Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1243  —  185. mál.
Breytt fyrirsögn.

3. umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um áhafnir skipa.

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

    Við umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram gagnrýni á málsmeðferð frumvarpsins um að fagfélög sjófarenda hafi ekki fengið áheyrn ráðherra og ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til sjónarmiða þeirra. Fulltrúar þeirra fagstétta sem frumvarpið varðar hafa lýst yfir áhyggjum vegna þess að hagsmunir málsins lúta að grundvallaröryggisþáttum sjófarenda.
    Helstu sjónarmið sem fram hafa komið að hálfu Félags skipstjórnarmanna, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Sjómannasambands Íslands, Félags skipstjórnarmanna og aðstandenda Slysavarnaskóla sjómanna og Skipstjórnarskólans eru eftirfarandi:
          Nauðsyn þess að mönnunarskírteini verði gefin út fyrir fiskiskip eins og önnur skip, til að koma í veg fyrir að fækkað sé í áhöfn á kostnað öryggis, hvíldar og vinnuálags.
          Andstaða við að undanþágu- og mönnunarnefndir verði lagðar niður og hlutverkið falið Samgöngustofu, enda sé nauðsynlegt að fagaðilar fái að koma að veitingu undanþága og frávika frá mönnun.
          Lagt til að útivistartími smáskipa verði að hámarki 14 tímar með skertri mönnun.
          Andstaða við heimild háseta til að gegna starfi stýrimanns, en með því sé löggjafinn einhliða að leggja niður menntunarkröfur yfirmanna á skipum.
          Andstaða við að leyfilegt verði að komast hjá því að hafa vélstjóra í smáskipi.
          Andstaða við að eigandi báts geti verið einn á sjó lengur en 14 tíma, enda sé það mikilvægt öryggisatriði sem varði ekki aðeins eiganda heldur aðra sjófarendur. Það gangi jafnframt gegn siglingareglum og lögum um hvíldartíma sjómanna.
    Minni hlutinn tekur að sinni ekki afstöðu til allra þessara álitaefna en telur ljóst að hagsmunaaðilum hafi ekki verið veitt tilhlýðileg áheyrn né hafi verið komið nægjanlega til móts við sjónarmið þessara hagsmunasamtaka þeirra sem starfa í áhöfnum skipa við gerð frumvarpsins. Það er í sjálfu sér alvarlegur ágalli við meðferð málsins, þau álitaefni sem enn standa út af eru svo umfangsmikil og snúast um slíka grundvallarhagsmuni þeirra sem vinna um borð í skipum að minni hlutinn telur ekki forsendur fyrir því að afgreiða málið með fullnægjandi hætti á þeim stutta tíma sem eftir er af 152. löggjafarþingi.
    Frumvarpið hefur hins vegar farið í gegnum 2. umræðu og atkvæðagreiðslu að henni lokinni. Stærstur hluti þinglegrar meðferðar er því að baki og vilji meiri hluta Alþingis ljós varðandi ýmsa þætti í frumvarpinu. Þar liggur því fyrir mikilvægur grunnur að áframhaldandi vinnu ráðuneytisins sem unnt er að nýta til að flýta þeirri vinnu sem fram undan er, svo að hægt sé að leggja málið aftur fram í sátt snemma á komandi haustþingi.
    Það eru kaldar kveðjur sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar sendir sjófarendum daginn eftir sjómannadag með því að leggja til óbreytta afgreiðslu málsins. Hér gafst tækifæri til að hlusta á réttmæta gagnrýni fagfélaga sjófarenda varðandi grundvallarlöggjöf þeirra sem stunda sjósókn og standa með hagsmunum þeirra. Þess í stað velur meiri hlutinn að skella skollaeyrum við ákalli frá öllum hagsmunaaðilum sjómanna. Minni hlutinn getur ekki tekið þátt í slíkri afgreiðslu.
    Minni hlutinn leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að eiga það samráð við hagsmunasamtök sjófarenda sem nauðsynlegt er til að ná þeirri sátt sem mikilvægt er að ríki við þá hópa sem löggjöfin fjallar um.
    Jakob Frímann Magnússon, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir sig fylgjandi þessu áliti.

Alþingi, 13. júní 2022.

Andrés Ingi Jónsson, frsm. Helga Vala Helgadóttir. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.