Ferill 583. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1237  —  583. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011 (stækkanir virkjana í rekstri).

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Minni hlutinn telur jákvætt að stækkanir á núverandi virkjunum séu undanþegnar ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar í þeim tilvikum þegar stækkunin felur ekki í sér að nýju landsvæði verði raskað. Til að tryggja að Orkustofnun meti umsóknir um stækkanir á þeim grundvelli er því mikilvægt að taka skýrt fram í lögunum að henni beri að leita umsagnar frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands, líkt og meiri hlutinn leggur til.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram áhyggjur af því að yrði frumvarpið að lögum myndi skapast nýr og aukinn þrýstingur á veituframkvæmdir til að auka vatnsmagn í ám sem þegar eru virkjaðar. Félagið Náttúrugrið benti á að af þeim fjórum virkjunarkostum sem fjallað er um í greinargerð frumvarpsins séu þrjár vatnsaflsvirkjanir, sem Landsvirkjun hyggst stækka á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, þar sem allar forsendur virkjana myndu breytast til muna ef hugmyndir Landsvirkjunar um Kjalölduveitu næðu fram að ganga. Svo lengi sem Landsvirkjun heldur fast í hugmyndir sínar um að rústa Þjórsárverum með veituframkvæmdum er eðlilegt að öllu sem getur tengst þeim framkvæmdum sé mætt með tortryggni. Nefndin fékk því minnisblað frá Landsvirkjun varðandi forsendur fyrir stækkunum virkjana á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu þar sem fram kemur að þó svo að rétt sé að Kjalölduveita bæti nýtingu vatns á Þjórsársvæði og þar með arðsemi þeirra mögulegu stækkana sem til umræðu eru, þá sé hún ekki forsenda slíkra stækkana.
    Minni hlutinn telur að skoða verði þessa umræðu í samhengi við niðurstöðu stjórnarflokkanna varðandi rammaáætlunina sjálfa (332. mál) þar sem lagt er til að færa Kjalölduveitu úr verndarflokki í biðflokk á hæpnum forsendum. Sú niðurstaða var ekki kynnt nefndinni fyrr en á síðustu dögum þingsins. Þó að fyrrgreint minnisblað Landsvirkjunar hafi svarað hluta af þeim áhyggjum sem upp komu, þá hefur nefndinni ekki gefist tóm til að kanna til hlítar hversu mikið forsendur stækkana í Þjórsá myndu breytast með tilkomu Kjalölduveitu. Þó að ljóst sé að sú framkvæmd yrði ekki með beinum hætti tengd stækkunaráformum í Þjórsá, þá verður ekki horft fram hjá því að fjárhagslegur og pólitískur þrýstingur kynni að aukast á frekari tilfærslu Kjalölduveitu á seinni stigum rammaáætlunar.

Alþingi, 13. júní 2022.

Andrés Ingi Jónsson.