi eru um að kærur berist með öðrum hætti, svo sem með tölvupósti til nefndarinnar. Telji kærunefndin að kæru og málatilbúnaði sé að einhverju leyti áfátt, eða að gögn vanti til að taka kæru til meðferðar, veitir starfsmaður nefndarinnar leiðbeiningar til kæranda um það sem betur má fara. Starfsmaður kærunefndar jafnréttismála leitast jafnframt við að aðstoða aðila máls að því er varðar formreglur, málsmeðferð, kærufresti og annað sem lýtur að almennum starfsháttum nefndarinnar. Í reglugerð nr. 408/2021, um kærunefnd jafnréttismála, sem aðgengileg er til að mynda á vefsvæði nefndarinnar, er einnig að finna leiðbeiningar til aðila máls. Þá er það hlutverk Jafnréttisstofu samkvæmt lögum nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, að veita ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála og geta aðilar því einnig leitað eftir leiðbeiningum þangað eftir því sem við á.

     3.      Fá aðilar sem leita til nefndarinnar vegna brota á lögunum túlk og/eða aðra aðstoð við að leggja fram kæru hjá nefndinni?
    Eins og fram kemur í svarið við 2. tölul. hér að framan geta einstaklingar leitað eftir aðstoð hjá Jafnréttisstofu og fengið almennar leiðbeiningar hjá starfsmanni kærunefndarinnar óski þeir eftir því. Ekki hefur komið til þess að kalla hafi þurft á túlk í þeim málum sem borist hafa nefndinni. Í einstaka tilfellum hafa kærur borist á ensku en það hefur ekki valdið vandkvæðum eða kallað á aðstoð túlka. Komi fram ósk um slíkt verður það metið hvort þörf sé á þýðingu eða aðstoð túlks með þá meginreglu stjórnsýsluréttarins að leiðarljósi að einstaklingar geti notið fullra réttinda og réttaröryggis í samskiptum sínum við stjórnvöld. Óski aðilar eftir annars konar aðstoð vegna samskipta við nefndina, til að mynda vegna fötlunar, er hvert tilvik metið fyrir sig þar sem sömu sjónarmið eru höfð að leiðarljósi.