Ferill 690. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1250  —  690. mál.
Leiðrétt fyrirsögn.

2. umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs (lágmarkstryggingavernd, tilgreind séreign o.fl.).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Minni hlutinn gerir aðallega þær athugasemdir við frumvarpið að þó svo að lengi hafi staðið til að lögfesta hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs um 3,5 prósentustig, úr 12% upp í 15,5%, virðist útfærslan ekki hafa verið unnin í nægu samráði við helstu hagsmunaaðila á borð við verkalýðsfélög og lífeyrissjóði, ef marka má umsagnir þeirra. Jafnframt er ljóst að ekki er einhugur meðal þeirra um útfærsluna, heldur þvert á móti afar skiptar skoðanir og hafa margir þeirra gagnrýnt hana harðlega í umsögnum sínum. Reyndar virðast fyrst og fremst tveir aðilar vera sáttir við útfærsluna, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, sem sendu nefndinni sameiginlega umsögn um málið. Það er einkennilegt í ljósi þess að um er að ræða fulltrúa öndverðra hagsmuna og afstaða þeirra virðist samkvæmt bestu vitund minni hlutans fara þvert gegn vilja margra af stærri aðildarsamtökum Alþýðusambands Íslands.
    Eins og er rifjað upp í umsögn Verkalýðsfélags Akraness var upphaflega samið um hækkun á mótframlagi atvinnurekenda í kjarasamningum 2016 og var það liður í jöfnun lífeyrisréttinda á almennum vinnumarkaði við opinbera markaðinn. Meðal annars kom fram í þeim samningi að við endurskoðun kjarasamnings ASÍ og SA ætti einstaklingum að verða heimilt að ráðstafa, að hluta eða fullu, 3,5% auknu framlagi launagreiðanda í bundinn séreignarsparnað í stað samtryggingar til að auðvelda launafólki starfslok og auka sveigjanleika. Samning með þessum skilyrðum greiddu félagsmenn aðildarfélaga ASÍ atkvæði um og samþykktu hann. Samt sem áður virðast SA og ASÍ hafa breytt því sem kom fram í kjarasamningnum um bundna séreign og búið til nýtt fyrirbæri sem kallast tilgreind séreign, sem virðist hafa verið þannig upp byggð að hún ætti öll að renna til lífeyrissjóðanna og launafólk hefði ekki heimild til að velja sér annan vörsluaðila, auk þess sem hún yrði bundin mun þrengri skilyrðum en frjáls viðbótarsparnaður. Þetta er ekki það sem almennt launafólk hélt að það væri raunverulega að greiða atkvæði um.
    Minni hlutinn gerir sérstaklega athugasemdir við b-lið 2. gr. frumvarpsins þar sem er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilað að kveða á um í samþykktum sínum að sjóðfélagi geti ráðstafað allt að 3,5% iðgjaldshluta til tilgreindrar séreignar. Samkvæmt orðanna hljóðan yrði lífeyrissjóðum þannig heimilt, en alls ekki skylt, að bjóða sjóðfélögum upp á þann möguleika að ráðstafa þessum iðgjaldshluta í séreignarsparnað að eigin vali. Sjóðfélögum yrði því ekki tryggður sá réttur sem þeim hefði átt að hlotnast samkvæmt fyrrnefndum kjarasamningi til að hafa frjálst val um slíka ráðstöfun, heldur yrði það undir lífeyrissjóðunum komið hvort þeir veittu slíka heimild. Þannig yrði samningsbundinn réttur launþega háður því að aðrir aðilar sem komu ekki að samningsgerðinni heimiluðu nýtingu þess réttar. Slíkt inngrip í kjarasamninga á vinnumarkaði telur minni hlutinn vera íþyngjandi og þar með óásættanlegt.
    Minni hlutinn gerir einnig athugasemdir við b-lið 3. gr. frumvarpsins þar sem er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að taka gjald af sjóðfélaga sem hlýst af kostnaði við flutning á tilgreindri séreign til annars aðila. Minni hlutinn telur ákvæðið vera allt of víðtækt með hliðsjón af því hve óhófleg gjaldtaka í formi hvers kyns þjónustugjalda er útbreidd í fjármálakerfinu og er oft úr öllum tengslum við raunverulegan kostnað. Kostnaður við millifærslu eins og þá sem um ræðir er jafnan lítill og ákvæðið þyrfti því að setja gjaldtökunni skýrari takmörk.
    Samhliða lögfestingu hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs er í II. kafla frumvarpsins lagt til að gildissvið úrræða fyrstu kaupenda til að nýta séreignarsparnað til öflunar húsnæðis verði rýmkað þannig að þau nái einnig til þeirra sem hafa ekki átt húsnæði í fimm ár. Minni hlutinn er fylgjandi þessu að svo stöddu enda hefur aldrei verið erfiðara fyrir fólk í þeirri stöðu að komast inn á húsnæðismarkaðinn, en telur þó að það eigi ekki að verða að meginreglu að ganga á lífeyrissparnað til að brúa bil heldur verði að finna fleiri leiðir til að húsnæðiskostnaður verði viðráðanlegur fyrir sem flesta, án þess að ganga á lífeyrissparnaðinn.
    Jafnframt bendir minni hlutinn á að sú hugmynd að rýmka úrræði fyrstu kaupenda til þeirra sem hefðu misst húsnæði sitt og verið utan húsnæðismarkaðar tiltekinn tíma á rætur að rekja til starfshóps sem félags- og barnamálaráðherra skipaði í aðdraganda lífskjarasamninga og skilaði af sér tillögum í apríl 2019. Þar var m.a. lagt til að úrræði vegna fyrstu kaupa næðu einnig til þeirra sem hefðu verið á leigumarkaði í tvö ár. Þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við lífskjarasamningana voru kynntar fyrir hagsmunaaðilum var þetta viðmið komið í þrjú ár, en þegar þær voru kynntar almenningi var það komið í fimm ár. Minni hlutinn hefði frekar viljað að miðað yrði við þrjú ár eins og var kynnt á sínum tíma og jafnframt yrði miðað við sama árafjölda í skilyrðum hlutdeildarlána samkvæmt lögum um húsnæðismál.
    Vegna þess stutta tíma sem gafst til meðferðar málsins, ýmissa annmarka á frumvarpinu og hvernig það fer í bága við þá kjarasamninga sem voru bornir undir atkvæði launþega, telur minni hlutinn rétt að afgreiðslu málsins verði frestað og það tekið til nánari meðferðar í tengslum við fyrirhugaða heildarendurskoðun laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, í nánara samráði við fulltrúa helstu hagaðila. Með hliðsjón af framangreindu leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 13. júní 2022.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir.