Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1209  —  597. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga (dvalar- og atvinnuleyfi).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Báru Sigurjónsdóttur, Gunnlaug Geirsson, Ólöfu Maríu Vigfúsdóttur, Valgerði Maríu Sigurðardóttur og Kristínu Öldu Jónsdóttur frá dómsmálaráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða útgáfu dvalar- og atvinnuleyfis ungs fólks vegna gagnkvæmra samninga Íslands við erlend ríki um atvinnudvöl ungs fólks. Með frumvarpinu er þannig lagt til að í stað þess að þessi ákvæði eigi við um ungt fólk á aldrinum 18–26 ára eigi þau við um ungt fólk á aldrinum 18–31 árs auk þess sem lagt er til að unnt verði að framlengja slík leyfi upp um tvö ár ef samningar við erlend ríki gera ráð fyrir því.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Innan nefndarinnar var meðal annars rætt um möguleika þess að rýmka almennt tækifæri útlendinga til að dvelja og starfa hér á landi. Þeim ákvæðum sem hér um ræðir er ætlað að jafna stöðu ungs fólks á við það sem nágrannaþjóðir okkar gera og veita því enn frekari tækifæri til að koma til landsins og dvelja hér í þeim tilgangi að kynnast þjóðinni og víkka menningarlegan sjóndeildarhring sinn, sbr. 66. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Dvalarleyfi af þessu tagi byggjast á gagnkvæmum samningum við önnur ríki. Markmið fyrirliggjandi frumvarps er þannig afmarkað við þá tilteknu gerð dvalarleyfis sem kveðið er á um í 66. gr. en frumvarpið varðar ekki aðrar tegundir dvalarleyfa sem eru nokkuð margar. Það samræmist því ekki efni, markmiði eða afmörkun frumvarpsins að fara í svo umfangsmiklar breytingar.
    Nefndin telur þó brýnt að skoðaðar verði nánar leiðir til að rýmka möguleika útlendinga til að starfa á Íslandi og tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna um að þátttaka fólks af erlendum uppruna auki fjölbreytileika, efli íslenskt samfélag og menningu og sé ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins. Þar segir einnig að tryggja þurfi að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína og þekkingu. Hinn 3. júní sl. var tilkynnt um stofnun nýrrar ráðherranefndar um málefni innflytjenda og flóttafólks sem á að vinna markvisst að áherslum stjórnarflokkanna í þessum málaflokki. Nefndin beinir því til þeirrar ráðherranefndar að taka til sérstakrar skoðunar einföldun á umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi og hvort tilefni sé til að rýmka þau skilyrði sem nú eru bundin í lög.
    Nefndin leggur til tæknilega lagfæringu sem þarfnast ekki skýringa og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      A-liður 1. gr. orðist svo: Í stað orðanna „18–26 ára“ í 1. mgr. kemur: 18–31 árs.
     2.      A-liður 2. gr. orðist svo: Í stað orðanna „26 ára“ í 1. málsl. kemur: 31 árs.

    Bergþór Ólason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 10. júní 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Birgir Þórarinsson.
Eyjólfur Ármannsson. Jóhann Friðrik Friðriksson. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Logi Einarsson. Kári Gautason.