Ferill 598. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1211  —  598. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (flutningur þjónustu milli ráðuneyta).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Báru Sigurjónsdóttur, Gunnlaug Geirsson, Ólöfu Maríu Vigfúsdóttur, Valgerði Maríu Sigurðardóttur og Kristínu Öldu Jónsdóttur frá dómsmálaráðuneytinu, Evu Margréti Kristinsdóttur og Áshildi Linnet frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Vigdísi Evu Líndal og Eddu Þuríði Hauksdóttur frá Persónuvernd og Veru Dögg Guðmundsdóttur og Kristínu Öldu Jónsdóttur frá Útlendingastofnun. Nefndinni bárust tvær umsagnir um málið frá Persónuvernd og Útlendingastofnun.
    Með frumvarpinu er kveðið á um breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, til að tryggja félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu fullnægjandi lagaheimildir til að sinna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, þar á meðal heimild til vinnslu persónuupplýsinga um umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þá er lagt til að skýra verkaskiptingu milli annars vegar málavinnslu og hins vegar þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Útlendingastofnun hefur hingað til annast bæði vinnslu umsókna um alþjóðlega vernd og þjónustu við umsækjendur en nú flyst þjónusta við umsækjendur og móttaka þeirra til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Í 27. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ráðherra beri ábyrgð á því að til staðar sé móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og að hann geti falið stofnun, sveitarfélagi, félagasamtökum eða öðrum rekstur hennar á grundvelli þjónustusamnings. Frumvarpinu er ætlað að tryggja að hvert það stjórnvald sem veiti þá þjónustu hafi fullnægjandi heimildir til vinnslu persónuupplýsinga, en í greinargerð kemur fram að við framlagningu frumvarpsins liggi ekki fyrir hvaða stjórnvald muni sinna umræddri þjónustu. Nú liggur fyrir að ráðgert er að Vinnumálastofnun muni veita þjónustuna og starfrækja móttökumiðstöð en í samræmi við 1. mgr. 27. gr. laga um útlendinga er ljóst að það verður gert á grundvelli þjónustusamnings.
    Í umsögn Persónuverndar er bent á að samkvæmt persónuverndarlögum, nr. 90/2018, og ákvæðum þeirrar Evrópugerðar sem lögin byggja á þurfi að tilgreina hver sé ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga og hvaða stofnanir megi fá persónuupplýsingar í hendur og í hvaða tilgangi. Telur Persónuvernd því að betur fari á því að tilgreina með skýrum hætti hvaða stjórnvald muni sinna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og fá þar með heimild til vinnslu persónuupplýsinga um útlendinga.
    Nefndin bendir á að umsækjendur um alþjóðlega vernd eru viðkvæmur hópur sem mikilvægt er að halda vel utan um, veita fullnægjandi þjónustu og tryggja góða og skilvirka móttöku þeirra. Vel fer á því að þessi þjónusta sé ekki á hendi þeirrar stofnunar sem einnig fer með meðferð umsókna og töku stjórnvaldsákvarðana um réttindi umsækjenda. Hér er því um að ræða mikilvægt skref í réttindavernd umsækjenda um alþjóðlega vernd.
    Þegar unnið er með persónuupplýsingar er nauðsynlegt að það sé gert á grundvelli skýrra lagaákvæða og heimilda í lögum. Nefndin tekur því undir með Persónuvernd að rétt væri að tilgreina hvaða stofnun eða stjórnvald skuli fara með þessa vinnslu og eins þá með það mikilvæga verkefni að taka á móti og þjónusta umsækjendur um alþjóðlega vernd. Það tryggir einnig skýrleika og gagnsæi að hafa það skýrt í lagatexta og auðveldar umsækjendum að finna upplýsingar þar um. Þá tryggir það ákveðinn stöðugleika og fyrirsjáanleika til framtíðar og styrkir grundvöll þess að byggja upp þessa þjónustu og þekkingu á málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Vinnumálastofnun sem ábyrgðaraðila. Að sama skapi getur þó verið nauðsynlegt að ráðherra geti áfram falið öðrum aðilum, stofnunum eða sveitarfélögum við sérstakar aðstæður móttöku og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þetta er atriði sem þyrfti að greina betur og kanna og marka skýra stefnu um til framtíðar.
    Það frumvarp sem nefndin hefur til meðferðar fjallar þó ekki um að ákveða hvaða stofnun eða stjórnvald skuli fara með móttöku og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd heldur einungis að tryggja þeim aðila nauðsynlegar lagaheimildir til vinnslu persónuupplýsinga svo hann geti rækt þetta hlutverk sitt. Nefndin telur því brýnt að samþykkja málið en beinir því til nýskipaðrar ráðherranefndar um málefni innflytjenda og flóttafólks að taka þetta til sérstakrar skoðunar og tryggja að sem fyrst verði tekin ákvörðun um hvaða stofnun eða stjórnvaldi verði falið þetta verkefni og leggja fram frumvarp þar um þar sem einnig verði gerð tillaga að uppfærslu ákvæða laganna um vinnslu persónuupplýsinga.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt óbreytt.
    Bergþór Ólason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 10. júní 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Birgir Þórarinsson.
Eyjólfur Ármannsson. Jóhann Friðrik Friðriksson. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Logi Einarsson. Kári Gautason.