Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1244  —  6. mál.
Síðari umræða.

Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu félagslegs húsnæðis.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Tillaga til þingsályktunar um uppbyggingu félagslegs húsnæðis er lögð fram með það að markmiði að stuðla að húsnæðisöryggi fólks og heilbrigðara efnahagslífi. Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórnin taki næsta skref í átt að fullri endurreisn félagslega húsnæðiskerfisins og að hún efli almenna íbúðakerfið verulega með því að hafa forgöngu um uppbyggingu 1.000 leigu- og búseturéttaríbúða á hverju ári í samstarfi við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða. Þannig væri unnt að fjölga íbúðum um allt land fyrir tekjulægri hópa og draga úr verðhækkunum, bæði á eigna- og leigumarkaði. Minni hlutinn telur að markaðurinn leysi ekki húsnæðisvandann einn og sér heldur eigi stjórnvöld að skapa kjölfestu sem markaðurinn getur síðan byggt á.
    Minni hlutinn telur að þörf sé á skýrri stefnumörkun stjórnvalda í húsnæðismálum og að ríkisstjórnin þurfi að setja sér langtímahúsnæðisáætlun þar sem sett eru fram skýr töluleg markmið um fjölda íbúða sem þarf að byggja til lengri og skemmri tíma. Í umsögn Búseta kemur fram að félagið leggi höfuðáherslu á langtímahugsun og húsnæðisöryggi og tekur Búseti undir þörfina á skýrum tölulegum markmiðum og að unnið sé að langtímahúsnæðisáætlun. Minni hlutinn tekur undir það sem fram kemur í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um að slík áætlun sé byggð á vandaðri þarfagreiningu með tilliti til viðeigandi áhrifaþátta. Minni hlutinn leggur til að tillögutexti taki breytingum þannig að ríkisstjórnin komi á fyrirkomulagi húsnæðisáætlunar líkt og í samgöngumálum, sbr. lög um samgönguáætlun, nr. 33/2008.
    Alþýðusamband Íslands hefur krafist í stefnu sinni í húsnæðismálum að stjórnvöld tryggi öllu launafólki aðgang að öruggu og góðu húsnæði, óháð búsetu og tekjum. Tryggja þurfi aukið fjármagn í stofnframlög til að hraða uppbyggingu á nægilegum fjölda íbúða. Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að mikilvægt sé að tryggja aukningu stofnframlaga til að koma til móts við þá miklu þörf sem er á félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögum. Minni hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið.
    Eins og Alþýðusamband Íslands bendir á í umsögn sinni eru aðgerðir til eflingar leigumarkaðar, eins og með almenna íbúðakerfinu, mikilvægur þáttur í því að draga úr húsnæðisbyrði landsmanna. Þá kemur fram í umsögn Reykjavíkurborgar að nauðsynlegt sé að efla almenna íbúðakerfið í samstarfi við húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Minni hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið.
    Minni hlutinn telur brýnt að vekja athygli á stöðu leigjenda í þessu samhengi. Leiguverð hefur hækkað sem gerir það að verkum að leigjendur upplifa minna húsnæðisöryggi og húsnæðiskostnaður þeirra er meira íþyngjandi en þeirra sem búa í eigin húsnæði. Ljóst er að aðgerða er þörf til að auka húsnæðisöryggi — enda er húsnæði mannréttindi — og lækka byrði húsnæðiskostnaðar hjá efnaminni leigjendum. Minni hlutinn tekur undir það sem fram kemur í niðurstöðum starfshóps þjóðhagsráðs um umbætur á húsnæðismarkaði þar sem segir að til að stemma stigu við þessari stöðu leigjenda sé almenna íbúðakerfið lykilþáttur og leggur hópurinn til að áhersla sé lögð á áframhaldandi uppbyggingu kerfisins og aukna hlutdeild þess á leigumarkaði á komandi árum. Minni hlutinn telur mikilvægt að koma jafnvægi á leigumarkaðinn og að af þeim sökum sé nauðsynlegt að byggja almenna íbúðakerfið hratt upp og hraðar en lagt er til í niðurstöðum starfshópsins. Almenna íbúðakerfið gengur út á það að aðstoða sérstaklega þann hóp sem er undir ákveðnum tekju- og eignamörkum og hefur oft ekki annarra kosta völ en þann íþyngjandi húsnæðiskost sem leigumarkaður býður upp á. Almenna íbúðakerfið og efling óhagnaðardrifinna leigufélaga er því lykilatriði til að koma jafnvægi á leigumarkaðinn.
    Í umsögn Félagsbústaða kemur fram að forsenda frekari uppbyggingar húsnæðis sé aukin aðkoma ríkisvaldsins og sveitarfélaganna sem og samvinna við óhagnaðardrifin leigufélög. Þá telja Félagsbústaðir eðlilegt að ábyrgð sveitarfélaganna sé skýrari og stuðlað verði að jafnari ábyrgð og jöfnuði framboðs félagslegs húsnæðis meðal sveitarfélaga landsins. Í Reykjavík séu hlutfallslega langflestar félagslegar leiguíbúðir og telja verði eðlilegt að öll sveitarfélög axli ábyrgð í þessum efnum. Áþekk sjónarmið koma fram í umsögn Reykjavíkurborgar en þar er lögð sérstök áhersla á nauðsyn þess að lagður sé grunnur að því með hvaða hætti unnt sé að jafna ábyrgð sveitarfélaganna. Minni hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og telur mikilvægt í þessu samhengi að skoðað verði gaumgæfilega hvernig hægt sé að jafna byrði sveitarfélaga þegar kemur að uppbyggingu félagslegs húsnæðis.
    Eins og Öryrkjabandalag Íslands bendir á í umsögn sinni verður að marka skýra stefnu í húsnæðismálum fólks sem hefur lægstu tekjurnar til að stjórnvöld uppfylli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Reykjavíkurborg vekur athygli í umsögn sinni á sérstökum uppbyggingaráætlunum fyrir ýmsa hópa, svo sem fatlað fólk og aldraða. Í þessu sambandi telur minni hlutinn að þessar áætlanir þurfi að samþætta fyrir öll sveitarfélög til tryggja yfirsýn og langtímahugsun í húsnæðismálum á Íslandi. Það stuðlar að jafnari byrði sveitarfélaganna og markvissari stuðningi hins opinbera í húsnæðisuppbyggingu.
    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við bætist ný málsgrein sem orðist svo:
    Alþingi ályktar jafnframt að fela ríkisstjórninni að hefja vinnu við gerð fyrirkomulags húsnæðisáætlunar.

Alþingi, 13. júní 2022.

Guðný Birna Guðmundsdóttir,
form., frsm.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halldóra Mogensen.