Ferill 687. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1223  —  687. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um ráðstefnuna Stokkhólmur+50.


     1.      Hvaða markmið hefur ríkisstjórnin sett sér varðandi niðurstöðu ráðstefnunnar Stokkhólmur+50, sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur boðað til í júní?
    Fundurinn Stokkhólmur+50 var haldinn 2.–3. júní samkvæmt ákvörðun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna til að minnast 50 ára afmælis ráðstefnu um umhverfi mannsins í Stokkhólmi sem markaði upphaf að skipulögðu alþjóðastarfi í umhverfismálum. Áður hafði þessara tímamóta verið minnst á hátíðarfundi í Naíróbí, UNEP+50, í tengslum við fimmta umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna en Stokkhólmsráðstefnan árið 1972 lagði grunninn að stofnun Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP).
    Fundurinn nú er ekki sambærilegur við Stokkhólmsráðstefnuna 1972 þar sem samin var sérstök yfirlýsing og samþykkt viðmið í umhverfismálum. Niðurstöður Stokkhólms+50 eru fyrst og fremst samantekt á innleggi og umræðum á fundinum en ekki ný alþjóðleg samþykkt eða yfirlýsing sem samið er um.
    Í uppleggi fyrir ráðstefnuna var lögð áhersla á að líta fram á veginn varðandi brýnustu aðgerðir á næstu árum og áratugum en ekki einungis að fagna tímamótunum og líta yfir farinn veg. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði í innleggi sínu áherslu á þrennt í því sambandi, baráttuna gegn hungri og fyrir fæðuöryggi, þar sem snúa þyrfti landhnignun við og tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins, hrein orkuskipti, sem væru lykill að árangri gegn loftslagsvá og þyrfti að hraða, og vernd villtrar náttúru og endurheimt vistkerfa, þar sem náttúran væri undirstaða lífsafkomu og velferðar mannkyns.

     2.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að ráðstefnan beini tilmælum til aðildarríkja um að:
                  a.      þau vinni í átt að alþjóðlegu banni við olíuleit og olíuvinnslu,
                  b.      haldið verði samræmt bókhald um þær jarðefnaeldsneytisauðlindir sem vitað er um, og hversu mikil hætta sé á að olíu- eða gasvinnsla hefjist á þeim svæðum, eða
                  c.      vistmorð verði viðurkennt sem brot á alþjóðalögum?

    Ráðherra beitti sér ekki sérstaklega fyrir ofangreindum málum eða nefndi þau í innleggi sínu. Ráðherra lagði mikla áherslu á að niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti yrði hætt á heimsvísu og að í þess stað væri fjárfest í hreinni tækni og endurnýjanlegri orku. Niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti nema hundruðum milljarða dala á ári samkvæmt mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og fleiri alþjóðastofnana og eru dragbítur á hrein orkuskipti.