Ferill 594. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1216  —  594. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (sýndareignir o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Bjarnadóttur og Drífu Kristínu Sigurðardóttur frá dómsmálaráðuneyti, Helgu Rut Eysteinsdóttur og Guðrúnu Ingu Guðmundsdóttur frá Seðlabanka Íslands og Margréti Arnheiði Jónsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Seðlabanka Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Breytingarnar byggjast annars vegar á þeim breytingum sem alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópurinn Financial Action Task Force (FATF) gerði á aðferðafræði sinni og tilmælum um sýndareignir frá árinu 2019 og hins vegar á þeirri reynslu sem komin er á beitingu laganna.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Íslensk stjórnvöld hafa mótað sér þá opinberu stefnu að íslensk löggjöf skuli á hverjum tíma innihalda fullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfylla þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til varna gegn slíkum brotum. Liður í því er að endurskoða löggjöf með reglubundnum hætti bæði með tilliti til alþjóðaskuldbindinga og reynslu af beitingu löggjafar. Meiri hlutinn telur frumvarpið mikilvægt í framangreindu tilliti.

Reglubundin endurskoðun.
    Meiri hlutinn vísar til þess að í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja til nefndarinnar eru settar fram ýmsar ábendingar um ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, aðrar en lúta með beinum hætti að frumvarpinu. Með vísan til framangreindra sjónarmiða um endurskoðun löggjafar með reglubundnum hætti beinir meiri hlutinn því til ráðherra að huga að þeim atriðum sem fram koma í umsögninni.
    Í 18. tölul. 3. gr. laganna er hugtakið viðurkennd persónuskilríki skilgreint. Í d-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að orðin „meðal annars“ komi á undan upptalningu þeirra skilríkja sem teljast viðurkennd persónuskilríki. Ætlunin er að taka af tvímæli um að upptalning ákvæðisins er ekki tæmandi um þau skilríki sem teljast til viðurkenndra persónuskilríkja, sbr. m.a. umfjöllun í 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja til nefndarinnar og fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að ákvæðið væri of almennt orðað og hvort heppilegra væri að vísa til þeirra skjala sem hafa verið viðurkennd í framkvæmd sem fullnægjandi. Meiri hlutinn telur rétt að ráðherra fylgist vel með því hvernig ákvæðið reynist í framkvæmd og þá hvort tilefni sé til að endurskoða það með vísan til þeirrar framkvæmdar.

Breytingartillögur.
Almennt.
    Nefndinni bárust tvær umsagnir við meðferð málsins sem hún hefur yfirfarið efnislega. Meiri hlutinn telur, í ljósi umsagna og annars samráðs, að breytingar þurfi að gera á frumvarpinu. Annars vegar er um að ræða tilteknar breytingar er lúta að notkun hugtaka og orðalagi og hins vegar breytingar á einstökum greinum eins og nánar verður gerð grein fyrir.

Skráningarskylda gjaldeyrisskiptastöðva o.fl.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands til nefndarinnar koma fram þau sjónarmið að nauðsynlegt sé að gera þá kröfu að aðili sem hyggst bjóða upp á þjónustu tengda sýndarfé hérlendis stundi starfsemi frá fastri starfsstöð hér á landi. Eftirlit getur reynst erfitt enda um að ræða starfsemi sem fer að miklu leyti fram rafrænt auk þess sem útbreiðsla sýndareigna hefur aukist. Með því að gera kröfu um fasta starfsstöð yrði fullnægjandi eftirlit Seðlabankans tryggt með þeim aðilum sem bjóða upp á framangreinda þjónustu hérlendis. Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til breytingar á frumvarpinu sem endurspegla þau.

Skilyrði skráningar.
    Seðlabanki Íslands vísar til þess í umsögn sinni til nefndarinnar að markmið þeirrar breytingar sem lögð er til í frumvarpinu um skilyrði skráningar skv. 37. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, sé að samræma hæfisskilyrði aðila sem standa að baki skráningarskyldum aðilum og hæfisskilyrði sem gilda um aðra sambærilega aðila á fjármálamarkaði. Aftur á móti sé með breytingunni sem lögð er til í frumvarpinu gengið lengra með því að setja skráningarskyldum aðilum og raunverulegum eigendum þeirra slík hæfisskilyrði. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið, vísar til þess að rétt sé að sambærilegar reglur gildi um sambærilega aðila á fjármálamarkaði og leggur til breytingar á frumvarpinu með vísan til framangreinds.

    Meiri hlutinn legur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðin „niðurstaða fengin um“ í b-lið 8. gr. falli brott.
     2.      Við 15. gr.
                  a.      B-liður orðist svo: Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Stundi skráningarskyldur aðili skv. 1. mgr. starfsemi hér á landi skal hún stunduð frá fastri starfsstöð.
                      Skráningarskyldur aðili skv. 1. mgr. skal veita upplýsingar um framkvæmdastjóra, stjórnarmenn, stofnendur, hluthafa og raunverulega eigendur ásamt ítarlegri lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi og upplýsingum um starfsstöð. Auk þess skal skráningarskyldur aðili veita upplýsingar um fyrirhugaðar aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka samkvæmt lögum þessum, sérstaklega varðandi áhættumat, könnun áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn, stefnu, stýringar og verkferla, þjálfun starfsmanna, ábyrgðarmann og rannsóknar- og tilkynningarskyldu. Seðlabanki Íslands getur óskað frekari upplýsinga í tengslum við skráningu sé það talið nauðsynlegt.
                  b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skráningarskylda aðila sem veita gjaldeyrisskiptaþjónustu og þjónustuveitenda sýndareigna.
     3.      C-liður 1. mgr. 16. gr. orðist svo: stjórn eða framkvæmdastjóri eru ekki fjárhagslega sjálfstæð eða hafa ekki yfir að ráða þekkingu, hæfni og reynslu sem nýtist í starfi.
     4.      Við 18. gr.
                  a.      B-liður falli brott.
                  b.      Í stað orðanna „2., 3. og 4. mgr.“ í c-lið komi: 3., 4. og 5. mgr.
     5.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018 (sýndareignir o.fl.).

Alþingi, 7. júní 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Diljá Mist Einarsdóttir,
frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir. Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Jóhann Páll Jóhannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.