Ferill 583. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1217  —  583. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011 (stækkanir virkjana í rekstri).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Svönu Helgadóttur og Herdísi Helgu Schopka frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Höllu Einarsdóttir og Marianne Jensdóttur Fjeld frá Umhverfisstofnun, Tómas Má Sigurðsson, Örnu Björg Rúnarsdóttur og Ásbjörn Blöndal frá HS Orku hf., Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Tryggva Felixson frá Landvernd, Snæbjörn Guðmundsson frá Félaginu Náttúrugriðum og Kristínu Lindu Árnadóttur og Óla Grétar Blöndal Sveinsson frá Landsvirkjun.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Landvernd, Félaginu Náttúrugriðum, HS Orku hf., Samtökum iðnaðarins, Landsvirkjun hf. og Umhverfisstofnun. Jafnframt bárust minnisblöð og gögn frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í framhaldi af beiðni nefndarinnar þar um, sem og minnisblað frá Landsvirkjun.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á gildissviði laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, með þeim hætti að lögin nái ekki til stækkana á virkjunum sem þegar eru í rekstri og falla undir lögin sökum stærðar svo framarlega sem stækkun felur ekki í sér rask á óröskuðu svæði.

Umfjöllun nefndarinnar.
Stækkanir virkjana á vatnasviði Þjórsár.
    Í umsögn Félagsins Náttúrugriða var vakin athygli á því að yrði frumvarpið að lögum myndi fyrirhuguðum stækkunum virkjana á vatnasviði Þjórsár verða veitt brautargengi. Frumvarpið þyrfti því að skoðast með það í huga, þá sérstaklega með tilliti til þess hvort stækkunaráformin séu arðsöm framkvæmd, sem og tengsla þeirra við áherslu Landsvirkjunar á Kjalölduveitu.
    Nefndin tók framangreint til skoðunar og óskaði eftir frekari skýringum frá Landsvirkjun um stækkunaráform á vatnasviði Þjórsár. Með hliðsjón af þeim er það mat meiri hluta nefndarinnar að stækkunaráformin séu arðbær ein og sér, þá sérstaklega í ljósi þess aukna afls sem stækkanirnar munu skila inn á kerfi fyrirtækisins. Þá liggur fyrir að aflaukning fyrirtækisins er mikilvæg til að bregðast við breytilegri eftirspurn raforku, til að mynda svo að ekki hægi á rafvæðingu samgangna.
    Með hliðsjón af framangreindu er það mat meiri hlutans að Kjalölduveita sé með öllu ótengd fyrirhuguðum stækkunaráformum. Þannig er mikilvægt að haft sé í huga að Kjalölduveita hefði í för með sér umhverfisrask á óröskuðu landi. Áréttar meiri hlutinn í því sambandi þær áherslur sem birtast í frumvarpinu, þ.e. að aukinni aflþörf sé mætt með stækkun virkjana á þegar röskuðu landsvæði.

Afmörkun landsvæða utan verndar- og orkunýtingaráætlunar.
    Í frumvarpinu er lagt til að landsvæði falli ekki undir verndar- og orkunýtingaráætlun hafi því nú þegar verið raskað vegna virkjunar sem er í rekstri og fellur undir áætlunina sökum stærðar. Við umfjöllun nefndarinnar kom þó fram það sjónarmið að stækkun virkjunar með nýtingar og/eða virkjunarleyfi Orkustofnunar, í samræmi við samþykkt aðalskipulag, ætti ekki að þurfa að falla undir verndar- og orkunýtingaráætlun.
    Vegna framangreindra sjónarmiða telur meiri hlutinn rétt að árétta mikilvægi þess að heildstætt hagsmunamat fari fram um virkjanakost á óröskuðu landsvæði. Með frumvarpi þessu er á hinn bóginn markmiðið að auðvelda stækkun virkjana á þegar röskuðu landsvæði. Grundvallarmunur er þannig á röskuðu landsvæði annars vegar og óröskuðu landsvæði hins vegar. Þá áréttar meiri hlutinn að verndar- og orkunýtingaráætlun er bindandi við gerð skipulagsáætlana, auk þess sem sveitarstjórn skal samræma gildandi skipulagsáætlanir við verndar- og orkunýtingaráætlun, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011.

Breytingartillaga.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að hlutverk Orkustofnunar við mat á því hvort stækkun virkjunar félli undir verndar- og orkunýtingaráætlun yrði samræmt við stjórnsýsluhlutverk Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011. Þá komu einnig fram sjónarmið um að mikilvægt væri að tryggt væri að mat Orkustofnunar tæki mið af umsögnum Skipulagsstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Í ljósi framangreinds telur meiri hlutinn rétt að árétta að mat Orkustofnunar á því hvort stækkun virkjunar falli undir verndar- og orkunýtingaráætlun skal ekki hafa nein áhrif á það ferli sem virkjunarkostur skal fara í gegnum áður en virkjunarleyfi er veitt. Í því ferli hefur Skipulagsstofnun hlutverk. Í ljósi hlutverks Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands er það hins vegar mat meiri hlutans að mikilvægt sé að skýrt sé kveðið á um að Orkustofnun leiti eftir umsögnum frá stofnunum tveimur. Lögð er til breyting þar að lútandi. Jafnframt er áréttað að þó að fleiri stofnanir séu ekki taldar upp í ákvæðinu útilokar það ekki að Orkustofnun leiti umsagna frá fleiri aðilum.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr. bætist nýr málsliður sem orðist svo: Stofnunin skal leita umsagna Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands áður en hún tekur ákvörðun samkvæmt ákvæði þessu.

    Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara um að hún telji ekki liggja fyrir gögn sem styðja það mat meiri hluta nefndarinnar að stækkunaráform Landsvirkjunar á virkjunum í Þjórsá séu arðbær sem sjálfstæðar framkvæmdir.
    Jakob Frímann Magnússon, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 10. júní 2022.

Vilhjálmur Árnason,
form.
Ingibjörg Isaksen,
frsm.
Bjarni Jónsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Njáll Trausti Friðbertsson. Orri Páll Jóhannsson.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þórunn Sveinbjarnardóttir,
með fyrirvara.