Ferill 533. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1259  —  533. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og fleiri lögum (lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Elísabetu Júlíusdóttur, Guðmund Kára Kárason, Gunnlaug Helgason, Hjörleif Gíslason og Tinnu Finnbogadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Yngva Örn Kristinsson og Úlfar Frey Stefánsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Óttar Guðjónsson frá Lánasjóði sveitarfélaga og Flóka Halldórsson, Kristjönu Jónsdóttur, Björk Sigurgísladóttur, Lindu Kolbrúnu Björgvinsdóttur og Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Seðlabanka Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Arctica Finance hf., Byggðastofnun, innviðaráðuneyti, Lánasjóði sveitarfélaga ohf., Samkeppniseftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Þá barst nefndinni minnisblað um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Frumvarpinu er einkum ætlað að innleiða efni Evrópugerða á sviði fjármálamarkaðar, m.a. svokallaðan CRD IV-pakka (e. Capital Requirements Directive), auk áorðinna breytinga. Þá eru lagðar til breytingar á starfskjaraákvæðum laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og laga um verðbréfasjóði til að innleiða ákvæði reglugerðanna AIFMD (e. Alternative Investment Fund Managers Directive) og UCITS V (e. Undertakings for Collective Investment in Transferable Securities) þar um. Auk þess eru lagðar til breytingar sem miða að því að skýra eða einfalda lög um fjármálafyrirtæki eða lagfæra tæknilega annmarka á lögum.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpinu er, líkt og áður segir, lagt til að innleiddar verði Evrópugerðir á sviði fjármálamarkaðar. Innleiðingar þær sem frumvarpið felur í sér eru mikilvægur liður í því að vinna upp svokallaðan innleiðingarhalla á reglugerðum EES-svæðisins. Auk þess að ljúka við innleiðingu CRD IV-pakkans sjálfs mun samþykkt frumvarpsins veita Seðlabanka Íslands heimild til að innleiða fimmtán undirgerðir sem útfæra ákvæði CRD IV-pakkans. Leggur meiri hlutinn áherslu á mikilvægi þess að afgreiða málið, enda takist með því að innleiða um 20 Evrópugerðir.
    Meiri hlutinn telur brýnt að virtar séu þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist á grundvelli 7. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið og að markvisst sé unninn niður sá innleiðingarhalli sem hefur myndast. Þá áréttar meiri hlutinn að þau inngrip í starfsemi fjármálamarkaða sem frumvarpið felur í sér grundvallast á jafnræði og á lögmætu markmiði um stöðugleika og heilleika fjármálamarkaða.

Breytingartillögur.
Almennt.
    Meiri hlutinn telur, í ljósi umsagna um málið og annars samráðs, m.a. við fjármála- og efnahagsráðuneyti, að breytingar þurfi að gera á frumvarpinu. Annars vegar er um að ræða tilteknar breytingar er lúta að notkun hugtaka og orðalagi og hins vegar breytingar á einstökum greinum eins og nánar verður gerð grein fyrir.

Gildistaka (215. gr.).
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja er vikið að gildistöku laganna. Telja samtökin líklegt að ýmis fjármálafyrirtæki þurfi að gera breytingar á samþykktum sínum vegna ákvæða frumvarpsins um tilnefningarnefndir og starfskjaranefndir. Gildistaka laganna er áformuð 1. júlí 2022 en aðalfundir fyrirtækja vegna ársins 2021 hafa nú þegar farið fram. Af þeim sökum telja samtökin æskilegt að gildistöku þessara ákvæða verði frestað til miðs næsta árs.
    Leggur meiri hlutinn til breytingu sem ætlað er að koma til móts við þau sjónarmið sem voru uppi í umsögninni hvað þetta varðar.

Birting gerða (143. gr. og 8. gr.).
    Í umsögn Seðlabanka Íslands er lögð til breyting á 143. gr. frumvarpsins. Leggur meiri hlutinn til breytingu til samræmis við ábendingu Seðlabankans, auk þess að gera samsvarandi breytingu á síðari málslið greinarinnar. Þannig verði Seðlabanka Íslands heimilt við setningu reglna skv. 117. gr. b að vísa til birtingar á reglugerðum í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku. Nýti Seðlabanki Íslands þessa heimild skal hann gera enska útgáfu reglugerðanna aðgengilega á vef sínum.
    Þá bendir Seðlabankinn á að í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins sé vísað til birtingar á reglugerð (ESB) 2019/876 í auglýsingu nr. 4/2022 í C-deild Stjórnartíðinda. Eftir að auglýsingin var birt voru gerðar leiðréttingar á þýðingu reglugerðarinnar og var sú útgáfa birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins 5. maí. Með vísan til þess er lagt til að ákvæðinu verði breytt á þann hátt að vísað verði til birtingar í EES-viðbætinum í stað auglýsingarinnar í C-deild Stjórnartíðinda. Leggur meiri hlutinn til breytingu á 4. gr. frumvarpsins til að verða við tillögu Seðlabankans. Auk þess leggur meiri hlutinn til að vísanir í 4. gr. frumvarpsins til C-deildar Stjórnartíðinda verði felldar brott og í stað þeirra komi vísanir til birtingar í EES-viðbætinum til samræmis við almennt fyrirkomulag.

Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga (b-liður 136. gr.).
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Lánasjóði sveitarfélaga, Byggðastofnun, innviðaráðuneyti og Seðlabanka Íslands auk minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneyti þar sem tæpt er á sama efni, þ.e. sérstöðu Lánasjóðs sveitarfélaga og Byggðastofnunar. Meiri hlutinn leggur til að Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga ohf. verði undanþegin kröfum um reglubundin skýrsluskil um laust fé og stöðuga fjármögnun. Auk þessa verði Seðlabanka Íslands heimilað að undanskilja Byggðastofnun og Lánasjóð sveitarfélaga ohf. öðrum kröfum um skýrsluskil samkvæmt lögunum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra ef þau eru ekki nauðsynleg til að Fjármálaeftirlitið geti haft fullnægjandi eftirlit með þeim eða gegnt öðrum hlutverkum sínum, eftir atvikum með því að takmarka kröfur um tíðni eða umfang skýrsluskila frá Byggðastofnun og Lánasjóði sveitarfélaga ohf.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 11. júní 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Diljá Mist Einarsdóttir. Ágúst Bjarni Garðarsson.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Jóhann Páll Jóhannsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir.